Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 13:40:57 (6807)

2002-04-03 13:40:57# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, EMS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[13:40]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hún er orðin býsna löng þessi umræða um frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Það er svo með þann sem hér stendur að oft hefur maður beðið nokkurn tíma til þess að geta látið ljós sitt skína en ég held að þetta sé sú lengsta bið sem ég hef þurft að þola, bæði í þessum sal og eins um páskana alla. Þetta fer líklega að skaga eitthvað á aðra viku og klukkustundirnar sem ég hef þurft að sitja undir ræðuhöldum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur eru líklega eitthvað á fjórðu eða fimmtu klukkustund.

Herra forseti. Ég verð að segja vegna þess arna að ég eiginlega vil ekki gera nokkrum manni það öðrum en þá mér sjálfum að þurfa að bíða svo lengi eftir því að fá að segja nokkur orð úr þessum ágæta stóli.

Þetta leiðir hugann í þá átt hvernig við förum með það mikla frelsi sem við höfum til ræðuhalda í þessum ágæta þingsal. Það er stór spurning hvort lýðræðinu og þingræðinu sé til framdráttar að þannig sé með málfrelsið farið. Ég held, herra forseti, að við hljótum að hugleiða það, a.m.k. ef framhald verður á ræðuhöldum af þessu tagi um þetta mál.

Ljóst er að margt virðist a.m.k. benda til þess, herra forseti, að hér sé einn þingflokkur í þeim erindagerðum einum að tefja þingstörf sem mest hann má og vilji því koma sjónarmiðum sínum, sem er að sjálfsögðu hið eðlilegasta mál og nauðsynlegt, á framfæri, en að það þurfi svo langan tíma og svo margar endurtekningar til þess að aðrir þingmenn megi njóta þess málstaðar, leyfi ég mér að efast um.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að láta ræðu mína snúast um þetta meira en orðið er, en mun snúa mér að frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Það er hins vegar svo, herra forseti, að ég þarf út af fyrir sig ekki mikið um þetta mál að segja. Málið er búið að fá sína eðlilegu þinglegu meðferð í þeim nefndum sem ástæða þótti til að um það fjölluðu og hér liggur fyrir okkur í skriflegu formi flest það sem að málinu snýr.

Við höfum átt við mál þessu tengt um mjög langt skeið og má raunverulega færa fyrir því rök að þetta mál eða angar af því teygja sig a.m.k. 20 ár aftur í tímann. Ég ætla hins vegar ekki, eins og ýmsir hafa gert í ræðum sínum, að fara í miklar söguskýringar. Ég held að ekki sé þörf á slíku.

Herra forseti. Ég vil byrja umfjöllun mína um þetta frv. á að vekja athygli á því sem segir í athugasemdum við lagafrv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta er flutt til þess að afla lagaheimilda fyrir Kárahnjúkavirkjun og stækkun Kröfluvirkjunar vegna stóriðjuframkvæmda sem áformað er að ráðast í á næstu árum á Austurlandi.``

Herra forseti. Ég held að það sé algjörlega óhjákvæmilegt, m.a. vegna málflutnings ýmissa hv. þm. og einnig ýmissa annarra úti í þjóðfélaginu, að hæstv. iðnrh. komi við fyrstu hentugleika í ræðustólinn og staðfesti seinni hluta þessarar setningar, að ekki neitt annað sé á dagskrá varðandi þá orku sem þarna verður framleidd en að hún verði nýtt á Austurlandi. Þetta held ég, herra forseti, að sé algjörlega óhjákvæmilegt að fá hér alveg skýrt fram af þeirri ástæðu sem ég nefndi áðan, að ýmsir andstæðingar þessara verkefna hafa verið að sá þeim fræjum að hugsanlega sé hér verið að leika þann blekkingaleik að það eigi að virkja fyrir austan og flytja síðan orkuna eitthvað annað. En hér er þetta sagt í athugasemdunum og ef hæstv. ráðherra staðfestir skilning minn á því að ekki standi annað til en nýta þessa orku á Austurlandi þá held ég að það liggi orðið ljóst fyrir að áform eru ekki um annað. En það er auðvitað eðlilegt ef það liggur fyrir að iðnn. muni hittast á milli 2. og 3. umr. að þar velti menn því fyrir sér hvort ástæða sé til eða möguleiki á því að sett verði einhver setning inn í lagatextann sem tryggi þetta enn frekar því þetta er auðvitað ein af meginástæðum þess að stuðningur við þetta verkefni er jafnmikill og hann í raun og veru er.

