Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 14:53:43 (6716)

2002-03-26 14:53:43# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[14:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessi umræða hefur fært mér heim sanninn um að mjög brýnt er að við tökum hér til sjálfstæðrar umræðu viðfangsefnið sjálfbær þróun og staða Íslands í þeim efnum. Auðvitað er það þegar maður hugsar málið ámælisvert t.d. að skýrsla Norðurlandanna og áætlun um sjálfbæra þróun Norðurlanda skuli ekki hafa verið tekin hér til sérstakrar og ítarlegrar umræðu.

Hæstv. utanrrh. á þakkir skilið fyrir að gera þetta að viðfangsefni í ræðu sinni, en mér finnst hæstv. ráðherra ekki bregðast skynsamlega við þátttöku þingmanna í umræðunum og því að sett eru fram að einhverju leyti mismunandi sjónarmið og mismunandi mat á þeim hugtökum. Það er gert af hálfu okkar, fullyrði ég, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, af áhuga og með jákvæðu hugarfari til að hafa uppbyggileg skoðanaskipti um þau mál. Þau verða það ekki með því að hæstv. ráðherra komi síðan í púltið og dragi upp mjög svart/hvíta mynd, að þeir sem ekki styðji öll áform ríkisstjórnarinnar eða séu sammála skilgreiningum hans á hugtökum séu þar með alfarið á móti þeim. Það sé svart/hvít mynd sem gildi í þeim efnum. Það er ekki svo.

Þetta eru túlkanleg og umdeilanleg hugtök og menn hafa vissa tilhneigingu til að leggja mismunandi merkingu í þau út frá sinni sýn, grundvallarviðhorfum sínum í þessum efnum. Það er til dæmis þannig að þó menn neiti því að skrifa upp á fortakslausar hagvaxtarkröfur og spurningar t.d. um hámarksskammtímaávöxtun fjár, að þar með séu menn komnir í mótsögn endilega við það sem hæstv. ráðherra er að segja um að sjálfbær þróun og velmegun geti farið hönd í hönd, því auðvitað er það þannig og á að vera þannig. Ég tel að meginvíglínan í þessum málum liggi um það hvort menn láta undan kröfum fjármagnsins um hámarksskammtímaávöxtun eða ekki, því það er hún sem gengur gegn langtímamarkmiðum um sjálfbæra þróun samfélagsins og sjálfbæra þróun í umgengni við náttúruauðlindir.

Orrustan stendur í raun og veru þar. Deilurnar um hnattvæðinguna, um framferði alþjóðafyrirtækja, er ekki síst um þetta. Ætlar hið lýðræðislega vald í heiminum, ríkisstjórnir, þjóðþing og aðrir slíkir aðilar, að láta undan kröfunni um rétt slíkra afla, stórfyrirtækjanna, áhættufjármagnsins, til að fara eins og logi yfir akur um heiminn allan og hafa það eitt að markmiði að hámarka skammtímagróða? Þeir sem ekki þora að reisa rönd við þessu munu ekki komast langt í sambandi við raunverulegt inntak hugmynda um sjálfbæra þróun samfélaga, sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda með langtímasjónarmið að leiðarljósi, því það er það sem þetta snýst um, að möguleikum komandi kynslóða, ekki bara þeirrar næstu, ekki bara barna okkar eða barnabarna, heldur langt inn í framtíðina, sé ekki spillt.

Bandaríki Norður-Ameríku og hugmyndafræði þeirra, hin hráa nýfrjálshyggja, er auðvitað meginmótorinn á bak við slíka hugmyndafræði. Af hverju andæfa Bandaríkjamenn í Ríó/Kyoto-ferlinu? Af hverju neita þeir að setja nokkrar skorður á orkunotkun? Af hverju krefjast þeir þess að alþjóðafjármagnið og stórfyrirtækin, af hverjum 30 stærstu eru 20 bandarísk, fái að fara sínu fram eins og þeim sýnist? Það er af augljósum ástæðum. Þeir eru ekki tilbúnir til að reisa neinar pólitískar skorður við þessum öflum.

