Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 16:58:18 (6745)

2002-03-26 16:58:18# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[16:58]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir þessi lokaorð um Palestínu. Vonandi eigum við eftir að álykta um það efni áður en þingi lýkur í vor.

Varðandi Evrópusambandið og EES-samninginn þá er farið að líta á það nánast sem stórkostlegan glæp að hafa verið á móti þeim samningi, stórsynd. Ég veit ekki hvort mönnum finnst álíka stór synd að hafa meinað þjóðinni um að greiða atkvæði um þann samning í þjóðaratkvæðagreiðslu. En samkvæmt skoðanakönnunum voru 70--80% þjóðarinnar á því máli að það ætti að taka hann fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hafði miklar efasemdir um þann samning og hef enn.

Ég tel það ekki hafa verið góðan samning. Hann hefur grafið undan fullveldi Ísland. Ég hefði viljað fara aðrar leiðir, ganga til tvíhliða samninga við Evrópusambandið, nokkuð sem er ekki uppi eftir að við erum búin að festa okkur í þetta net. Við þær aðstæður sem við búum tel ég að við eigum að gera það besta.

Vegna þess að hv. þm. vitnaði í orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem er fjarverandi núna, um afstöðu Svía til evrunnar þá átti hann við þá afstöðu sænsku verkalýðshreyfingarinnar að hún vildi hafa eins konar viðlagasjóð til staðar til að bregðast við sveiflum í efnahagslífinu ef evran yrði tekin upp. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, að 25% gengissig er ávísun á stórkostlega kjaraskerðingu einnar þjóðar og skerðir kaupmátt hennar. Hún segir að sænskir jafnaðarmenn hefðu aldrei fallist á slík úrræði, ekki einu sinni kallað það úrræði. En einhvern tímann hefði sænskum jafnaðarmönnum þótt óásættanlegt að atvinnuleysi í landinu færi yfir 10% eins og gerðist. Allt er þetta spurning um að velja og hafna, forgangsraða og leggja niður fyrir sér á hvað maður leggur mesta áherslu á, atvinnustigið eða aðra þætti í efnahagslífinu.