[13:45]

Hér er sem sagt vísað til þess að stóriðjuáformin séu áformuð á Austurlandi, og ég minni einnig á nokkuð mikið umræddan úrskurð umhvrh. varðandi mat á umhverfisáhrifum. Þar er einmitt einnig vísað til ýmissa áhrifa sem stóriðjuver við Reyðarfjörð mundi hafa á samfélagið á Austurlandi og er hluti af rökstuðningnum fyrir þeirri niðurstöðu sem þar er fengin. Það er því allt auðvitað bundið við það að þetta verði reist fyrir austan og þess vegna held ég að það sé ekki neinum vandkvæðum bundið að hæstv. iðnrh. komi hér og taki af allan vafa um málið, og þó ekki væri nema í þeirri von að stytta hugsanlega einstakar ræður sem eftir á að flytja um þetta mál þannig að menn þurfi ekki að ræða alla þá hugsanlegu möguleika sem menn geta látið fara um hug sinn ef menn mundu vilja nota þessa orku til einhvers annars en að skila orku til stóriðjuvers á Austurlandi.

Ég sagði áðan, herra forseti, að m.a. í úrskurði umhvrh. hefði verið rætt um samfélagsleg áhrif á Austurlandi. Það er einnig gert í greinargerðinni sem fylgir lagafrv., m.a. bent á hversu víðtæk áhrif þarna geta orðið á ýmsum sviðum. Hér í fylgiskjölum er víða komið við í þeim efnum og rétt að rifja upp einstaka þætti. Texti á bls. 46 og 47 lýsir kannski best hugsanlegum áhrifum þessara framkvæmda en hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Best er að lýsa áhrifum framkvæmda af því tagi sem Kárahnjúkavirkjun er á þann hátt að þær feli í sér mikla möguleika til breytinga en ekki endilega eingöngu fyrirsjáanleg áhrif. Með þetta í huga skiptir afar miklu að allir þeir sem tengjast verkefninu á einn eða annan hátt hafi möguleika á að halda neikvæðum áhrifum þess í lágmarki en hámarka jákvæðar afleiðingar.``

Með þessum orðum er í raun og veru bent á að áhrifin af aðkomu þessa máls séu mjög mikið undir þeim komið sem að þessu máli koma, og það held ég að sé eitt af grundvallaratriðunum. Þess vegna ber auðvitað að fagna því að í aðdraganda þessa frv. hefur verið lögð mikil vinna í margs konar upplýsingaöflun. Það hefur að vísu á stundum leitt til þess að ýmsir andstæðingar verkefnisins hafa nýtt sér þessa upplýsingaöflun til að finna verkefninu allt til foráttu. Málið er hins vegar það að því betur sem við gerum okkur grein fyrir ýmsu, hver staðan er þar sem þessi framkvæmd verður sett niður og eins hvaða möguleikar felast í henni og hvaða áhrif geta af henni orðið, því betra og auðveldara verður fyrir okkur að reyna að hámarka hinar jákvæðu afleiðingar og lágmarka hinar neikvæðu. Að sjálfsögðu hefur ekki þessi framkvæmd frekar en nokkur önnur framkvæmd eingöngu góð áhrif í för með sér. Þess vegna ber auðvitað að afla sem bestra upplýsinga og reyna síðan að lágmarka hinar neikvæðu afleiðingar og hámarka hinar jákvæðu.