Ég held að hæstv. utanrrh. ætti að breyta aðeins um tón í umræðunni og ræða þetta á þeim nótum að þetta sé ekki svart/hvítt. Og ætla svo að afgreiða það af því við, þingmenn Vinstri grænna, höfum lýst að einhverju leyti öðrum sjónarmiðum hér, að þar með séum við óalandi friðunarsinnar og séum á móti allri nýtingu auðlinda. Þetta er ekki uppbyggilegur málflutningur og hann stenst auðvitað ekki. Hæstv. ráðherra veit betur að auðvitað er það ekki svo að uppi sé í landinu stjórnmálaflokkur sem sé alfarið á móti því að Íslendingar nýti náttúruauðlindir sínar. Deilan snýst ekki um það. Það er barnalegt að reyna að halda því fram. Hún snýst um hvernig við gerum hlutina, hvað sé réttlætanlegt og hvað ekki.

Við skrifum auðvitað ekki fyrirvaralaust upp á hvað sem er þar, bara af því það sé stefna ríkisstjórnar Íslands, eða af því hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson telji það rétt. Þar kemur að pólitíkinni. Við erum ekki alltaf sammála um hvað sé réttlætanlegt og hvað ekki og hvernig farið sé í hlutina.

En dropinn holar steininn og þeim viðhorfum vex ásmegin í heiminum. Við þurfum ekki annað en hoppa eins og 20 ár aftur í tímann. Ímyndum okkur umræður sem þá urðu t.d. um vegagerð í landinu. Ég man þá tíð þegar ég vann í vegavinnu og heyrði þau sjónarmið að allt sem verið var að innleiða þá og laut að því að menn mættu ekki fara um landið og leggja þar vegi bara eins og þeim sýndist væru einhverjir óalandi friðunarsinnar og verndunarsinnar sem væru bara á móti framförum, á móti vegum. Hvernig var þetta þangað til fyrir svona 20 árum? Menn fóru með jarðýturnar, 100 metra í báðar áttir, sópuðu jarðveginum saman, skildu eftir svo og svo stór sár í landinu sem blása síðan upp og menn eru að berjast við að græða upp síðan. Dettur einhverjum þetta í hug í dag? Nei. Mundi einhver reyna að afgreiða menn sem segðu: Nei, svona göngum við ekki um landið, sem óalandi og óferjandi öfgamenn í umhverfismálum? Auðvitað ekki. Og jafnhjáróma verða slík ræðuhöld metin í ljósi þróunarinnar að 20 árum liðnum eins og hæstv. utanrrh. var með hér. Að ætla að afgreiða þann flokk sem hefur gert umhverfismál sérstaklega að aðalsmerki sínu, Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð, út úr umræðunni á þennan hátt, mun ekki takast og þjóðin mun sjá til þess.

Í öðru lagi, herra forseti, var hér rætt um Evrópumálin mikið og ég ætla að nota afganginn af ræðutíma mínum til að fara betur yfir þau mál og sérstaklega einn þátt þeirra, það er hugmyndin um að Íslendingar taki upp evru og það sé lausn allra vandamála.

[15:00]

Við vorum í aðalatriðum búin að afgreiða sjávarútvegsmálin. Ég læt þó nægja að bæta þar við að það er jafnrangt að ætla að afgreiða Evrópumálin sem eingöngu spurningu um sjávarútveg og hvort að sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins sé aðgengileg fyrir okkur og þar með sé málið búið. Það er ofureinföldun. Ótal margir fleiri þættir koma til sögunnar. Það er líka rangt að afgreiða sjávarútveginn sem slíkan út frá því einu hvort sameiginlega fiskveiðistefnan sé lítt þolanleg fyrir hann eða ekki því sjávarútvegurinn, sem undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, verður ekki slitinn úr samhengi við aðra þætti málsins sem hafa þarna áhrif: hagstjórnina, gengisskráninguna, efnahagsstjórntækin og margt fleira.

