Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 16:11:42 (6734)

2002-03-26 16:11:42# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[16:11]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Undir þetta get ég tekið. Þetta finnast mér eðlileg vinnubrögð, að skilgreina hvaða styrkir eru líklegir til að leiða til rányrkju og að sjálfsögðu er ég því fylgjandi að slíkir styrkir séu afnumdir. En eins og hæstv. ráðherra sagði er sjávarútvegurinn okkar iðnaður, okkar stóriðja, eins og hann komst að orði, og undirstaða efnahagslífsins. Það er mergurinn málsins.

Í öðrum ríkjum er þessu hugsanlega öðruvísi farið. Þar eru aðrar greinar samsvarandi undirstaða. Þannig er ekki hægt að setja allar þjóðir og öll svæði undir einn hatt. Þess vegna eigum við að forðast að þvinga upp á heiminn einhverju slíku reglugerða-reglustikuvaldi. Það þarf að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað. Mér finnst vafasamt að Íslendingar séu í fararbroddi þeirra sem vilja beita slíku alheimslögregluvaldi í þágu markaðshyggjunnar.