Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 15:50:13 (6730)

2002-03-26 15:50:13# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[15:50]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Já, ég tók þátt í umræðum um ný seðlabankalög á sínum tíma. Ég hafði sitthvað við þau að athuga. Öðru var ég samþykkur. En ég er að leggja áherslu á að heimurinn er ekki alveg svart/hvítur og þótt það sé ekki gleðiefni þegar gengið breytist á þann hátt sem það hefur gert á undanförnum mánuðum þá finnst mér hitt vera algert forgangsatriði, þ.e. að varðveita fulla atvinnu í landinu. Ég held að ekkert þjóðfélagsmein sé alvarlegra en mikið atvinnuleysi.

Menn hafa farið hér víða um völl í umræðu um utanríkismálin. Margir hafa gert Evrópumálin helst að umræðuefni. Það gerði síðasti ræðumaður, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Hann fjallaði um evruna og Evrópuherinn sem virtist honum talsvert hugleikinn. Ég ætla ekki að gera þetta að umræðuefni, enda hef ég aðeins fáar mínútur hér til ráðstöfunar, heldur vil ég halda mig við þau atriði sem ég boðaði í upphafi að ég mundi víkja að.

Ég byrjaði á því að ræða um Palestínumálið og lagði áherslu á hve gott það er að hér skuli vera þverpólitísk aðkoma að því máli og góð samstaða. Ég taldi að við ættum að leggjast á eitt um að styðja þá hugmynd að sent verði alþjóðlegt friðargæslulið til herteknu svæðanna til að standa þar vörð um friðinn og koma í veg fyrir hernaðarofbeldi. Ég velti því upp hvort við ættum á grundvelli yfirlýsingar þings Palestínumanna frá 1988 að skerpa á stuðningi okkar við Palestínumenn með því að lýsa yfir fullri viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu. Við höfum ekki gengið alla leið í því efni, ekki gengið eins langt og meiri hluti þjóða innan Sameinuðu þjóðanna hafa gert. Í þriðja lagi lýsti ég eina ferðina enn yfir stuðningi við þá hugmynd að hæstv. utanrrh. fari í heimsókn til Palestínu á herteknu svæðin og til Ísraels og að með honum í för verði fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi.

Í öðru lagi vék ég að samskiptum ríkra þjóða og snauðra og byrjaði á því að ræða um átak til þess að létta skuldum af fátækustu ríkjum heims. Íslendingar komu upphaflega að þessu átaki því að þeir áttu sæti í þróunanefnd Alþjóðabankans 1996 þegar þessu var hrundið af stokkunum. Það var upplýst hér að 26 ríki hefðu þegar fengið einhverja úrlausn og til þessa hefði verið varið einum 40 milljörðum dollara sem er hærri upphæð en ég nefndi í byrjun máls míns. Ég vísaði þá reyndar í tölu sem ég hafði frá árinu 2000 þannig að eitthvað mikið hefur gerst á þeim tíma sem liðinn er síðan. Þá höfðu aðeins fjögur ríki fengið úrlausn fyrir 2,7 milljarða samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hafði þannig að þarna hefur eitthvað mikið gerst og er það mikið fagnaðarefni. Íslendingar hafa komið að þessu með fjárframlagi, alls 250 millj. kr. og allt er þetta nokkuð sem ég styð mjög eindregið.

Það sem ég hef hins vegar gert athugasemdir við eru þau skilyrði sem fátækum ríkjum er gert að hlíta til að fá lánafyrirgreiðslu. Það eru þau skilyrði sem ég hef gert að umræðuefni og einnig hef ég gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir afstöðu innan Alþjóðabankans. Mér finnst hún hafa lagt of mikla áherslu á kröfur til þessara fátæku ríkja til að umbylta innra stoðkerfi samfélaganna, einkavæða það og falbjóða þannig fjölþjóðlegum auðhringum. Máli mínu til stuðnings hef ég vísað í ræður sem hæstv. utanrrh. hefur flutt á þessum vettvangi, m.a. í ræðu sem hann flutti í Hong Kong árið 1997 á fundi Alþjóðabankans þar sem hann gegndi svipaðri stöðu og hann kemur til með að gera á komandi ári þegar Íslendingar fá sæti aðalfulltrúa hjá Alþjóðabankanum og tala fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Mér finnst skipta mjög miklu máli hvaða áherslur Íslendingar hafa þar uppi.

Síðan ætlaði ég að koma aðeins að ákvörðunum sem teknar hafa verið innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Í ræðu sinni vék hæstv. utanrrh. að fundinum í Doha á Ara\-bíu\-skaganum og í skýrslu hæstv. ráðherra er einnig fjallað um framtíðarstarf á þeim vettvangi, þ.e. Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, en þar fást menn við það að skilgreina hvaða þjónustustarfsemi alþjóðavæðingin eigi að taka til. Menn hafa verið að deila um þetta á undanförnum missirum og þá helst að hvaða marki þetta eigi að ná inn í velferðarþjónustuna. Fjölþjóðlega verkalýðshreyfingin hefur lýst miklum áhyggjum vegna þessa og barist gegn því að slíkt yrði gert. Þetta hefur verið rætt á vettvangi Evrópusambandsins, en þar á bæ hafa menn verið nokkuð hallir undir það að færa út kvíarnar hvað þetta snertir. Það væri nokkuð fróðlegt að heyra álit hæstv. utanrrh. á því hvernig hann telji að við eigum að skilgreina þjónustu því að sem kunnugt er þá er þetta þungamiðjan í þeim viðræðum sem fara í hönd á grunni svonefndra GATTS-samninga þar sem S-ið í lokin stendur fyrir ,,services`` eða þjónustu og er eiginlega framhald á þessum gömlu GATT-samningum þar sem vísað er í ,,trade and tariffs``.

