Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 16:42:47 (6744)

2002-03-26 16:42:47# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, RG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[16:42]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég var hér 1991. Ég var að störfum í utanrmn. Ég veit allt um það hvernig vinnan gekk með EES-samninginn. Ég veit allt um þann mann sem stóð hér nærri blóðugur upp að öxlum í að reyna að leiða okkur rétta braut inn í nýtt viðskiptaumhverfi í ótta sínum um hvernig færi annars í landi þar sem hafði orðið aflabrestur og ekkert blasti við. Ég veit alveg hvernig hlutirnir gengu fyrir sig hjá samstarfsflokkunum þá og að það var þetta sem lyfti okkur upp úr öldudal og gerði það að verkum að á árunum sem komu þá gátum við bjargað okkur og efnahagslífi okkar. Ég veit það líka að síðan hafa allir viljað Lilju kveðið hafa og það er bara afskaplega gott mál. (ÖJ: Ég hef engan áhuga á því.) Það er afskaplega gott mál (Gripið fram í.) að fólk sé svona ánægt með EES-samninginn. Enn þá stendur það sama í honum. Þetta var góður samningur. Það stendur það sama í honum. En ástæðan fyrir því að verið er að ræða um að e.t.v. dugi hann ekki lengur, við þurfum að leita annarra úrræða, er að umhverfi samningsins hefur breyst. Ég held að það sé bara mjög mikilvægt að endurtaka það, að við endurtökum það í hverri einustu ræðu, vegna þess að einhver öfl hér í þinginu skilja þetta alls ekki.

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í annað sinn til að koma inn á fáein atriði sem ég hafði ekki tíma fyrir í fyrri ræðu minni og bregðast við einum eða tveimur atriðum sem hafa komið hér fram í ágætri umræðu um utanríkismál í dag.

Fyrst varðandi ræðu Steingríms J. Sigfússonar. Hann var að ræða evruna og hann var að ræða um Svía og hvernig þeir ætla að bregðast við hugsanlegum möguleika þess að taka upp evruna og lýsti því mjög fjálglega. Hann sagði að Svíar með sinn iðnað og sitt efnahagslíf mundu ekki treysta sér til að taka upp evru án þess að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir.

[16:45]

Mér varð þá hugsað til þess að fyrir 10--12 árum eða svo lentu Svíar í því að gengisfella um 10%, þeir voru í miklum efnahagslegum þrengingum og þurftu á skömmum tíma að fella gengi sitt um ein 10%. Þeir misstu frá sér gífurlega mikilvæg fyrirtæki, sem höfðu komið inn í landið. Menn höfðu verið að fjárfesta í Svíþjóð og fyrirtækin sem urðu fyrir þessu áfalli, gengisfallinu, fóru frá Svíþjóð og það varð Svíum gífurlega erfitt. Ég get ekki annað en minnt á það þegar menn vísa til Svíþjóðar í þessu sambandi að ég get ekki séð fyrir mér, miðað við það hvernig félagar mínir jafnaðarmenn í Svíþjóð tala, að þeir mundu yfirleitt líta á það sem úrræði að láta gengið síga um 25--30% eins og gert var hér á sl. einu og hálfu ári. Það væri ekki litið á það sem úrræði einu sinni. Um leið og við tölum um hvað Svíar mundu ekki gera þá skulum við líka tala um fleira sem Svíar mundu ekki gera.

Herra forseti. Ef við lítum á atburði liðinna mánaða þá undirstrikar þróun mála að með fátækum, undirokuðum þjóðum, hefur þróast hatur og heift og vonleysi. Þegar öfgaöfl velja að virkja þessar tilfinningar gegn velmegandi ríkjum þá gerast mjög alvarlegir atburðir. Þó að ekkert réttlæti hryðjuverk þá fer ekki hjá því að við gerum okkur grein fyrir að hægt er að leita orsaka grimmdarinnar. Við vitum af hverju þessi óhugnaður hefur orðið og hvað hefur leyst þessi öfl úr læðingi.

