Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 13:48:15 (6703)

2002-03-26 13:48:15# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að Íslendingar beittu sér mjög fyrir því á sínum tíma fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna að slíkri hjálp við skuldugustu ríki heims væri komið á og við lögðum á það mikla áherslu í vinnu okkar og um það hafa Norðurlöndin verið samstiga. Hins vegar er ljóst að ekki er hægt að veita slíka hjálp nema að uppfylltum nokkrum skilyrðum. Það á m.a. við um lýðræðislega stjórnarhætti og það á líka við um það að komið sé á áætlun í viðkomandi ríkjum hvernig barist verði gegn fátækt. Í því felst m.a. að ákveðin endurskipulagning eigi sér stað á efnahagskerfi viðkomandi landa og það kann að vera í mörgum tilvikum mjög viðkvæmt mál.

Við sem búum hér á landi vitum að markaðsbúskapur er hagstæðasta aðferðin til að ná fram velferð. Með því fæst meira fjármagn til að veita til félagslegra réttindamála og afar þýðingarmikið er í þessum löndum að það sé sýn til framtíðar, sýn um það hvernig þeim hlutum verður best fyrir komið. Ég held að það liggi t.d. alveg ljóst fyrir að menn yrðu mjög tortryggnir út í það að ganga frá slíkum málum við ríki eins og t.d. Zimbabwe við núverandi aðstæður. Sama má segja um ríki eins og t.d. Kongó.