Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 12:28:04 (6698)

2002-03-26 12:28:04# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, RG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[12:28]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir að þetta er afskaplega viðamikil skýrsla, og ágæt, sem hefur verið lögð fyrir þingið. Hún drepur á nær öllum þáttum utanríkismála og dregur mjög vel fram hversu víðtæk utanríkismál Íslendinga eru orðin. Í þessari skýrslu gætu þingmenn í raun og veru fundið tilefni til að koma inn á ólíklegustu þætti hér í dag, og full ástæða væri til að þingmenn kæmu að ólíkum þáttum í skýrslunni.

Hæstv. utanrrh. velur sjálfbæra þróun sem þema í ræðu sinni í framsögu fyrir skýrslunni og í raun og veru tekur hann umhverfisvinkil í ræðunni sjálfri. Ég er ekki hissa á því. Við lestur skýrslunnar minntist ég orða Thorbjørns Jaglands á fundi í flokknum mínum fyrir nokkrum árum þegar hann sagði að utanríkismál væru stærstu pólitísku mál samtímans og að umhverfismál væru stærsti hluti utanríkismála dagsins í dag. Það hefur verið dregið fram í þessari umræðu. Þó að segja megi að nú um stundir hafi hryðjuverk og öryggismál verið í brennidepli breytir það því ekki að umhverfismálin gnæfa yfir í öllum þáttum utanríkismála.

Ég held því fram, herra forseti, að í grundvallaratriðum séum við, allir flokkar, sammála um að unnið skuli út frá sjálfbærri þróun. Við erum sammála um að þannig eigi að vinna mál hér heima og þannig eigi að vinna mál í samskiptum þjóðanna, og okkur komi við hvernig haldið er á málum hinum megin á hnettinum vegna þess að allt snúist þetta um gæfuríka meðferð auðlinda og nokkuð jöfn skipti auðæfanna ef hægt er að taka svo djúpt í árinni.

[12:30]

Í umræðunni kemur fram að 70% af orku okkar komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Mér finnst nauðsynlegt að draga það fram að við erum sammála um að nýta þessa orku skynsamlega og að mikilvægt er að eiga þessa endurnýjanlegu orku. En okkur greinir á um hvert á að sækja hana og til hvers á að nota hana. Þá vil ég gagnrýna það, herra forseti, að enn hefur ekki séð dagsins ljós áætlun um hvernig við ætlum að nýta okkar orku. Vissulega hefur það komið fram að nú um miðjan apríl munu drög að rammaáætlun koma fram og þá munum við fá að sjá hvernig faglegt mat liggur um það hvernig við förum í virkjanir. En auðvitað, eins og oft hefur komið fram, hefði slík rammaáætlun átt að liggja fyrir fyrir löngu síðan.

Herra forseti. Ég vil aðeins nefna orkumálin af því að það kemur líka fram í ræðu hæstv. ráðherra um vetnið að ríkisstjórnin hefur með yfirlýsingum komið fram með mikilvægan stuðning við vetnisvæðingu landsins. Verklega eða fjárhagslega, enda kemur það fram í svari sem liggur á borðum þingmanna í dag, hefur ríkisstjórnin enn þá ekkert lagt fram til þessarar vetnisvæðingar, aðeins stuðning og yfirlýsingar, en fyrir liggur að hugsanlega verði lagðar fram 80 millj. Hins vegar munum við þurfa að nýta meira en 4 gígavattstundir af þeirri raforku sem við ætlum að framleiða ef við ætlum að vetnisvæða eins og hugur stendur til. En ekkert er farið að ræða hvert við ætlum að sækja þá orku eða hvernig við ætlum að virkja til vetnisvæðingarinnar. Í skýrslunni sem við höfum verið að ræða um Kárahnjúkavirkjun koma fram áform um virkjanir en það kemur ekki fram hvar við ætlum að virkja til að vetnisvæða.

Það er vikið að sjávarútveginum og að nýta með sjálfbærum hætti okkar lifandi auðlindir. Okkur greinir ekki á um það og ég held að það sé nokkur einhugur um að við veiðum hval svo fremi að sátt náist um það á alþjóðavettvangi. Ráðherrann fór yfir þau mál. Ég vil spyrja hann þess vegna hvort mögulegt sé að við verðum ekki viðurkennd sem þátttakendur á næsta fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í tilefni orða hans um nýtingu sjávarauðlinda.

