Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 17:26:25 (6752)

2002-03-26 17:26:25# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[17:26]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson kom einmitt að kjarna málsins. Hann kom einmitt að því að sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga sem við byggjum afkomu okkar að miklu leyti á og þess vegna hefur það mikla þýðingu í hugsanlegum samningaviðræðum við Evrópusambandið og þar af leiðandi fráleitt að tala um aðrar þjóðir í því samhengi sem byggja afkomu sína alls ekki á sama hátt á sjávarúvegi, eins og Norðmenn, og eru með allt annars konar þjóðarbú en við búum við.

Herra forseti. Vissulega er það svo að við vitum aldrei nákvæmlega fyrir fram hvaða áhrif aðild að Evrópusambandinu muni hafa. En besta leiðin til að kanna það er að sækja um aðild, láta reyna á það í samningaviðræðum hversu langt við komumst með hin stóru mál sem við höfum hvað mestar áhyggjur af. Ég trúi að ég og hv. þm. séum sammála um að við munum aldrei samþykkja slíkan samning nema fyrir liggi að ásættanleg niðurstaða náist hvað sjávarútveginn varðar. Það held ég að allir séu sammála um, bæði þeir sem eru með og á móti Evrópusambandinu.

En ég er líka þeirrar skoðunar, herra forseti, að ég er alveg viss um að mjög margt er jákvætt sem við sjáum ekki fyrir sem mundi koma í ljós ef við gerðumst aðilar og hefur oft komið í ljós þegar við höfum gerst aðilar að alþjóðlegu samstarfi og er þar kannski EES-samningurinn hvað skýrasta dæmið. Það höfðu mjög margir efasemdir um þann samning, m.a. Sjálfstfl. sem var á móti honum allt þangað til að mynduð var ríkisstjórn með Alþýðuflokknum árið 1991, þegar tekin var stefnubreyting í því máli. Menn höfðu efasemdir um þann samning og höfðu það margir mjög lengi. En hjá mörgum þeirra aðila, m.a. Alþýðusambandinu, hefur afstaða manna breyst gríðarlega síðan þá og ég vil meina að allflestir, fyrir utan kannski einstaka aðila, séu sáttir við þann samning og telja að hann hafi fært okkur gríðarlegar hagsbætur fyrir íslenskt þjóðarbú og þjóðlíf.