Í ýmsum ræðum sem hér hafa verið haldnar, herra forseti, hafa menn hins vegar staldrað, sérstaklega í hinum lengri ræðum, aðallega við hin hugsanlegu neikvæðu áhrif en gert lítið ef nokkuð úr hinum jákvæðu möguleikum. Þess vegna segi ég, herra forseti, að þetta er að sjálfsögðu mjög undir þeim komið sem að þessu koma hvernig þetta mun spila sig inn í framtíðina. Ég get fullyrt það, herra forseti, að fyrir austan a.m.k. er fullur vilji og full þekking til að reyna að hámarka hin jákvæðu áhrif sem allra mest. Þar er samstaða mikil um það að horfa til þeirra þátta en um leið gera sér grein fyrir því að vissulega geta neikvæðir þættir fylgt og því þurfi ekki síður að einbeita sér að því að lágmarka þá eins og að hámarka hina jákvæðu.

Herra forseti. Þetta mál hefur auðvitað ýmsar hliðar. Hér hafa ýmsir fjallað um hina þjóðhagslegu hlið málsins, arðsemina, og ég ætla ekki að fara að endurtaka það. Hinn byggðalegi þáttur skiptir líka gríðarlegu máli. Þess vegna verð ég að segja að mér finnst einna leiðinlegast að hlusta á hv. þm. sem nota það sem rök gegn verkefninu að þetta muni ekki hafa næg áhrif eða leysa allan byggðavanda þjóðarinnar. Það væri gaman ef menn hefðu eina patentlausn á honum sem hægt væri að samþykkja á þingi og hún mundi gilda um landið allt og leysa allan þann vanda. En ef ekkert má gera sem ekki leysir allan vanda erum við fyrst komin í alvarlegan vanda. Ég verð að segja að það er auðvitað ljóst mál að ef við náum því innan skamms tíma að reisa álver við Reyðarfjörð er að sjálfsögðu vandi Austfirðinga allur annar en áður og það mun að sjálfsögðu skapa miklum mun meira svigrúm til þess að taka á byggðavandanum víðar um land en við höfum í dag og munum hafa ef ekki verður reist álver við Reyðarfjörð.

Herra forseti. Á Austurlandi hefur, því miður, íbúum fækkað frá 1990 um nálega 1% á ári eða sem sagt um ein 10% á þessu tímabili. Það þýðir í raun og veru að ef vel tekst til náum við að vinna þetta til baka og mæta þörf fyrir aukna atvinnu sem kemur á næstu 10 árum eða svo. Það mun að sjálfsögðu skapa okkur algerlega ný sóknarfæri og ekki síður, sem er auðvitað mjög mikilvægt varðandi mannlíf og atvinnulíf í fjórðungnum, munum við fá nýja stoð undir atvinnulífið. Atvinnulíf á Austurlandi byggir nú fyrst og fremst á tveimur stoðum, þ.e. sjávarútvegi og landbúnaði, þannig að ef við fengjum hina þriðju stoð undir værum við að sjálfsögðu búin að auka fjölbreytnina og skapa nýja áður óþekkta möguleika í atvinnulífinu.

Vissulega er líka verið að vinna að ýmsum öðrum stoðum sem munu koma okkur til hjálpar og ég nefni þar t.d. ferðaþjónustu. Hún hefur verið að eflast að undanförnu og er ýmislegt sem bendir til að svo muni áfram verða. Það er hins vegar eitt af því sem einkennir hinn svart/hvíta málflutning sumra í þessu máli, að líta þannig á að ferðaþjónusta og virkjun og stóriðjuver séu eitthvað sem alls ekki geti farið saman þrátt fyrir að mýmörg dæmi sýni einmitt fram á að það geti ekki bara farið saman heldur geti það jafnvel farið vel saman. Þannig er hægt að efla ferðaþjónustu í tengslum við slíkar framkvæmdir. Nú fyrir stuttu fengu væntanlega flestir þingmenn í hendur einmitt tillögur hóps, sem hefur verið að vinna fyrir austan, um það hvernig megi efla ferðaþjónustu, m.a. í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir og er ekki að sjá af þeim hugmyndum að þeir aðilar séu mjög bangnir við að efla og treysta ferðaþjónustu í tengslum við slíkar stórframkvæmdir sem hér er verið að ræða.

