Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 10:52:20 (6800)

2002-04-03 10:52:20# 127. lþ. 106.91 fundur 442#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[10:52]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hvert er aðalatriði þessa máls? spurði hæstv. viðskrh. Aðalatriði þessa máls er að Alþingi Íslendinga hefur verið blekkt. Upplýsingum hefur verið haldið frá Alþingi og nefndum þingsins. Þetta er aðalatriði málsins. Það var Morgunblaðið sem upplýsti um stöðu málsins en ekki ríkisstjórnin og því miður er það ekki svo, eftir því sem ég kemst næst, að Norsk Hydro hafi haft blekkingar í frammi heldur íslenskir aðilar. Það eru þeir sem hafa blekkt okkur í þessu máli.

Hæstv. iðnrh. segist hafa vonast til þess að niðurstaðan yrði á annan veg en hún varð í reynd og af þeim ástæðum --- og nú vitna ég, með leyfi forseta, í hæstv. ráðherra í útvarpsviðtali: ,,Og af þeim ástæðum er ég ekkert sannfærð um að þetta hafi átt erindi inn á þann fund.`` Hér er vísað í fund efh.- og viðskn. Alþingis.

Arðsöm fjárfesting, segir hv. þm. Austurl. Arnbjörg Sveinsdóttir. Þetta er fullyrt á sama tíma og engir samningar eru í sjónmáli um sölu á raforkunni sem ræður því hvort um arðsama fjárfestingu er að ræða. Þegar hv. formaður efh.- og viðskn. fullyrðir hér að ekki verði farið út í neinar framkvæmdir fyrr en samningar liggi fyrir ætlast hann til þess að Alþingi taki um þetta ákvörðun með bundið fyrir augun. Það eru engir samningar í sjónmáli og því fráleitt að þetta mál verði leitt til lykta hér á næstu dögum eins og ríkisstjórnin hefur því miður í hyggju.