Samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:41:22 (6777)

2002-03-26 18:41:22# 127. lþ. 105.10 fundur 615. mál: #A samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl# (einkavæðing) þál. 23/127, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:41]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland staðfesti breytingar á samningi um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl sem gerðar voru í Washington 17. nóv. árið 2000.

Ísland fullgilti stofnsamning alþjóðastofnunar fjarskipta um gervitungl árið 1975 að fenginni heimild Alþingis. Samningurinn var gerður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og er gjarnan nefndur INTELSAT-samningurinn.

Breytingar á stofnsamningnum hafa ekki öðlast gildi þar sem skilyrðum hans um lágmarksfjölda staðfestinga frá aðildarríkjum hans hefur ekki verið fullnægt. Aðildarríki hans voru þegar breytingarnar voru samþykktar, 17. nóv. 2000, 144 talsins og þarf staðfestingu 96 þeirra til að þær öðlist gildi. Hinn 1. mars sl. höfðu 33 aðildarríkjanna staðfest breytingarnar.

Með breytingum á samningnum er alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl einkavædd og fyrirtækið INTELSAT sett á stofn auk alþjóðlegrar eftirlitsstofnunar, ITSO.

Megintilgangur eftirlitsstofnunar verður að tryggja að fyrirtækið láti í té á viðskiptagrundvelli alþjóðlega fjarskiptaþjónustu við almenning samkvæmt meginreglum samningsins.

Kveðið er á um skuldbindingar fyrirtækisins, INTELSAT, sem eru að viðhalda alheimstengingum og alheimsumfangi, þjóna líflínuviðskiptavinum og veita aðgang að kerfi fyrirtækisins án mismununar.

Innan ITSO starfar þing aðila og framkvæmdastjórn undir stjórn framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð gagnvart þingi aðila. Höfuðstöðvar þess verða í Washington.

Að mati samgrn. kallar staðfesting breytinganna á samningnum ekki á lagabreytingar hér á Íslandi. Heimildar Alþingis er þó leitað til að staðfesta breytingarnar í ljósi þess að leitað var heimildar Alþingis til að fullgilda stofnsamning INTELSAT á sínum tíma og þess að um grundvallarbreytingar á samningnum er að ræða.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanrmn.