Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 10:54:19 (6801)

2002-04-03 10:54:19# 127. lþ. 106.91 fundur 442#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[10:54]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég met mikils störf Alþingis og vil sýna Alþingi fulla virðingu. Ég tel hins vegar fásinnu að halda því fram að upplýsingum hafi verið haldið frá þinginu og það verið blekkt. Það er háttur ábyrgra stjórnmálamanna að kanna viðkvæm mál til hlítar áður en farið er með þau í opinbera umræðu og þannig var það í þessu tilfelli.

Ég held að rétt sé að láta þess getið vegna orða síðasta hv. ræðumanns að samkvæmt frv. sem hefur verið lagt fram á hv. Alþingi verður það ekki verkefni Alþingis til framtíðar að fjalla um virkjunarleyfi. Ég tek það fram af því að hann gerir mikið úr þessu máli hér. Ég hefði óskað þess að þeir hv. þingmenn sem hér hafa tekið hvað sterkast til orða hefðu verið á þeim fundi sem haldinn var á Reyðarfirði í gærkvöldi. Þar var lýst miklum stuðningi við framgöngu stjórnvalda í þessu máli með lófaklappi, og það er það sem skiptir mig máli. Það skiptir mig ekki máli þó að pólitískir andstæðingar stígi í stól á Alþingi og hafi uppi stór orð og miklar fullyrðingar um blekkingar og annað slíkt og það skiptir mig heldur ekki máli þó að slíku sé haldið fram á síðum dagblaða. (ÖJ: Sannleikurinn í þessu máli ...) Athyglisverðast er að hv. þm. Ögmundur Jónasson treystir nú á Morgunblaðið í málflutningi sínum.

Virkjunarleyfi vegna Fljótsdalsvirkjunar á sínum tíma var afgreitt samhljóða frá Alþingi. Það virkjunarleyfi sem við erum að fjalla um núna og varðar Kárahnjúkavirkjun er nokkurn veginn það verkefni sem tekur við vegna þess að horfið er frá því að fara í Fljótsdalsvirkjun. Ég legg áherslu á að virkjunarleyfi verði afgreitt frá þinginu vegna þess að það skiptir máli fyrir þjóðfélagið allt og þá einkum og sér í lagi fyrir Austfirðinga.