Tökum aðra þætti sem þarna þarf að skoða. Auðvitað þarf líka að ræða um stöðu landbúnaðarins. Ætla menn að gleyma honum? Kannski er svo komið að ýmsum finnist hann ekki skipta máli í þessum efnum. En það er sennilega sú atvinnugrein sem þyrfti að færa mestar fórnirnar af þeim öllum ef Íslendingar létu sér detta í hug að ganga í Evrópusambandið. Margir hafa talið að hann mundi að mestu leyti hverfa úr landinu, nema kannski jaðargreinar, sérstaklega styrktar jaðargreinar eins og mögulega sauðfjárræktin. Það er eiginlega alveg ljóst að mjólkuriðnaðurinn er eins og hann leggur sig settur í gríðarlega erfitt samkeppnisumhverfi. Niðurstaðan er sú hjá nágrannaþjóðunum sem hafa gengið inn að landbúnaður þeirra er í gríðarlegum erfiðleikum. Talað er um að þriðji hver finnskur bóndi verði hættur eftir svo sem 4--5 ár í viðbót og áður en tíu ár verða liðin frá því Finnland gekk í Evrópusambandið. Það munar nú um minna.

Tökum málefni ferðaþjónustu, almenns iðnaðar. Jafnvel þótt helstu talsmenn iðnaðarins séu æstir aðildarsinnar er ég ekki þar með búinn að skrifa upp á að það yrði blessun öllum íslenskum iðnaði, t.d. útflutningsiðnaðinum, að við gengjum þarna inn. Ætli skipti þá ekki máli á hvaða gengi íslenska krónan hyrfi inn í evruna o.s.frv., eins og Bretar hafa áttað sig á. Þeir urðu að hrökklast út úr myntsamstarfinu vegna þess að þeir þoldu ekki að breskt efnahagslíf tengdist þannig evru á því háa gengi sem pundið hafði og hefur enn. Í Bretlandi segja menn almennt að það sé útilokað fyrir Bretland að fara þarna inn á meðan þessi hlutföll eru eins og þau eru. Breskt efnahagslíf lýtur líka öðrum lögmálum en meginlandið.

Hvað með lýðræðið og spurninguna um þann flutning valds frá innlendum stofnunum, Alþingi, ríkisstjórn og öðrum aðilum, til fjarlægs miðstýrðs valds í Brussel? Er það framför eða er það afturför í lýðræðislegu tilliti? Hvað með tollmúrana? Hvernig koma þeir út fyrir Ísland sem er með allt aðra samsetningu á útflutningi en hin iðnvæddu ríki Evrópu, að ganga inn í Evrópusamandið, undirgangast tollalög þess og viðskiptakjör út á við gagnvart öðrum heimshlutum? Eftir inngöngu í Evrópusambandið færum við ekki til Asíu og semdum þar um fríverslun með fisk. Ónei, góðan daginn. Við lútum viðskiptakjörum Evrópusambandsins og tollareglum eins og þær eru á hverjum tíma gagnvart öllum öðrum. Að þessu þarf því að hyggja.

Hvað með kostnaðinn, þarf ekki að ræða hann líka? Tíu, tólf milljarða greiðslur en minnkandi styrkir til baka. Styrkirnir fara lækkandi með stækkun Evrópusambandsins. Það er borðleggjandi. Hinar ríku þjóðir, sem eðlilegt er, verða í enn meiri mæli nettógreiðendur og fá minna til baka. Það er t.d. ljóst að þegar stækkunin verður og meðaltekjur Evrópusambandsins lækka þar með hverfa síðustu svæðin á Norðurlöndunum sem hafa rétt til byggðastyrkja í A-flokki út úr myndinni. Austurhéruð, austur- og norðurhéruð Finnlands, þar sem meðaltekjurnar hafa verið undir 75% meðaltals Evrópusambandsins, hafa átt rétt til styrkja í A-flokki. En þegar stækkunin verður og fátækari ríki í Austur-Evrópu koma með, lækkar meðaltalið og síðustu svæðin á Norðurlöndum fara upp fyrir það. Réttur Norðurlandanna til styrkja minnkar þar af leiðandi, sem eðlilegt er. Maður gefur ekki mikið fyrir þær ræður sem menn halda hér um að það verði sérstakt bjargræði í byggðamálum fyrir Norðurlöndin eða Ísland að ganga þarna inn. Ég held að menn ættu að kynna sér þá hluti betur og lesa nýlegar skýrslur á vettvangi Norðurlandaráðs og víðar í þessum efnum. Einmitt núna er þar sagt: Það ríður á fyrir Norðurlöndin að ná því fram í samskiptum við Evrópusambandið, líka okkur sem aðila EES, að réttur einstakra landa til sjálfstæðrar byggðastefnu verði aukinn því annars erum við að dæma okkar svæði af.