Herra forseti. Það er auðvitað hægt að fara um víðan völl í þessu máli en ég mun reyna að takmarka mig sem mest ég má. Þó er rétt að vekja athygli á að þau störf sem menn eru að velta fyrir sér, m.a. í álverinu, eru ekki eingöngu einhæf láglaunastörf eins og oft er látið í veðri vaka. Hér er yfirleitt um að ræða störf sem eru launuð vel yfir meðallagi. Í þeim álverum sem reist hafa verið hér á landi hefur það sýnt sig að þar hefur verið veruleg ásókn í störfin. Það er ekki síður athyglisvert að skoða hvernig gert er ráð fyrir hlutfallslegri skiptingu milli hópa eftir kröfum um þekkingu. Oft er því haldið fram að hér sé um mjög einsleitan hóp að ræða sem hafi oft og tíðum ekki um margt annað að velja. En gert er ráð fyrir því að ófaglært fólk sem ekki er krafist mikillar sérþekkingar af muni vera um 6% af þeim sem vinna í álverinu. Störf sem krefjast hins vegar sérstaks iðn- eða fjölbrautanáms munu vera um 72%. Störf sem krefjast tæknimenntunar eru 13%, störf sem krefjast tæknimenntunar á háskólastigi um 5% og störf sem krefjast akademískrar háskólamenntunar um 4%.

Rétt er að vekja athygli á því að þessar tölur allar eru mun hærri en við höfum því miður í samfélaginu fyrir austan þannig að þessi vinnustaður, ef af verður --- eða þegar af verður, mun væntanlega hækka menntunarstig í fjórðungnum. Það er að sjálfsögðu einnig afar mikilvægt verkefni ásamt ýmsu öðru sem þessu fylgir.

Enn fremur er rétt að vekja athygli á því að samfélagið fyrir austan eins og ég benti á áðan hefur þurft að þola mikla fólksfækkun að undanförnu og þess vegna er ýmis þjónusta í raun og veru í sveitarfélögunum tilbúin til að taka við mun fleiri íbúum. Þess vegna mun fjölgunin sem þessir hlutir munu væntanlega leiða af sér ekki vera svo mjög íþyngjandi fyrir sveitarfélögin heldur í mjög mörgum tilfellum auka nýtingu þeirrar þjónustu og þeirra þjónustubygginga sem fyrir hendi eru.

Einnig hefur verið rætt um að það gæti orðið erfitt að manna þennan vinnustað af þeirri einföldu ástæðu að menn muni ekki vilja vinna þar. Ég hef nefnt örlítið til mótvægis við þau rök en jafnframt er hægt að benda á til viðbótar að skoðanakönnun hefur verið gerð meðal þeirra sem flutt hafa frá Austurlandi og í ljós kemur að það er ótrúlega, ég vil segja ótrúlega, stór hluti þeirra og það í hinum yngri kanti sem mundi hafa áhuga á því að flytja aftur austur og taka til starfa í álveri eða við skylda starfsemi.