Skoðum aðeins hvernig heimavinnan okkar er varðandi þessi mál. Við erum aðilar að svokölluðum CITES-samningi. Fyrir tveimur árum var aðildarríkjafundur haldinn og áður en við sendum fulltrúa okkar á þann fund settum við lög til að fullgilda samninginn. Þau eru fremur einföld. En til þess að þau gætu gengið fljótt fyrir sig var ákveðið að samkvæmt lögunum yrðu settar ítarlegar reglugerðir um innflutning og útflutning. Lögin snúa að alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna. Það eru efnisreglur um að a.m.k. tvær reglugerðir verði settar í tveimur ráðuneytum, umhvrn. og sjútvrn. Það er margbúið að kalla eftir þessum reglugerðum samkvæmt samningnum en ekkert bólar á þeim. Enn þá tveimur árum síðar vantar reglugerðirnar. Við sendum fólk á þennan fund til að styðja Noreg við að hrefnan yrði tekin út af lista um dýr í útrýmingarhættu. Það var gott. Við erum sammála um þetta. En reglugerðirnar um þessi mál vantar og þá höfum við ekki unnið okkar heimavinnu eins og til er ætlast.

Sama má segja um leiðtogafundinn um sjálfbæra þróun sem er eins konar framhald Ríó-stefnunnar. Annar stærsti samningur þar er samningur um líffræðilega fjölbreytni. Samkvæmt honum á að vinna landsáætlun, framkvæmdaáætlun þar sem tryggt er að skuldbindingar samkvæmt samningnum fari inn í alla þætti þjóðlífsins. Við höfum verið aðilar að þessum samningi frá 1994. Það er margsinnis búið að spyrja um hann. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Kolbrún Halldórsdóttir frá Vinstri grænum hafa kallað eftir því að við fylgjum þessum málum eftir. En þarna stoppum við. Við erum sammála um grundvallaratriðið en við erum ekki alltaf sammála um hvernig á málum er haldið og um útfærsluna. Ég kalla eftir því, virðulegi forseti, að við einhendum okkur í þessa vinnu og að hæstv. utanrrh. hafi frumkvæði að því að við fylgjum eftir þeim alþjóðasamningum sem hafa komið inn á hans borð og sem skipta hann mjög miklu máli.

Enn fremur vil ég nefna Norðurskautsráðið. Þar mun Ísland gegna formennsku. Ég tek undir það að svæðisbundin samvinna um sjálfbæra þróun verður þarna í hnotskurn. Ég vil taka fram að ég hef tekið við sem áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs af Steingrími J. Sigfússyni og ég er afskaplega ánægð með að heyra þá yfirlýsingu sem kom hér fram hjá hv. þm. Sigríði Önnur Þórðardóttur að búið sé að ákveða að stofna Íslandsdeild. Það er mikilvægt að við tökum þátt í næstu stórráðstefnu sem verður í Tromsö og ég ætla að vona að sem áheyrnarfulltrúi þarna fái ég tækifæri til þess að eiga samstarf við þá sem munu halda á málum fyrir hönd Íslands í formennskutíð þeirra.

Herra forseti. Við höfum rætt utanríkismálin mjög mikið undanfarið, ekki síst Evrópumálin, en jafnframt öryggismál í kjölfar hryðjuverka og spennu í samskiptum, sérstaklega fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég ætla að bíða með að blanda mér í umræðu um Evrópumál þar sem formaður Samfylkingarinnar gerði þeim afskaplega vel skil hér áðan. En ég árétta hversu mikilvægt er hvernig Ísland hefur haldið á málum og verið góð rödd á alþjóðavettvangi. Ég hef áður sagt við utanrrh. að ég er ánægð með hvernig hann hefur haldið á málum fyrir okkar hönd.

Í dag á að ræða friðartillögur í Beirút og það er ekki enn þá ljóst hvort Arafat fær að sækja fundinn. Honum er haldið í herkví og nú er það óskiljanlegt að Ísraelar líta ekki á þá hagsmuni sem eru í húfi við að unnt verði að leysa deiluna friðsamlega. Nú er ekki hægt að áfellast Bandaríkjamenn. Þeir eru komnir að lausn mála með nýjum hætti og þrýsta á Ísrael að leyfa Arafat að sækja fundinn og ræða tillögur Sádi-Araba. Það er mjög mikilvægt að við látum í okkar heyra um málin fyrir botni Miðjarðarhafs og látum að okkur kveða í þessum málum. En ég hef áhyggjur af því að þrátt fyrir að mál hafa snúist á þann veg sem ég hef talið mikilvægan þá skuli það gerast að Ísrael spyrni við fótum.

