Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 15:45:52 (6728)

2002-03-26 15:45:52# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir þessi sjónarmið. Að sjálfsögðu eru það eftirsóknarverð markmið að ná lágri verðbólgu og lágu vaxtastigi, litlum skuldum ríkissjóðs o.s.frv. Þetta eru eftirsóknarverð markmið. Það væri einnig að sjálfsögðu æskilegt ef við gætum búið við sameiginlegan gjaldmiðil, helst í heiminum öllum. Mismunandi gjaldmiðlar hafa margvíslegt óhagræði í för með sér, að sjálfsögðu. Maður hefur horft upp á gjaldeyrisbrask í tengslum við gengisbreytingar o.s.frv.

Þetta væri allt góðra gjalda vert ef heimurinn væri einsleitur. En hann er það ekki. Efnahagslíf þjóðanna fer í hæðum og það fer í lægðum og í efnahagskerfinu eru ýmsar breytur sem menn geta beitt til að bregðast við í efnahagssveiflunum. Ein af því er verðlagið á gjaldmiðlum. Það er skuldastaðan. Það er þess vegna verðbólgan.

Svo er ein breyting til viðbótar. Það er atvinnustigið og það er kannski sú breyta sem við viljum standa dyggastan vörð um, þ.e. að varðveita hér fulla atvinnu. Hér hefur það gerst á undanförnum 12 mánuðum að gengið sígur um 25%. Auðvitað er það slæmt fyrir kaupmátt þjóðarinnar. Ekki er ég að fagna því. En hitt hefði mér þó fundist verra, þ.e. ef þessi lægð, vonandi tímabundna, sem við gengum í gegnum hefði leitt til mikils atvinnuleysis. Við höfum sem betur fer sloppið við það. Það eru þessir þættir sem við þurfum að sjálfsögðu að horfa til þegar við hugum að sameiginlegum gjaldmiðli.