Herra forseti. Samfylkingin hefur nýlega lagt fram till. til þál. um hálendisþjóðgarð sem ekki hefur enn komið til umræðu en tengist því frv. sem hér er rætt um órjúfanlegum böndum. Í þeirri till. til þál. er gert ráð fyrir því að þjóðarður verði settur má segja eiginlega vestan, norðan og austan Vatnajökuls. Hugsanlega gæti þetta verið stækkun á Vatnajökulsþjóðgarði en þarna er á óyggjandi hátt sýnt fram á að það er hægt að friða það svæði, friða miklar náttúruminjar og ýmsar náttúruperlur þjóðarinnar, þrátt fyrir að sett verði upp virkjun á svæðinu og þrátt fyrir það er hægt að verja víðerni og þau jafnvel hin stærstu í Evrópu. Það er nákvæmlega þessi nálgun sem er svo mikilvæg þegar fólk skoðar jafnstór mál og þetta, þ.e. að geta skoðað málið frá ýmsum hliðum, vera ekki bundinn eingöngu við eina hugsun heldur skoða ýmsar hliðar málanna. Með þessari tillögu tel ég að verið sé að stíga mjög stórt skref í þá átt að ná sáttum um virkjun við Kárahnjúka og um leið að tryggja framtíð þeirra víðerna sem eru norðan Vatnajökuls. Við höfum sem sagt í Samfylkingunni verið að leita eftir því að finna tengingar á milli friðunarsjónarmiðanna og virkjunarinnar og komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að virkja og vernda. Sú veröld sem við búum í er ekki svo svart/hvít að ekki sé hægt að tengja slíka þætti saman.

[14:00]

Herra forseti. Rétt er að vekja athygli á því að nál. frá meiri hluta iðnn. er með þeim hætti að undir meirihlutaálitið skrifa átta nefndarmenn af níu, þar er því mikill og stór meiri hluti, en hins vegar er minni hlutinn eins smár og hugsast getur. Þar kemur fram mjög sterk yfirlýsing um að menn taka undir hugmyndir um þjóðgarð. Ég vil leyfa mér að lesa tilvitnun í nál., en á bls. 3 segir, með leyfi forseta:

,,Meiri hlutinn telur að frá sjónarhóli jafnt umhverfisverndar sem útivistar sé æskilegt að ósnortin víðerni norðan Vatnajökuls verði lögð undir þjóðgarð. Meiri hlutinn hvetur til að tillögur um það verði teknar til alvarlegrar skoðunar hið fyrsta.``

Segja má að þessi setning sé í fullkomnu samræmi við það sem segir í lokaniðurstöðu fulltrúa Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. en fulltrúar Samfylkingarinnar í þeirri nefnd skila umsögn sem 1. minni hluti efh.- og viðskn. og eftir að fulltrúarnir eru búnir að fara yfir ýmsar hliðar málsins og vekja athygli á bæði kostum, hugsanlegum göllum og mótvægisaðgerðum og öðru slíku, þá segir í lokin, með leyfi forseta:

,,Fulltrúar Samfylkingarinnar vilja taka skýrt fram að þótt arðsemi framkvæmdarinnar sé góð og jákvæð langtímaáhrif hennar á lífskjör þjóðarinnar vegi upp neikvæð skammtímaáhrif sem birtast í vaxtahækkun og afföllum á húsbréfum sé ekki hægt að taka endanlega afstöðu til framkvæmdarinnar fyrr en búið er að skýra afstöðu meiri hlutans í þinginu til verndar svæðanna sem ósnortin verða norðan Vatnajökuls að loknum framkvæmdum.``

Herra forseti. Það er nákvæmlega það sem kemur fram í áliti meiri hluta iðnn. sem tryggir það að Samfylkingin hefur að stærstum hluta til lýst yfir stuðningi við frv. sem hér er til afgreiðslu og verður væntanlega afgreitt héðan fyrr en síðar þó svo eðlilegt sé auðvitað að svo stórt mál fái efnislega og mikla umræðu.

Herra forseti. Það eru náttúrlega ýmsir sem hafa látið sig þetta mál skipta. Það er víðs fjarri að það sé bundið við samtök eða íbúa á Austurlandi. Mjög víða að hafa komið stuðningsyfirlýsingar við málið. Ég vil aðeins nefna ein samtök sem ég tel að skipti afar miklu máli varðandi þetta verkefni en það er Alþýðusamband Íslands. Mjög miklu máli skiptir þegar stærstu launþegasamtök landsins lýsa yfir jafnafdráttarlausum stuðningi við verkefnið og komið hefur fram frá Alþýðusambandinu.

