Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 14:21:52 (6820)

2002-04-03 14:21:52# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir ágætt að fá þann grun minn staðfestan hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, þingmanni Austfirðinga, að álverið muni skapa störf og Austfirðingar muni með glöðu geði sinna þeim störfum. Bæði hefur könnun sem Austfirðingar sjálfir hafa staðið fyrir m.a. leitt í ljós að brottfluttir Austfirðingar eru reiðubúnir að flytja aftur ef af slíkum framkvæmdum verður. Það er og staðreynd að tæknivæðing og hagræðing hefur átt sér stað á Austfjörðum og þar er í raun laust vinnuafl sem leitar að vinnu og vantar störf. Það er jú auðvitað ein röksemdin fyrir þessum miklu framkvæmdum sem grípa á til.

Ég vil hins vegar fagna því að heyra þessa rödd frá Austfjörðum sem hrekur í raun þá fullyrðingu sem kom hér fram hjá hv. þm. Vinstri grænna að ekki væru nægar vinnandi hendur til staðar á Austfjörðum. Ég þakka fyrir það svar.