Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 16:07:33 (6732)

2002-03-26 16:07:33# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svarið. En mér hafa fundist yfirlýsingar hans, bæði í ræðunni sem hann flutti okkur í dag og einnig í ítarlegri skýrslu, vera býsna áþekkar. Þar er talað um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi. Þessir ríkisstyrkir, eins og ég best fæ skilið, geta birst í margvíslegu formi. Þeir geta verið byggðastyrkir eða ríkisstyrkir fyrir smábátaútgerð. Ég velti því fyrir mér hvort rétt sé að fara fram með þessum hætti.

Hæstv. ráðherra segir að þetta hafi verið stefna Íslendinga svo lengi sem hann muni eftir. Í ræðunni segir hann að þetta hafi verið okkar stefna um nokkurt skeið. En er ekki eðlilegt áður en við förum fram á alþjóðavettvangi, t.d. innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, með sérstakt baráttumál að við tökum umræðu um það og skilgreinum rækilega við hvað er átt. Þetta hefur verið sett fram á býsna altækan hátt, sem krafa um afnám, afdráttarlaus krafa um afnám ríkisstyrkja. Þetta er ekki í fyrsta skipti, ég veit það. Það er búið að gera þetta á undangengnum fundum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þar sem við höfum farið í fararbroddi studd, eins og hér segir, Ástralíu, Bretlandi, Bandaríkjunum, Hollandi, Nýja-Sjálandi og fleiri ríkjum þar sem við höfum haldið þessum baráttufána á loft. Þarf ekki að ræða þetta? Þarf ekki að skilgreina rækilega hvað við eigum við með þessu?