Aðeins um Evrópumálin sem voru rædd svo ágætlega í upphafi fundar. Það er tvennt sem sífellt er bent á, fyrir utan það að fulltrúar tveggja flokka telja það mjög mikilvægt að þeirra flokkar hafi tekið afstöðu og ákvörðun. Nú hef ég aldrei heyrt mjög mikinn rökstuðning fyrir ákvörðun þessara flokka. Það sem ég heyri er að hæstv. forsrh. segir þrennt. Hann segir að við verðum að borga 20 milljarða til þess að komast inn í Evrópusambandið ef við viljum það, að Spánverjar komi og leggi undir sig fiskimiðin og við gætum ekki þó við vildum farið inn í Evrópusambandið fyrr en eftir 12 ár. Ég ætla ekki að taka neina afstöðu til þessara fjárhæða. Það er eitthvað sem við hljótum að líta á ef við erum sammála um efnisatriði og forsendur þess að skoða hvort hagsmunum okkar sé betur borgið í Evrópusambandinu. Hins vegar má heyra á þeim sem færa rök fyrir því að við eigum ekki að hrófla við því að gera meira en sækja um betri stöðu varðandi EES-samninginn, að stóra málið sé sjávarútvegur. Og ef við erum öll sammála um grundvallaratriðin varðandi sjávarútveg þá er það fullkomlega óskiljanlegt að við séum ekki að láta skoða í alvöru hvaða möguleikar eru þar. Formaður Samfylkingarinnar hefur verið að leiða og draga fram hvað okkar skoðun á þeim málum hefur leitt í ljós og í stað þess að heiðarleg umræða fáist um málið þá koma sömu sleggjudómarnir og fyrr.

Annað sem vekur athygli er að ábendingar utanrrh. hafa verið á þá lund að e.t.v. brjóti núverandi samstarf okkar í Evrópu í bága við stjórnarskrá okkar eftir viðamiklar breytingar, eftir að við höfum gerst aðilar að Schengen og fleira. Við létum kanna þetta mjög vel og fengum lögfræðilegt álit á sínum tíma um að aðildin að EES héldi og bryti ekki í bága við stjórnarskrá. Nú eru komnar efasemdir um það og stjórnarskráin er m.a. notuð til þess að búa til þessi 12 ár sem það tæki ef við vildum skoða aðild að Evrópusambandinu.

Við erum með stjórnarskrá sambærilega hinni dönsku og í 93. gr. þeirrar stjórnarskrár er þeim heimilað að fara í frekara alþjóðasamstarf en stjórnarskráin heimilaði þeim áður en þeir breyttu 93. gr. Því væri eðlilegt, ef hér væri heiðarleg opin umræða um þessa hluti, að við skoðuðum og fælum utanrrh. að skoða hvort í raun sé orðið tímabært að breyta þessari sambærilegu grein stjórnarskrár okkar. En þvermóðska og hræðsla einkennir staðhæfingar þeirra sem gefa sér að við mundum ekki fá stuðning við sjónarmið okkar hjá Evrópusambandinu og ég skil hana ekki. Það er ekki efnislegt. Það er ekki mjög pólitískt. Ég vil sjálf fara mjög varlega og hef ekki tekið endanlega afstöðu. En eina leiðin til að komast að niðurstöðu er heiðarleg opin umræða, og að sú staða sem við stöndum frammi fyrir sé skýr, en það er hún aldeilis ekki ef ég vísa til orða hæstv. forsrh.

Að lokum um Evrópusambandsumræðuna. Við komumst aldrei fram hjá því að það er sama hvaða skoðanir við höfum eða hvaða markmið við settum okkur varðandi Evrópusambandsaðild, ef þjóðin vill ekki fara inn þá förum við ekki inn. Það er þjóðin sem ákveður og þar sem það er svo afdráttarlaust þá er ég mjög undrandi á þeim sem tala mjög mikið um lýðræðið og Ísland á hátíðarstund og gefa jafnvel til kynna að þeim þyki aðeins vænna um landið sitt en okkur alþjóðasinnunum sem viljum skoða hvað okkur sé fyrir bestu í framtíðinni hvað viðskiptahagsmuni varðar. Ég er mjög undrandi á því að þeir horfi ekki meira á að það er þjóðin sem ákveður þegar upp er staðið.