Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 14:16:11 (6815)

2002-04-03 14:16:11# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er að verða býsna skemmtilegt. Ef hv. þm. er að ýja að því að það megi jafnvel stækka þjóðgarðinn enn meira held ég að menn séu opnir fyrir því að skoða það mál.

Hins vegar er afar mikilvægt í þessari tillögu --- reyndar hefur önnur tillaga verið lögð fram samhliða sem gerir ráð fyrir því, sem ég held að sé ekki síður mikilvægt og ég trúi ekki öðru en að hv. þm. sé stuðningsmaður þess --- þ.e. að færa stjórn þjóðgarða í hendur heimamanna. Heimamenn hefðu þar með meira um þessa hluti að segja en verið hefur fram að þessu. Ég veit að hv. þm. er mikill áhugamaður um hvernig skuli fara með völd í Mývatnssveitinni og ég held að þar mætti færa ýmislegt til betri vegar í þeim anda sem við erum hér að leggja til með þessu frv.