Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 16:39:28 (6742)

2002-03-26 16:39:28# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[16:39]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki af hverju hv. þm. æsir sig svona mikið upp. (Gripið fram í.) Það er náttúrlega ljóst að hv. þm. fylgdi ekki þeim straumi sem var hér þegar EES-samningurinn var samþykktur og menn hafa áttað sig á í dag að hefur reynst þjóðinni mjög happadrjúgur. (Gripið fram í: Hverjum var það að þakka?) (Gripið fram í.) Það var, hv. þm., tveimur flokkum fyrst og fremst að þakka, þ.e. Sjálfstfl. og (RG: Hver var kallaður landráðamaður af sjálfstæðismanni?) Alþýðuflokknum sem stóðu þá saman að ríkisstjórn og komu þeim samningi í gegn, gegn andstöðu annarra flokka sem sátu þá á Alþingi.

Það fer ekkert á milli mála að þessir tveir flokkar voru mjög framsýnir og það hefur margítrekað komið fram. Hv. þm. var sem sagt í þeim flokki sem var gegn þessu.

Sjálfstfl. hefur nefnilega sýnt það að ákvarðanir sem hann hefur tekið á sviði alþjóðamála hafa verið mjög raunsæjar. Flokkurinn sem slíkur hefur rætt Evrópumálin bæði innan þingflokksins og á landsfundi. Það hefur ekki verið gefið út í neinu bókarformi. Það er ekki nauðsynlegt. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur aftur á móti verið gefin út sérstök skýrsla sem unnin var af utanrrn. og er þar á meðal sú stefna sem ríkisstjórnin hefur fylgt. Ég geri þá ráð fyrir því að menn geti sæst á að þar hafi Sjálfstfl. gefið að hluta til út þá stefnu sem talin er vera opinber stefna Sjálfstfl. í Evrópumálum.

Herra forseti. Fyrir fólk sem er að hlusta á þessa umræðu er náttúrlega mjög nauðsynlegt að fram komi hvernig afstaða einstakra manna er. Auðvitað getur hún verið mjög mismunandi. Þó flokksforustan hafi lýst yfir einhverjum vilja þá er ekki víst að einstakir þingmenn fylgi því. Það er ánægjulegt að heyra að Margrét Frímannsdóttir hefur tekið afstöðu.