En ég vildi einnig beina spurningu til hæstv. ráðherra um annað. Það er þetta sérstaka baráttumál Íslendinga sem kallað er, afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi. Það er einmitt þannig orðað að talað er um baráttumál okkar Íslendinga. Ég minnist þess á sínum tíma þegar núverandi sendiherra Íslands í Washington, Jón Baldvin Hannibalsson, talaði mikið fyrir þessu, að við ættum að beita okkur á alþjóðavettvangi fyrir því að styrkir til sjávarútvegs yrðu afnumdir í heiminum öllum. Síðan er þetta tekið upp innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ég spyr: Hvenær hefur þetta verið samþykkt sem stefna Íslands? Hvenær hefur það verið samþykkt sem stefna Íslands að halda því fram á alþjóðavettvangi að þetta eigi að gilda um heiminn allan? Í ræðu sinni segir hæstv. utanrrh. að þetta styrki okkur í samkeppni með verslun með sjávarafurðir og þau rök kaupi ég alveg. Það gæti gert það. En síðan vísar hann einnig í sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Vinna að þessu máli verður meðal forgangsverkefna utanríkisþjónustunnar þar sem afnám ríkisstyrkja er ekki aðeins mikilvæg fyrir viðskiptahagsmuni okkar heldur styrkir stöðu okkar í alþjóðlegri umræðu um sjávarútvegsmál og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins.``

Er alveg víst að þetta sé svona? Eru þeir sem stunda mesta rányrkju í heiminum endilega þeir sem njóta ríkisstyrkja? Ég er ekki viss um að þetta sé rétt nema síður sé. Er það ekki svo að ríkisstyrkir eru iðulega byggðastyrkir, styrkir sem veittir eru til byggðarlaga sem á einhvern hátt eiga í erfiðleikum? Gæti ekki verið að í sumum tilvikum njóti smábátaútgerð þessara styrkja? Mér finnst að við þurfum aðeins að staldra við í þessu efni, auk þess sem ég hef mjög miklar efasemdir um að setja heiminum öllum einhlítar reglur hvað þetta snertir. Það getur vel verið að það eigi við á einhverjum svæðum að rétt sé að berjast gegn slíkum styrkjum en annars staðar ekki. Mér finnst vafasamt að setja heiminn svona undir reglustriku. Vildum við að þetta gilti þá um öll svið?

Nú vill svo til að Íslendingar búa við einhver auðugustu fiskimið heimsins og sjávarútvegurinn hefur um langt skeið verið undirstaða efnahagslífs á Íslandi. Úr þessum auðlindum hafsins höfum við síðan styrkt ýmsar aðrar atvinnugreinar. Gæti þessu ekki verið öfugt farið annars staðar og gæti þá ekki verið réttlætanlegt á sama hátt og við höfum látið styrki renna til landbúnaðar, svo dæmi sé tekið, að það sé réttlætanlegt annars staðar í heiminum að láta fjármagn renna til sjávarútvegs, þess vegna smábátaútgerðar í byggðarlögum sem eiga undir högg að sækja? Mér finnst að við þurfum að hyggja að þessu. Ég er búinn að vekja athygli á þessu í umræðu um utanríkismál á síðustu þingum nokkrum sinnum. Ég hef ekki orðið var við að margir aðrir hafi tekið þetta upp. Menn taka þessa stefnu sem góða og gilda. En ég er ekkert alveg viss um að við eigum að gera það. Alla vega tel ég að við þurfum að fá betri umræðu um þessi mál.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. er m.a. vikið að starfinu innan OECD. Þar er vísað sérstaklega í skaðlega skattameðferð. Tekin var upp vinna á vettvangi OECD árið 1988 sem miðaði að því að uppræta svokallaðar skattaparadísir. Reynt var að safna liði í þessu og gerðar hafa verið nokkrar skýrslur um skaðlega skattameðferð. Það er lítillega fjallað um þetta hér, m.a. vísað í eina af þessum skýrslum án þess að farið sé nánar út í þá sálma. Það er fjallað um þetta mjög almennum orðum.

Ég hef nokkrum sinnum tekið þetta mál upp á Alþingi og óskað eftir viðbrögðum hæstv. viðskrh. sem svaraði mér 10. nóvember árið 2000 á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Þann 26. júlí 2000 var samþykkt í ráðherraráði OECD skýrsla, ,,Report on Progress in Identifying and Eliminating Harmful Tax Practices``, þar sem m.a. er birtur listi yfir lög eða reglur ríkja sem geta hugsanlega talist fela í sér skaðlega skattasamkeppni. Grundvöllur skýrslunnar var yfirferð yfir lög og reglur ríkja sem taldar voru geta falið í sér skaðlega skattasamkeppni.`` --- Þetta er nú endurtekning. --- ,,Þannig var reynt að greina hvaða skattareglur einstakra ríkja feli í sér frávik frá eðlilegum skattareglum og leiði til þess að fyrirtæki kjósi að vera skattlagt í öðru ríki en eðlilegt væri miðað við starfsemi þeirra.

Lög nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, eru á meðal þeirra laga og reglna sem komið hafa til skoðunar. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að lögin geti mögulega talist skaðleg.``

Þetta sagði hæstv. viðskrh. á Alþingi. Ég hefði talið að í skýrslu hæstv. utanrrh. hefði verið eðlilegt að taka á þessu álitamáli, að gera grein fyrir því hvernig Íslendingar tengjast þeirri vinnu sem hér er vísað til. Ef hæstv. utanrrh. hefur á takteinum upplýsingar fyrir okkur hvað þetta snertir, þá væru þær vel þegnar.