Tekjur eru samt það háar þar, þó það séu svæði sem eiga í erfiðleikum. Þó að landsbyggðin á Íslandi sé komin með 12% lægri meðallaun en höfuðborgarsvæðið þá er hún samt langt yfir þessum 75% að meðaltali hjá Evrópusambandinu. Það gefur augaleið að sömu svæði verða langt yfir því eftir stækkun. Ef við ætlum að halda úti marktækum byggðaaðgerðum í landinu þurfum við að gera það á eigin forsendum og hafa svigrúm til að móta okkar eigin áherslur í þessum efnum. Þetta er mat byggðastofnunar Norðurlanda og þeirra sérfræðinga sem hafa verið að líta á þetta.

Svo með evruna, herra forseti. Því er haldið fram að það sé útlátalaust með öllu, svona rétt eins og að skipta um málningu á herbergi, að taka upp evru og kasta krónunni. Það kann að líta svo út í bili. Það geta verið ýmsir kostir því samfara fyrir neytendur og allt það, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hélt hér mikla og hátíðlega lofræðu um áðan. En eru engir frádráttaliðir? Er það bara útlátalaust með öllu fyrir eitt hagkerfi að ganga í myntsamstarfið, gangast undir vaxtaákvarðanavald seðlabankans í Frankfurt, afsala sér peningastýritækjum og að afsala sér sjálfstæðri gengisskráningu? Er reynsla okkar frá síðustu missirum sú að það hefði engu máli skipt fyrir okkur Íslendinga? Ef krónan hefði verið fest við evru þegar raungengi hennar var hæst, hvernig væri ástandið hjá útflutningsatvinnuvegunum í dag? Ætli meira að segja iðnaðurinn þyrfti ekki aðeins að velta því máli fyrir sér hvað hefði undan látið? Hvað getur undan látið ef peningalegu stjórntækin, ef vaxtaákvarðanir og gengi eru tekin úr sambandi? Það er í raun bara eitt sem þá er eftir, þ.e. atvinnustigið.

Og þess vegna er það sem menn t.d. í Svíþjóð núna takast á um, hvort Svíþjóð, hið iðnvædda og rótgróna hagkerfi Svíþjóðar, þoli að taka upp evru. Af hverju? Jú, vegna þess að Svíar segja: Ef við missum öll þessi tæki sem við getum notað til að bregaðst við breytingum í hagkerfi okkar og taka á móti sveiflum þá leita þær út í atvinnustigið. Við, segir sænska verkalýðshreyfingin, kaupum ekki evruna því verði að taka áhættuna á fjöldaatvinnuleysi á erfiðleikatímum. Nú hefur sænska verkalýðshreyfingin mótað þá afstöðu að þeir muni leggjast gegn því að Svíar teki upp evru nema byggðir verði upp gríðarstórir jöfnunarsjóðir, sveiflujöfnunarsjóðir sem í raun komi í staðinn fyrir hagstjórnartækin sem áður voru í landinu, sjóðir sem nemi 75--100 milljörðum sænskra króna. Munar nú um minna. Það mundi samsvara 25--30 milljörðum íslenskum.

Til hvers á að nota þessa sjóði? Til að greiða niður launatengdan kostnað atvinnulífsins á erfiðleikatímum og beita öðrum ráðstöfunum til að tryggja fulla atvinnu. Og byggja þá svo betur upp þegar betur árar. Þetta dæmi er að sjálfsögðu ekki að öllu leyti yfirfæranlegt á Ísland, mér er það vel ljóst. En það segir þó sína sögu að jafnvel hin Evrópusinnaða sænska verkalýðshreyfing er með þá meðvitund að henni er ekki sama um hvernig Svíþjóð yrði skellt inn í þetta.

Ég lýsi eftir umræðum um sambærilega hluti hér. Hver eru viðhorf íslensku verkalýðshreyfingarinnar til að við bara hendum krónunni, vaxtaákvörðuninni, peningatækjum okkar og stýritækjum, tökum upp evru og tökum svo á okkur sveiflurnar í formi fjöldaatvinnuleysis þegar verr árar. Eru menn tilbúnir að skrifa upp á það?