Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:35:28 (6773)

2002-03-26 18:35:28# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér er alveg ljóst að íslenskt efnahagslíf er sveiflukennt. Ég held hins vegar að verulega hafi dregið úr þessum sveiflum. Ný sjávarútvegsstefna og ýmsar breytingar sem hafa verið gerðar í sjávarútveginum hafa dregið verulega úr þeim. En auðvitað eru þær fyrir hendi að einhverju leyti. Það verður að sjálfsögðu að hafa í huga.

Hagvöxtur næstu ára og áratuga ræðst að verulegu leyti af fjárfestingu og það liggur alveg ljóst fyrir að hærra vaxtastig hefur áhrif á fjárfestingarstefnuna. Ýmis stærri fyrirtæki, alþjóðleg fyrirtæki, geta starfað á erlendum fjármagnsmörkuðum. T.d. hefur komið fram að mörg fyrirtæki á Íslandi hafa ákveðið að gera upp reikninga sína í evrum í framtíðinni, hafa ákveðið að hætta að gera upp í íslenskum krónum. Þetta eru fyrirtæki sem sækja fjármagn sitt inn á erlenda fjármagnsmarkaði. Þetta á ekki við um litlu fyrirtækin, minni atvinnurekstur í landinu. Þau verða að sætta sig við aðra skilmála og keppa á öðrum grundvelli þannig að það eru miklu meiri líkur á því að minni fyrirtækin, fyrirtæki úti um land, lendi í meiri vandamálum en stærri fyrirtæki eins og SÍF og fleiri. Allt slíkt verður að hafa í huga þegar þetta er metið.

En þetta er eins og allt annað, hvorki svart né hvítt. Mér dettur ekki í hug að láta að því liggja. Hins vegar eru þarna atriði sem við þurfum að vega og meta og þess vegna er sú umræða sem hér hefur farið fram afskaplega gagnleg, og þakkarvert hvernig menn hafa rætt, t.d. þessi evrumál, með mjög málefnalegum hætti í dag. Ég vil endurtaka þakkir mínar fyrir þessa umræðu.