Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 17:07:28 (6749)

2002-03-26 17:07:28# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, KPál
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[17:07]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans sem er að venju mjög yfirgripsmikil og tekur á flestum þáttum utanríkismálanna. Ég tek einnig undir þakkir til starfsmanna utanríkisráðuneytisins. Ég er alveg sammála því sem komið hefur hér fram um að á vegum ráðuneytisins úti í heimi er unnið afskaplega mikið og þarft starf sem þjóðin nýtur góðs af og hefur svo sannarlega skilað sér.

Ræða hæstv. utanrrh. snerist að mestu um sjálfbæra þróun og er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að taka undir þau sjónarmið að við verðum að lifa í sátt við náttúruna og að jafnvægi ríki við nýtingu auðlinda, en hvað okkur Íslendinga varðar er það spurning um líf og dauða.

Það er að sjálfsögðu óumdeilt að Íslendingar hafa með ýmsu móti gert þennan sáttmála við náttúruna til að jafnvægi ríki og getum við sagt að í orkumálum, t.d. jarðvarma, gufu og fallvötnum, hafi þetta tekist með ágætum og við getað kennt öðrum þjóðum hvernig eigi að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti og skapa þar með mikla hagsæld fyrir viðkomandi þjóð. Það hefur svo sannarlega tekist hjá Íslendingum og er það mjög til eftirbreytni.

Sjálfbær þróun fiskveiðanna hefur verið mikið og eðlilegt markmið okkar. Kannski hefur ekki tekist eins vel þar. Eigi að síður má segja að Íslendingum hafi þó með þeim aðferðum sem notaðar eru í dag, þ.e. með kvótaúthlutunum, tekist að ná stöðugleika eins og er. Það gengur of hægt að byggja upp þá fiskstofna sem við eigum, en við vonum að það muni takast.

Þær aðferðir sem við höfum beitt við fiskveiðarnar eru líka mjög nútímalegar og okkur hefur með þeim tekist að nýta okkur nýjustu tækni á þessu sviði sem hefur verið þróuð hér á Íslandi og ber að þakka sjómönnum okkar sem eru afskaplega framsýnir og duglegir og eins að sjálfsögðu þjónustuaðilum sem þjónusta útgerðina og útgerðarmönnum fyrir það hversu nýjungagjarnir þeir hafa verið og fljótir til.

Samt hefur mér ekki líkað ýmislegt í sjávarútvegsstefnunni. Mér líkar ekki, þegar við köllum okkur sjálfbæra og umhverfisvæna, hvernig við höfum leyft fullvinnsluskipum að henda fyrir borð um 40% af öllum þeim afla sem inn fyrir borðstokk þeirra skipa kemur. Það er staðreynd að í dag vinna um 60 skip afla sinn um borð en þau veiða um 150 þúsund tonn, eða nálægt 40% af öllum botnfiskafla sem leyfilegt er að veiða við Íslandsstrendur. Af þessum 150 þúsund tonnum fara 60 þúsund tonn í hafið aftur.

Ég hef látið reikna það út lauslega hvað þessi afli væri verðmikill. Ef um væri að ræða útflutning þá eru um 1,5 milljörðum hent í hafið með þessu móti. Þó er það kannski ekki aðalatriðið í þessu samhengi hjá mér heldur sóðaskapurinn og virðingarleysið sem mér finnst koma fram hjá Íslendingum gagnvart auðlindinni sem slíkri. Við erum að henda þarna beinum og hausum. Við erum að henda þarna roði og reyndar slógi og alls konar úrgangi. Þessu er hent í mjög stórum stíl frá þessum skipum. Þessu er hent á mjög þröngu svæði oft og tíðum þannig að þetta dreifist ekki yfir stórt svæði heldur er þessu hent nánast eins og í kringum frystihús. Munurinn er bara sá að þetta fer á hafsbotninn en ekki kringum frystihús eins og á landi.