Þá kem ég að því atriði úr ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar er hann talaði um að það væri ekki nægur vilji fyrir því að setja pólitískar skorður við því að fyrirtæki, svo sem orkufyrirtæki, fari sínu fram í fátækum löndum. Ég er sammála því að við verðum að finna leiðir til að gera það að verkum að hnattvæðingin verði til að lyfta fátækum þjóðum upp úr því sem þær búa við.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon notaði orðalagið pólitískar skorður. Við vitum að í þeim orðum fólust hinir efnahagslegu hagsmunir stórfyrirtækja sem fara inn í fátæk lönd og nýta sér stöðuna. Þá vil ég líka minna á að allmörg ár eru síðan ég fór að leggja eyrun við orðum félaga minna, jafnaðarmanna, sem þeir töluðu um að reyna að vinna að í Evrópu og hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni, að fá félagsleg ákvæði inn í alþjóðaviðskiptasamninga. Viðbrögðin voru að lönd sem Vesturveldin ættu viðskipti við vildu ekki láta setja sér skorður. Það er hin pólitíska hlið málsins. Ákveðinn vilji var fyrir hendi meðan ákveðnir flokkar voru við völd, en þarna rákust þau á vegg.

Ég tek undir að Vesturlönd verði að axla ábyrgð og reyna að tryggja að í hnattvæðingunni felist úrbætur fyrir fátækar þjóðir. Ég lít svo á að það hljóti að verða meginmál fundarins í Jóhannesarborg. Alltaf þegar við lendum í erfiðleikum með pólitísk mál af þessum toga eru efnahagslegir hagsmunir inni í málunum, annaðhvort stórfyrirtækja eða þjóða.

Herra forseti. Það voru mjög margir þættir sem ástæða var til að koma inn á í skýrslu utanrrh. Við höfum kannski haldið okkur við fáeina þeirra en mig langar að koma inn á þróun öryggismála og öryggissamstarfs. Miðað við þróun mála undanfarna mánuði er ekki hægt að enda umræðu eins og þessa nema komið sé örstutt inn á öryggismálin.

Það er athyglisvert að nú er t.d. NATO farið að beita sér mjög fyrir samstarfi við þjóðir eins og t.d. Rússland og Úkraínu. Auðvitað er það gífurlega athyglisvert. Það er athyglisvert að þingmannasamstarf NATO hefur nýverið haldið fund sinn í Rússlandi.

Hér í maí verður stórfundur NATO og um hann hefur verið deilt og tekist á vegna kostnaðar og annars, en hann verður hér. Þá er stefnt að fyrsta fundi aðildarríkjanna með Rússum. Það undirstrikar að veröldin hefur breyst og að átakalínur í heimspólitíkinni eru allt aðrar en fyrir fáum missirum. Það undirstrikar að pólitíkin tekur stöðugum breytingum.

Í umræðu hér um norrænt samstarf urðu orðaskipti á milli formanns Samfylkingarinnar og hæstv. utanrrh. Þá upplýsti utanrrh. um fund sem fram undan væri í Kaliningrad og þar mundi hann eiga fund með utanríkisráðherra Rússa. Það var mjög athyglisvert að þetta vakti ekki einu sinni athygli. Allt í einu var okkur farið að finnast sjálfsagt og eðlilegt að utanríkisráðherra skryppi á fund yfir pollinn að eiga prívatfund með utanríkisráðherra Rússa. Þetta er merkilegt og þetta er þýðingarmikið, líka það að nýtt samstarfsfyrirkomulag Rússa og 20 ríkja Evrópu er í burðarliðnum. Það er stefnt að því að samþykkja slíkt samstarf hér í vor, m.a. um öryggis- og varnarmál, aðgerðir gegn hryðjuverkum, áhættustjórnun og afvopnunarmál.

Þetta er í raun stórviðburður sem við erum að taka þátt í, breyttar línur, samstaða í Evrópu allri og þær friðarvonir sem hægt er að binda við þessa breytingu.

Herra forseti. Áhættustjórnun, afvopnunarmál og friðargæsla verða æ mikilvægari samstarfsþáttur. Um það er mjög góður kafli í skýrslu utanrrh. Ég hef nokkrum sinnum tekið þátt í umræðu í Norðurlandaráði um norrænt samstarf við friðargæslu. Við erum með slíkt samstarf á vegum Evrópusambandsins og ÖSE, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er mjög þýðingarmikið. Sameinuðu þjóðirnar hafa ekki síst lagt mikla áherslu á samstarf um þetta mál. Við köllum það gjarnan borgaralega friðargæslu en þetta tekur til áhættustjórnunar, aðgerða til að fyrirbyggja átök og til uppbyggingar eftir að átök hafa orðið.

