Samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:53:23 (6783)

2002-03-26 18:53:23# 127. lþ. 105.10 fundur 615. mál: #A samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl# (einkavæðing) þál. 23/127, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er fullkomlega eðlilegt að hv. þm. hafi sína skoðun á þessu máli og taki afstöðu til þess. Ég tel rétt hjá honum að við Íslendingar höfum ekki verið leiðandi í þessari þróun um einkavæðingu fjarskiptamarkaðarins. Það er hins vegar staðreynd að þessi fyrirtæki hafa verið seld til einkaaðila í mjög miklum mæli og því hefur þessi þróun orðið. Menn geta síðan haft sínar skoðanir á því. Þarna hafa orðið gífurlegar breytingar sem við Íslendingar höfum þurft að taka mið af og það er náttúrlega fyrst og fremst vegna þessara gífurlegu breytinga, þessara miklu tækniframfara og breytinga í alþjóðafjarskiptum sem við ætlum okkur að fara í svipað kjölfar og aðrar þjóðir, þó að rétt sé að taka það fram að við höfum stigið þau skref af mun meiri varkárni en flestar aðrar þjóðir í kringum okkur.