Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 17:22:07 (6750)

2002-03-26 17:22:07# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[17:22]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði sem svo þegar hann fór yfir það hvernig þjóðin hefði nýverið tjáð hug sinn í skoðanakönnunum um afstöðuna til Evrópusambandsaðildar, að mikil umræða eigi eftir að fara fram, fólk átti sig ekki á þessu. Hann sagði sem svo að fólk átti sig ekki á því hvað gerist við svona samning eins og við mundum þurfa að ganga í gegnum með samningaviðræðum um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Hann sagði eitthvað á þá leið að erfitt væri að segja hvað gerðist og vísaði þar í reynslu Norðmanna af samningaferli við Evrópusambandið.

Herra forseti. Ég vil einmitt vekja athygli á því að Norðmenn hafa tvisvar sinnum farið í gegnum samningaviðræður við Evrópusambandið um hugsanlega aðild, fellt hana í bæði skiptin. Ég held að það sé einmitt þannig, herra forseti, að íslenska þjóðin áttar sig ósköp vel á því hvað er að gerast. Hún áttar sig á því að Evrópusamstarfið er í hættu undir hatti EES-samningsins. Það mun ekki þjóna hagsmunum okkar nægilega til framtíðar að hafa treyst á þann samning til þess að halda úti slíku samstarfi og íslenska þjóðin áttar sig líka á því að einu rök Sjálfstfl., Vinstri grænna og þeirra sem hafa barist jafnvel gegn því að sú umræða fari fram, eru þau að við séum að afsala sjálfstæði okkur yfir fiskimiðunum. Það er það sem höfuðáherslan er lögð á.

Því hlýtur maður að spyrja, herra forseti: Er ekki rétt að láta á það reyna? Og maður hlýtur einnig, herra forseti, að spyrja hv. þm., hvort ekki megi skilja það á máli hans að ef við fengjum ásættanlega niðurstöðu í samningum um yfirráðin yfir auðlindinni, að hann væri þá tilbúinn að ganga í Evrópusambandið? Hann leggur höfuðáherslu á að það sé það sem standi í vegi. Hann útilokar fyrir fram að hann nái árangri í samningaviðræðum. En ef á það er látið reyna og niðurstaðan er jákvæð, er hann þá tilbúinn að ganga inn í Evrópusambandið?