Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 14:11:53 (6811)

2002-04-03 14:11:53# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[14:11]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef greinilega misskilið hv. þm. og bið hann afsökunar á því. Ég tók ekki þátt í þeirri umræðu sem hann var að vitna til um að menn hefðu hlaupið til varnar um það að halda upplýsingum frá nefndum og ég er fyllilega sammála hv. þm. að það eru ekki góð vinnubrögð að halda upplýsingum frá nefndum og ég vona að því verði kippt í liðinn, því fyrr því betra. Ég veit ekki betur til en að ég hafi nokkrum sinnum tekið þátt í að reyna að lagfæra framgöngu framkvæmdarvaldsins gagnvart þinginu.

Það er nákvæmlega á þeim nótum sem ég legg mikla áherslu á að við berum fulla virðingu fyrir málfrelsinu og við þurfum að gera það ef við ætlum að láta taka fullt mark á okkur að gera það líka sjálf en ekki bara gera kröfur til annarra vegna þess að við þurfum auðvitað um leið að horfa örlítið í eigin barm.

Síðan er það þetta undarlega innskot hv. þm. um fjárlagafrv. Ég er hræddur um að hv. þm. verði að skoða betur afgreiðslu fjárlaga síðasta árs ef hugur hans er svo langt frá raunveruleikanum eins og fram kom.