Sumir hafa haldið því fram að það sé mjög gott fyrir lífríkið í hafinu að fá þennan úrgang niður á botninn því að þar væru hin og þessi botndýr sem ætu þetta. Ég held samt þegar litið er á þá staðreynd að niður við botninn er yfirleitt ekki nema tveggja gráðu hiti og ekki mikið um botndýr sem vinna á þessu nema á mjög löngum tíma, að þetta sé einhver óskhyggja eða falsrök. Þetta er ekkert sambærilegt við það t.d. að loðnan hefur gengið hér á fjörur og hefur eyðst á mjög skömmum tíma. Loðnan er að mestu leyti vatn og engir beinhryggir sem koma þaðan.

Mér finnst ósköp svipað að henda afla fyrir borð og ef öllum sláturúrgangi væri hent út á tún og hann látinn liggja þar þangað til hann rotnaði. Ég veit að engum sem býr í þessu landi mundi líka það vel að ganga þannig um náttúruna. En þannig göngum við um lífríkið í sjónum og það líkar mér illa. Ég vona að íslensk stjórnvöld taki á þessu máli og að íslenskir útvegsmenn opni augu sín fyrir því að þetta er ekki umgengni sem menn geta borið virðingu fyrir.

Herra forseti. Ég hef lagt fram lagafrv. í þessu skyni og vona að það veki einhverja umræðu og leiði síðan til þess að stjórnvöld taki þetta upp á sína arma.

Það sem tengist sjávarútvegsmálum svo enn frekar í þessari umræðu, herra forseti, er sú mikla umræða sem hefur farið fram um inngöngu Íslendinga eða hugsanlega aðild Íslendinga að Evrópusambandinu. Ég held að flestallir ræðumenn hér hafi rætt það með einhverju móti.

Eins og kom hér fram áðan hefur stefna Sjálfstfl. verið ljós. Það er alveg klárt að stefna Sjálfstfl. er að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu. Það hefur verið rætt, bæði á landsfundi og í flokknum sjálfum. Einstakir þingmenn og formaður flokksins hafa flestir lýst yfir skoðunum sínum hvað þetta varðar. Ég vil segja bara fyrir mína parta að ég er algjörlega sammála þeirri stefnu, meginstefnu, að við getum ekki undir þessum kringumstæðum gengið í Evrópusambandið. Spurningin er náttúrlega sú hvort við getum nokkurn tímann gert það, hvort að nokkurn tímann verði staðan slík að við getum afsalað okkur þeim miklu hagsmunum sem felast í fiskimiðunum og fiskstofnunum.

[17:15]

Einnig verður að velta því fyrir sér hvort það fyrirkomulag sem við höfum beitt við fiskveiðarnar að tengja aflakvóta við skip sé ekki líka mjög hættulegt ef við gengjum í Evrópusambandið þar sem algjört frelsi á sölu fyrirtækja yfir landamæri ríkir og kvótinn fylgir skipinu. Það væri þess vegna auðvelt að kaupa upp öll skip landsmanna og þá um leið upp allan kvóta. Hvar sætum við þá? Ég sé fyrir mér alveg feiknalega mikil vandamál rísa ef við förum að leita eftir þeim leiðum. Ljóst er að við fáum engar undanþágur, það hefur legið fyrir og ég veit ekki betur en það komi fram í bók Samfylkingarinnar.

Einnig kemur þetta fram í þeim hugleiðingum sem Framsfl. hefur verið með og þeir sérfræðingar sem hafa talað um þetta eru flestallir sammála um að Rómarsáttmálinn taki afdráttalaust á málinu og þannig verði sameiginleg forsjá yfir sjávarútvegsmálum. Ég segi ekki að það verði eins slæmt hjá okkur og hjá Möltu, en við munum að sjálfsögðu hafa einhver yfirráð eins og eftirlit og við munum um tíma hafa einhver yfirráð yfir kvótanum en til lengri tíma litið hlýtur þetta að fara allt saman til sameiginlegra yfirráða í Brussel. Það er bara eðli Evrópusamningsins, að teknar verða sameiginlegar ákvarðanir.

