Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 14:20:34 (6819)

2002-04-03 14:20:34# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Á þessa röksemd hv. þm. Þuríðar Backman gegn uppbyggingu álvers á Reyðarfirði lít ég sem hluta af þeirri miklu leit sem þingflokkur hv. þm. hefur verið í til að reyna að finna allar hugsanlegar hliðar þess að vera á móti málinu. Þetta er eitt af því sem ég og hv. þm. erum algjörlega ósammála um. Ég tel ekki að mannfjöldinn fyrir austan, þó að fækkað hafi hjá okkur, verði til vandræða vegna þessa álvers. Víðs fjarri.

Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan hefur fækkunin verið slík á Austurlandi að þetta er nú ekki mikið meira en það að fá til baka það sem farið hefur. Infrastrúktúr samfélagsins er þar af leiðandi að stórum hluta til reiðubúinn til að taka við auknum mannfjölda. Ég bætti því einnig við að samkvæmt könnun sem gerð hefur verið er augljóst að það mun ekki skorta áhuga fólks til að flytja til Austurlands til að vinna á þessum vinnustað.