Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 16:28:27 (6736)

2002-03-26 16:28:27# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[16:28]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir afskaplega hlý orð í garð starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Ég met þau mikils og það skiptir miklu máli að þetta fólk sem vinnur mjög gott starf fyrir Íslands hönd á alþjóðavettvangi fái slík viðurkenningarorð.

Út af því sem hv. þm. sagði um samstarf við Evrópusambandið er það rétt að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið skiptir miklu máli fyrir samstarfið á sviði umhverfismála. Það jafnframt rétt að mikil þróun hefur átt sér stað síðan það komst á og bæði í Maastricht- og Amsterdam-sáttmálunum eru ákvæði um umhverfismál, samvinnu á sviði umhverfismála, sem ekki eru í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Einnig er alveg ljóst að við eigum ekki aðild að svonefndri Cardiff-áætlun með nokkrum hætti en þrátt fyrir það teljum við mikla ástæðu til að halda áfram að vinna með Evrópusambandinu á þessu sviði.

Þetta er ein ástæðan fyrir því að ég hef vakið máls á nauðsyn þess að uppfæra samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að nýjum og breyttum aðstæðum, ekki síst vegna umhverfismála, félagsmála og ýmissa annarra málaflokka, þar sem ekki er lengur samræmi á milli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og þeirra laga og reglna sem gilda í Evrópu að öðru leyti.