Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 19:05:33 (6789)

2002-03-26 19:05:33# 127. lþ. 105.13 fundur 636. mál: #A breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)# þál. 17/127, SJS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[19:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst bæta því við að mér finnst bagalegt hvað þessi tillaga er seint á ferðinni. Það er að sjálfsögðu ljóst að það er mikil vinna að þýða og koma hér að öllum þeim tilskipunum og reglum sem við erum að taka upp en engu að síður er alltaf heldur óþægilegt að sjá þær birtast fáum dögum áður en þær eiga endanlega að ganga í gildi. Sérstaklega finnst manni það vera miður þegar í hlut eiga mál sem ætla mætti að mjög góð samstaða og almenn ánægja yrði um.

Ég held að það hljóti að teljast til þrifnaðarmála að koma þessari tilskipun, sem varðar förgun gamalla bílhræja, í gegn. Reyndar leitar á hugann, herra forseti, að fleiri slíkar umhverfisreglur hafi lent í dálitlum hremmingum og séu aftarlega á ferðinni hjá okkur. Kannski að stjórnkerfið á því sviði sé heldur veikt til að takast á við þau verkefni sem þessu eru tengd. Ég nefni líka t.d. tafir á að fullgilda umbúðatilskipanir og fleira í þeim dúr þar sem upp á okkur stendur.

Ég vonast því til þess að þó að skammt lifi af áætluðum starfstíma þessa þings verði hægt að líta á þessi mál og vonandi afgreiða þau, a.m.k. þau þeirra sem ekki er ástæða til að ætla að mikill ágreiningur sé um.