Aftur á móti hef ég alltaf verið og er Evrópusinni og auðvitað skiptast menn í annars vegar í Evrópusinna og Ameríku, eða sumir vilja tengjast bara NAFTA. Ég hef aftur á móti talið að EES-samningurinn hafi veitt okkur þau réttindi sem við þurfum og ,,frelsin fjögur`` sem oft voru til umræðu hér einu sinni, hið frjálsa flæði fólks, fjármagns, vöru og þjónustu, hafa veitt okkur þau réttindi innan Evrópusambandsins sem við þurfum.

Ef við förum lengra erum við einfaldlega búin að missa af því sjálfstæði sem við verðum að eiga sem þjóð. Ég geri því ráð fyrir að umræðan eigi eftir að verða miklu lengri. Mér heyrist það og þær skoðanakannanir sem hafa farið fram eru afskaplega sláandi. Ég held fyrst og fremst að það stafi af því að almenningur hefur ekki beinlínis áttað sig á þessu. Það er ekkert einfalt að skilja hvað gerist við svona samning. Morgunblaðið gerði ágæta úttekt á þessu um helgina og lesturinn á henni sýndi okkur nú hvað þetta er í rauninni flókið. Norðmenn töldu sig gera góðan samning, stjórnvöld þar töldu sig gera mjög góðan samning, en þegar upp var staðið þá voru flestir sammála um að samningurinn hefði verið frekar lélegur og margir sögðu mjög lélegur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta og vil að endingu minnast aðeins á varnar- og öryggismálin og utanríkismálin, sem nú hafa þróast eins og fram kemur í ágætri skýrslu hæstv. utanrrh. á þann veg að utanríkismálin og öryggis- og varnarmálin eru meira og meira að færast yfir til Evrópusambandsins.

Við vitum að heilmikil andstaða er gegn því að þetta þróist á þann veg, sérstaklega hjá Bretum og mörgum þjóðþingum, en þetta virðist þó vera stefna og straumur sem ekki verður stöðvaður. Þeir þættir sem snúið hafa t.d. að varnar- og öryggismálum og voru innan VES, eða Vestur-Evrópusambandsins, hafa færst yfir til Evrópusambandsins og eru núna undir stjórn Solana. Þær hugmyndir sem eru um þingmannasamkundu Vestur-Evrópusambandsins hafa verið í þá áttina að þingmannasamkundan ætti að verða hluti af Evrópuþinginu.

Ég er alveg hjartanlega inni á því eins og mér finnst hæstv. utanrrh. vera, að við eigum að reyna að fylgja þessu eins mikið og við getum. Við eigum að reyna að vera innan VES með þau réttindi sem við höfum haft. Þó svo að völd Vestur-Evrópusambandsins hafi minnkað, þá eru þau mjög mikilvægur vettvangur í Evrópuumræðunni, bæði í varnar- og öryggismálum og þau verða það áfram.

Evrópuþjóðþingin munu aldrei afsala sér varnar- og öryggismálum alfarið til Evrópusambandsins, a.m.k. ekki í nánustu framtíð. En aftur á móti gæti svokallaður Evrópuher haft þær afleiðingar að það yrði sameiginlegt forræði sem ekki er gott að átta sig á hvernig þróaðist.

Ég hef því talið mjög nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð að styrkja stöðu okkar innan Vestur-Evrópusambandsins eins og við getum, að sjálfsögðu innan NATO líka, enda tengdust þau tvö bandalög, NATO og Vestur-Evrópusambandið, órjúfanlegum böndum og að margra mati hefði það vel getað virkað áfram, en sá einbeitti vilji Evrópusambandsins að fara af stað með sína eigin varnar- og öryggismálastefnu með meiri krafti en áður réð því hvernig fór.