Breyting á bókun 26 við EES-samninginn (störf Eftirlitsstofnunar EFTA)

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:57:02 (6785)

2002-03-26 18:57:02# 127. lþ. 105.11 fundur 622. mál: #A breyting á bókun 26 við EES-samninginn (störf Eftirlitsstofnunar EFTA)# þál. 15/127, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 164/2001, um breytingu á bókun 26 við EES-samninginn, og fella inn í samninginn aðra reglugerð ráðsins.

Gerð er ítarleg grein fyrir efni ákvörðunarinnar í þáltill. og hún er prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri gerð sem hér um ræðir. Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Að því er varðar efnisatriði þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir nægir að meginstefnu að vísa til greinargerðar sem fylgir tillögunni auk gerðarinnar sjálfrar, en bókun 26 fjallar um valdsvið og störf Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar. Markmiðið með breytingu bókunar 26 er að tryggja Eftirlitsstofnun EFTA sambærilegar heimildir og framkvæmdastjórn ESB eru faldar með reglugerð ráðsins nr. 659/1999, en þessi reglugerð kveður á um valdaheimildir framkvæmdastjórnarinnar á sviði ríkisaðstoðar.

Bókun 3 við samninginn milli EFTA-ríkja um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls á Evrópska efnahagssvæðinu fjallar um störf og valdsvið Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar. Til að gæta samræmis hefur þótt nauðsynlegt að breyta umræddri bókun og gefa Eftirlitsstofnuninni vald til þess að fjalla um þessi mál með sambærilegum hætti og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Fjármálaráðherra hefur nú þegar mælt fyrir frv. til laga um breyting á samkeppnislögum sem innleiðir fyrrgreindar breytingar. 1. umr. um frv. fór fram á hv. Alþingi 12. mars og er það nú til umfjöllunar hjá efh.- og viðskn. þannig að málið hefur þegar komið til umfjöllunar á hv. Alþingi.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. utanrmn.