Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 10:46:30 (6797)

2002-04-03 10:46:30# 127. lþ. 106.91 fundur 442#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[10:46]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Dylgjur og fullyrðingar hv. þingmanna Vinstri grænna eru fáránlegar. Ég vísa á bug þeim fullyrðingum og dylgjum að hæstv. iðnrh. hafi leynt Alþingi upplýsingum og málið hafi fengið óeðlilega afgreiðslu í þingnefndum. Ítrekað hefur komið fram að hæstv. ráðherra upplýsti Alþingi strax og formlegar upplýsingar lágu fyrir. Hvort fulltrúar viðsemjenda hafi veitt þingnefndum réttar eða rangar upplýsingar skal ég ekki leggja mat á enda er ekki óeðlilegt að þingnefndirnar fái þessa fulltrúa aftur til sín. Hv. iðnn., sem er óvenjuframsýn nefnd, hefur þegar fjallað um það mál og tekið ákvörðun um að fá þá fulltrúa aftur á sinn fund.

Herra forseti. Það er ekki Alþingi sem tekur hina endanlegu ákvörðun um virkjun. Alþingi hins vegar samþykkir fyrir sitt leyti heimild til framkvæmdarvaldsins. Það er heimavinna Alþingis. Viðskiptasamningar eru ekki afgreiddir endanlega á hv. Alþingi. Það eru viðskiptahættir sem tíðkuðust í Sovétríkjunum á sínum tíma og gáfust ekki vel, eins og kunnugt er. Það er Alþingi sem samþykkir fyrir sitt leyti heimild til hæstv. iðnrh. sem síðan gefur út virkjunarleyfið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það er á þeim nótum sem hv. iðnn. samþykkti málið frá sér með átta atkvæðum gegn einu, gegn atkvæði Vinstri grænna. Þannig samþykkti hv. iðnn. málið frá sér. Það var skýr vilji en engu að síður halda hv. þingmenn Vinstri grænna áfram að velta upp ýmsum dylgjum með ótrúlegum málatilbúnaði.

Herra forseti. Ég mælist til þess að málið verði, eins og til stendur, sett á dagskrá þannig að hv. alþm. geti tekið skýra pólitíska afstöðu í þessu mikla og jákvæða máli.