Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:33:10 (6772)

2002-03-26 18:33:10# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er þetta samkeppnismál og efnahagslegt mál en ég vísa aftur til niðurstöðu þessara hagfræðinga, og ég veit að hæstv. ráðherra man vel þá umræðu sem spratt í Danmörku í framhaldi af niðurstöðu óháðu hagfræðinganefndarinnar sem kom dönsku stjórninni nokkuð í opna skjöldu og átti náttúrlega sinn þátt í að Danir felldu evruna. Þeir sóttu ekki í niðurstöðu þessara sérfræðinga þau rök fyrir upptöku evrunnar á efnahagslegum grunni sem menn höfðu vænst. Hagfræðingarnir sögðu: Það er eiginlega ómögulegt að vega það og meta til fulls hvort vegur þyngra, kostirnir eða gallarnir, en pólitíkin er klár. Ef Danir vilja vera fullgildir þátttakendur í hinum pólitíska samruna eiga þeir að vera með í Evrópu. Þannig var málið lagt upp.

En auðvitað skipta samkeppnisskilyrði þarna máli. Og af því að hæstv. ráðherra var fyrr í umræðunni inni á þessu með lítil hagkerfi, mögulega hærri vexti o.s.frv., vil ég minna á að þetta er allt samhangandi, lítið hagkerfi, sjálfstæður gjaldmiðill, mögulega hærri vextir sem er þá að einhverju leyti fórnarkostnaður þess að viðhalda sjálfstæðum gjaldmiðli og reka sjálfstætt hagkerfi, og svo samkeppnisskilyrðin. Þótt við viðurkennum þetta allt er ekki þar með sagt að lausnin verði: Aha, göngum í Evrópusambandið, tökum upp evru. Eftir stendur að meta út frá íslenskum aðstæðum, íslenskum veruleika, landfræðilegum, efnahagslegum með tilliti til gerðar hagkerfisins, hverjar okkar mikilvægustu útflutningsgreinar eru o.s.frv., hverjir eru að lokum kostirnir og gallarnir. Vega þeir þyngra í matinu á því hvort gengið skuli í Evrópusambandið, taka upp evru eða ekki? Það að við byggjum hagkerfið að verulegu leyti á þorski, það að við erum með okkar sérstöku samsetningu í útflutningsviðskiptum, hverfur ekki þótt við tökum upp evru. Spurningin er því þrátt fyrir allt, til langs tíma litið: Er betra að búa um starfsskilyrði íslensks atvinnulífs, íslenskra útflutningsatvinnuvega, í okkar sjálfstæða hagkerfi með sjálfstæðum stjórnkerfum og gjaldmiðli, eða gera það ekki?