Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 10:40:25 (6794)

2002-04-03 10:40:25# 127. lþ. 106.91 fundur 442#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), VE
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[10:40]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Í umfjöllun efh.- og viðskn. var oft rætt um að ekki yrði farið út í þessa virkjun fyrr en málið væri allt í höfn, fyrr en búið væri að skrifa undir alla þá samninga sem þyrfti að gera við Norsk Hydro, og það kom fram í umfjöllun nefndarinnar með almennum hætti að þessir samningar væru ekki í höfn fyrr en búið væri að skrifa undir. Að sjálfsögðu hefði síðan í ljósi þess sem síðar hefur gerst verið heppilegra að nefndin hefði verið upplýst um að eitt af því sem gæti komið upp á væri þetta Þýskalandsmál hjá Norsk Hydro, að það mundi hugsanlega geta sett strik í reikninginn, sem hefði getað verið eitt af mörgum atriðum sem hefði getað komið upp hjá fyrirtækinu og orðið þess valdandi að það gat ekki staðið við þessa samninga.

Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, væntanlega hefði það ekki breytt neinu um niðurstöðu nefndarinnar, hún hefði væntanlega afgreitt málið með þeim hætti sem hún gerði og lýst yfir stuðningi við það. Ég held að verkefni þingsins núna sé að klára einfaldlega að afgreiða þessa virkjunarheimild. Málið liggur þannig að ekki verður farið út í þessa virkjun nema til staðar séu fjárfestar sem vilja leggja pening í álverið og ég sé ekki við hvað hv. þm. Vinstri grænna eiga að vera hræddir fyrst fyrir liggur að framkvæmdin dregst eitthvað frá því sem við, þessir bjartsýnu einstaklingar sem hér tölum, höfðum annars verið að vonast til.