Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 10:34:15 (6791)

2002-04-03 10:34:15# 127. lþ. 106.91 fundur 442#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[10:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Alþingi hefur verið blekkt. Fram hefur komið, m.a. hjá hæstv. iðnrh., að upplýsingum hafi verið haldið frá nefndum þingsins en í fjölmiðlum í gær var hæstv. viðskrh. spurð hvers vegna efh.- og viðskn. Alþingis hefði ekki verið upplýst um rétta stöðu mála þegar nefndin fjallaði um Reyðarálsverkefnið á fundi sínum 28. febr. sl.

Hæstv. ráðherra lýsti því yfir í útvarpsviðtali að hún hefði ,,lifað í voninni``, eins og hún komst að orði, og þess vegna hefðu þessar upplýsingar ekki átt erindi til efh.- og viðskn. Alþingis.

Herra forseti. Sú afstaða ráðherra að réttlætanlegt sé að leyna Alþingi og nefndir þingsins upplýsingum er ámælisverð og vítaverð og eðlilegt að forsn. þingsins komi þegar í stað saman til að ræða þá stöðu sem hér er komin upp.

Herra forseti. Þegar í ofanálag bætist sá pólitíski þáttur málsins, að upplýsingum sem þingið hefði átt að fá er haldið leyndum á sama tíma og þinginu er ætlað að taka ákvörðun um virkjunarleyfi fyrir Kárahnjúkavirkjun verður mál þetta enn þá alvarlegra. Á sínum tíma var rætt um að engar ákvarðanir yrðu teknar um virkjun fyrr en kaupandi raforkunnar væri í hendi. Hann er ekki í sjónmáli, hvað þá að gerður hafi verið skaðleysissamningur um þetta mál.

Herra forseti. Upp er komin mjög alvarleg staða, og ég spyr: Ef Morgunblaðið hefði ekki upplýst þjóðina um stöðu mála hinn 15. mars sl. hver væri staðan nú? Er okkur virkilega ætlað að taka ákvörðun í þessu stórmáli með bundið fyrir augun? Ég beini því til forsn. Alþingis að hún komi þegar í stað saman til að ræða þá alvarlegu stöðu sem upp er komin eftir að ljóst er að ráðherra í ríkisstjórn blekkir Alþingi.