Flestir lífeyrissjóðir landsins hafa einnig verið að skoða þetta mjög jákvætt og telja arðsemina vera trygga af málinu. Við væntum því þess að þegar við höfum samþykkt virkjunarleyfið sem er raunverulega sá hluti sem snýr að þinginu --- það er að sjálfsögðu ekki verkefni Alþingis að vera í samningaviðræðum við fjárfesta um hvort menn vilja reisa álver á Reyðarfirði eða ekki, enda frv. þannig úr garði gert að það er hæstv. iðnrh. sem fær það í hendur hvort eða hvenær ástæða verður til að virkja en er þó takmarkað við þau tíu ár sem um getur.

Herra forseti. Ræða mín hefur í raun orðið örlítið lengri en ég ætlaði og ég mun því sleppa þeim kafla ræðunnar sem var ætlaður fyrst og fremst þeim sem hér hafa verið að tala gegn þessu ágæta máli en ég á á blöðum mínum einstakar tilvitnanir í nokkra hv. þingmenn sem hafa verið að tala gegn því. Ég get þó ekki sleppt einni tilvitnun í hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur sem hélt mér við efnið í nokkrar klukkustundir og það er þó bara ein tilvitnun sem ég ætla að hafa eftir en það er sá hluti ræðunnar sem fjallaði um áhyggjur hennar af Samfylkingunni. Það var afar sérstakur þáttur vegna þess að hv. þm. komst að því að eðlilegra væri fyrir stóran stjórnarandstöðuflokk eins og Samfylkinguna að sitja hjá við mál eins og þetta.

Herra forseti. Ég held að þetta mál sé nefnilega mjög gott dæmi um hvernig flokkar geta unnið misjafnlega í stjórnarandstöðu og það sé raunverulega í svona málum sem skilur á milli hinnar ábyrgu stjórnarandstöðu og þeirra sem vilja sýna minni ábyrgð í stjórnarandstöðu vegna þess að það er að sjálfsögðu hlutverk okkar í stjórnarandstöðu að reyna að gera athugasemdir við það sem meiri hlutinn er að gera og reyna að færa það til betri vegar. Ég held að sú vinna sem Samfylkingin hefur lagt í málið hafi einmitt fært það til betri vegar og ætla ég ekki að hafa langt mál um það en vek enn athygli á þeirri tilvitnun sem ég las úr meirihlutaáliti iðnn. varðandi tengingu þessa máls og hugsanlegs þjóðgarðs norðan Vatnajökuls. Vegna þess að það er líka hluti af því máli að með því að ákveða að stefna að þjóðgarði þarna þegar unnið er að undirbúningi virkjunarinnar og allar þær framkvæmdir sem þar eiga sér stað, þá er mjög mikilvægt að geta nýtt þær áfram og þær munu að sjálfsögðu nýtast að stórum hluta til inn í væntanlegan þjóðgarð og því mikilvægt að sú ákvörðun sé auðvitað tekin sem allra fyrst.

Herra forseti. Rétt undir lokin. Ég tel að þrátt fyrir að ýmsar nýjar upplýsingar sem hafa valdið okkur mörgum vonbrigðum varðandi hlut Norsk Hydro í byggingu álvers við Reyðarfjörð þá eigi það ekki að hafa áhrif á þá vinnu sem á sér stað í þinginu. Málið fær þinglega meðferð. Búið er að leggja mikla vinnu í málið á ýmsum stigum þess og því er eðlilegt að þingið ljúki umfjöllun sinni um málið nú á vordögum og það fái sína afgreiðslu vegna þess að ef eitthvað er af þeirri óvissu sem nú ríkir við byggingu álvers við Reyðarfjörð, ef eitthvað er, þá mun samþykkt frv. styrkja stöðu okkar í því að fá aðila til að reisa álver við Reyðarfjörð sem við að sjálfsögðu vonum að verði fyrr en seinna.