Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 12:00:50 (6695)

2002-03-26 12:00:50# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[12:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér þykja gerast tíðindi ef formaður Samfylkingarinnar er orðinn svo hrifinn af kvótakerfinu að hann vilji endilega að það verði tekið upp í öllu Evrópusambandinu.

Það er margt fleira en tvennt sem gerir það að verkum að ég tel sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna óaðgengilega fyrir Íslendinga. Fyrir það fyrsta færast ákvarðanir um heildarveiði og fleiri slíkir hlutir til Brussel. Í öðru lagi fer forræðið frá 12 út að 200 mílum til Brussel. Það gerist á grundvelli ákvæða Rómar-sáttmálans og aldrei hefur verið léð máls á neinum varanlegum undanþágum frá því. Í þriðja lagi færist samningsrétturinn til Brussel, samningar um óútkljáð mál, samningar um þá stofna sem við eigum eftir að ná samkomulagi um plús framtíðarsamningar um hina.

Samið er um norsk-íslensku síldina til árs í senn og loðnusamningarnir eru ekkert endilega fastir í hendi, það færi því þangað. Er einhver hér í þessum sal sem trúir því að Íslendingum mundi ganga vel ef Evrópusambandið tæki núna við og ætti að semja um kolmunna við Norðmenn og Rússa, Færeyinga og aðra? Síðan ættum við að slást í bakherbergjunum innan Evrópusambandsins um hlutdeild okkar í kolmunnanum við hinn hungraða og stóra úthafsveiðiflota Evrópusambandsríkjanna. Svarið er nei. Ég trúi því ekki að hér sé nokkur maður sem telji að þetta væri vænleg hagsmunagæsla fyrir Ísland.

Í fjórða lagi er auðvitað ljóst að með því að við gengjum í Evrópusambandið og sjávarútvegurinn verður hluti af fjórfrelsinu eða sameiginlega markaðnum, fjárfestingarhamlanirnar falla niður, þá opnast bakdyrnar í gegnum kvótahoppið. Og það er ekki rétt að menn telji sig hafa leyst öll vandamál í þeim efnum. Uppi eru deilumál, núningur og átök í þeim efnum.

Í fimmta lagi er ekki útkljáð mál veiðireynsla hvaða tímabils yrði lögð til grundvallar. Er ekki líklegt að Evrópusambandsþjóðirnar bentu á þá staðreynd að í sameiginlegu fiskveiðistefnunni er það tímabilið 1973--1978 sem lagt er til grundvallar hjá þeim? Þetta eru þjóðir með langvarandi veiðireynslu á Íslandsmiðum.

Loks á sjávarútvegurinn ekki hvað síst mikið undir því að hér séu í landinu sjálfstæð stjórntæki í efnahagsmálum þannig að hann varðar líka það sem gerist við inngöngu í Evrópusambandið að öðru leyti.