Í svoköllaðri Brahini-skýrslu Sameinuðu þjóðanna er lögð mikil áhersla á möguleikann á hraðsveitum sem geta með stuttum fyrirvara komið upp hópi fólks, borgaralegra sérfræðinga til að skipuleggja þá, senda á vettvang og bregðast við á ákveðnum svæðum. Það var einmitt tillaga Norðurlandaráðs á sl. hausti að leggja til við ráðherrahópinn að komið yrði á tveimur samnorrænum nefndum til að kanna möguleika á að samtvinna þátttöku á þessu sviði á milli Norðurlandanna til að verða sterkari saman. Ef löndin samtvinna bæði mannskap og sérfræðiþátttöku þar sem löndin ætla að beita sér á fjarlægum slóðum er það talið auka möguleikana og efli átakið sem þau taka þátt í og geri það árangursríkara.

Jafnframt átti að setja á laggirnar aðra nefnd þar sem kannaðar yrðu forsendur og möguleikar á sameiginlegu norrænu hraðliði. Ég mundi hafa áhuga á að heyra hvort það væri komið á einhvern rekspöl, heyra hjá ráðherranum hvort eitthvað hefði gerst í þeim málum. Þetta er eitt af því sem lögð hefur verið á mikil áhersla.

Varðandi samstarf, bæði friðarsamstarf og friðargæslu. Þegar Dayton-samkomulagið var gert og samið var um frið á Balkanskaga hefði mátt halda að Peking-ráðstefnan hefði aldrei átt sér stað. Þar voru karlar að fjalla um karla og aðgerðir karla í landi sem hafa fengið hroðalega útreið. Staðreyndin er sú að þáttur kvenna í öryggisstarfi og öryggisumræðu er ekki mikill. Mér er sagt að t.d. á öryggis- og varnarmálafundum vítt og breitt, þar sem fólk sem vinnur að þessum málum kemur, sé þátttaka kvenna á bilinu 2--10%. Það er mjög mikilvægt að konur komi af fullum krafti inn í þessi mál og séu þátttakendur, sérstaklega í uppbyggingarstarfi. Mörg samfélög eru þannig uppbyggð að karlmenn geta ekki nálgast fjölskyldurnar út af hefðum og viðhorfum í þessum löndum. Það er nauðsynlegt að vera í aðstoðinni með úrræði þar sem konur geta nálgast fjölskylduna í gegnum konur.

Mig langar að segja frá því, af því ég er að tala um sjónarmið og þátt kvenna í þessum málum að Madeleine Albright heimsótti á sínum tíma flóttamannabúðir. Eftir þessa heimsókn sá hún til þess að afla fjárveitingar til að fjölga salernum í flóttamannabúðunum sem yrðu staðsett á mörgum stöðum í flóttamannabúðunum. Af hverju skyldi hún hafa gert það? Jú, vegna þess að í heimsókninni komst hún að raun um að ungum stúlkum var alveg gífurlega oft nauðgað í flóttamannabúðunum. Leiðin á svæðin þar sem salernin voru var svo löng að stúlkur voru komnar inn á hættusvæði með því að fara þaðan sem þær héldu til yfir á svæðið þar sem salernin voru. Auðvitað skildi hún eins og skot að það varð að minnka áhættuna sem fólst í því að stúlkur færu langar leiðir til þessara hluta og beitti sér fyrir fjölgun salerna á nýjum stöðum. Ekki hefði nokkur karlmaður gert sér grein fyrir þessu. Ég nefni þetta sem lítið dæmi um hugsun sem er framandi öðru kyninu, en konur gera sér grein fyrir.

Og að lokum, af því hv. þm. Ögmundur Jónasson var að tala um að við mundum álykta um Palestínu: Já, ég treysti því að við í utanrmn. munum álykta um Palestínu. Hæstv. utanrrh. hefur hér úr þessum ræðustól tekið undir sjálfstæði Palestínu, að Ísrael og Palestína fái landamæri og Jerúsalem verði skipt. Þetta er það sem við hljótum að álykta um, virðulegi forseti, og með þeim orðum lýk ég ræðu minni.