Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 14:46:05 (6712)

2002-03-26 14:46:05# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[14:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Í sjálfu sér er mjög gott að hér skuli koma fram alveg skýrt hver er skilningur flokka á Alþingi á hugtakinu ,,sjálfbær þróun``. Skýr skilningur minn kemur fram í ræðunni. Ég segi m.a. í ræðu minni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Sjálfbær þróun er þannig ekki blind umhverfisstefna, heldur stefna sem setur manneskjuna og velferð hennar í öndvegi. Hugtakið leggur áherslu á að verndun hins náttúrulega umhverfis sé forsenda áframhaldandi efnahagsþróunar og velferðar mannkyns, en jafnframt að blómlegt efnahagslíf og félagsleg velferð séu forsendur þess að umhverfið verði verndað og auðlindir náttúrunnar nýttar á ábyrgan hátt til frambúðar. Því þarf ávallt að skoða framkvæmdir og ákvarðanir í efnahagsmálum, félagsmálum og umhverfismálum í samhengi.``

Þetta er það sem ríkisstjórnin hefur gert. Þetta er það sem hefur verið gert í sambandi við Kárahnjúkavirkjun og því fylgt í einu og öllu. Við erum hins vegar ekki friðunarsinnar, eins og hv. þm., sem vill bara vernda og friða en ekki nýta. Íslendingar eru nýtingarþjóð og hafa verið nýtingarþjóð frá örófi alda. Það ber að gera áfram. Og koma hér og líkja saman aðstæðum í Indlandi, eins og hv. þm. gerði, við Kárahnjúkavirkjun og það sem þar er verið að gera, er náttúrlega dæmi um öfgastefnu í umhverfismálum sem stenst ekki íslenskan veruleika.