Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 10:42:22 (6795)

2002-04-03 10:42:22# 127. lþ. 106.91 fundur 442#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), SvH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[10:42]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Við stöndum frammi fyrir enn einu stórklúðrinu sem stjórnvöld standa fyrir. Hér á að taka til við að ræða virkjun við Kárahnjúka í dag og verja til þess öllum deginum þegar fyrir liggja feiknamikil verkefni til að sinna fyrir næstu mánaðamót. Þetta er auðvitað gjörsamlega út í hött. Ég skal ekki dæma um þetta klúður sem fram hefur komið í sambandi við leynd yfir málum gagnvart þingi en það sýnir þá enn einu sinni framkomu stjórnvalda gagnvart löggjafarþinginu.

En að veita núverandi valdhöfum umboð til að virkja kemur auðvitað ekki til nokkurra mála eftir uppljóstrun þeirra staðreynda sem nú liggja fyrir. Þar við bætist að það er gjörsamlega vonlaust um að ná nokkrum samningum við nokkurt fyrirtæki um nokkra virkjun, eða öllu heldur álver á Reyðarfirði. Og þótt samið yrði um álver getur það aldrei, eins og nú standa sakir um álverð á mörkuðum heims, greitt það orkuverð sem Kárahnjúkavirkjun þarf til þess að halda við lög sem gilda um hvaða lágmarksverð á að innheimta fyrir slíka orku.

Allt er þetta mál með þeim hætti að nú ættu menn að pakka saman. Auðvitað halda menn áfram að rannsaka það hjá stórfyrirtækjum heims hvort möguleikar eru á þessu en þeir eru ekki í sjónmáli. Og var ekki frétt um það frá Reyðarfirði í gær að ekkert nýtt yrði að frétta í þessu fyrr en þá í árslok 2003? Nei, hér þurfa menn að stokka upp spilin og gá til allra átta áður en lengra verður gengið fram.