Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:37:47 (6774)

2002-03-26 18:37:47# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á þær áherslur sem hæstv. utanrrh. lagði á hagstjórnina og mikilvægi þess að við höguðum henni þannig að verðbólgumarkmið Seðlabankans næðu fram að ganga, að vöxtum yrði haldið í lágmarki. Þetta er athyglisvert í ljósi þeirrar fjárfestingarstefnu í tengslum við stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar sem hér á að keyra í gegn og gengur að sjálfsögðu þvert á þessi markmið.

Þetta er samt ekki ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs heldur hitt að hæstv. utanrrh. sagði að til greina kæmi að hann færi til Ísraels og Palestínu í byrjun júnímánaðar. Áður hefur verið talað um lok maí en á þeim tíma stendur til að halda sveitarstjórnarkosningar á Íslandi og hæstv. ráðherra vill kjósa hér á landi, og ég hef fullan skilning á því.

Spurning mín er þessi: Telur hann koma til greina að fulltrúar stjórnarandstöðunnar, og helst allra stjórnmálaflokka á þingi, verði með honum í för? Ég nefni formenn stjórnarandstöðuflokkanna og hugsanlega einnig formann utanrmn. sem ættu erindi með hæstv. utanrrh. til að endurspegla þá breiðu pólitísku samstöðu sem slík heimsókn á að vera vísbending um. Það hefur komið fram að við erum mjög samstiga í þessu máli og eigum að vera það eftir því sem kostur er. Telur hæstv. ráðherra koma til greina að með í för verði þessi pólitíska breiðfylking?