Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 17:00:34 (6746)

2002-03-26 17:00:34# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[17:00]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt og það er þess vegna sem við skipum okkur í ólíkar sveitir. Lífsskoðunin birtist í því hvernig við viljum halda á málum, hvernig við röðum okkur í flokka til þess að stefna að breyttu samfélagi og hvernig við nálgumst þau markmið sem við setjum fram. Satt best að segja þá höfum við mörg svipuð markmið en leiðirnar sem við viljum fara að þeim eru ólíkar. Hvort tengingin var þarna á milli þar sem þingmaðurinn dregur samasemmerki, er aukaatriði. Viðbrögð mín voru að benda á úrræðin sem við höfum verið að nota að undanförnu sem eru afskaplega vond og ég er sannfærð um að hefði verið hægt að sporna gegn ef menn hefðu brugðist tímanlega við því sem var í pípunum. En ekki meir um það.

Þingmaðurinn nefndi skoðanakönnun um EES. Það var ofboðslega hávær umræða um framsal, um að samningurinn bryti í bága við stjórnarskrá og um að við værum að missa forræði á okkar málum. Ég er alveg sannfærð um að þeir sem lýstu því yfir í skoðanakönnun að þeir vildu ekki EES-samninginn hafa trúað því.

En ég tek líka alveg mark á skoðanakönnunum, jafnt hvort þær henta því sjónarmiði sem er uppi hjá mér eða einhverju sem er andstætt viðhorfum mínum. Það finnst mér vera alveg öfugt hjá t.d. flokki hv. þm. vegna þess að hann nefnir þessa skoðanakönnun um EES. Þegar flokkur hans hefur fengið gífurlega fínar fylgiskannanir þá hefur mér heyrst að flokkurinn hans líti svo á að það sé í raun fylgisstaðfesting, en þegar skoðanakannanir koma um vilja fólks til að skoða aðild að Evrópusambandinu þá heitir það skoðanamyndun og rangar upplýsingar.