Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 14:25:30 (6822)

2002-04-03 14:25:30# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[14:25]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er alveg rétt að margt mun raskast ef við ráðumst í þessa stærstu áhættufjárfestingu á Íslandi fyrr og síðar. Að sjálfsögðu mun það hafa áhrif á launin þegar farið verður að flytja inn það sem menn kalla ,,ódýrt vinnuafl`` til að taka þátt í þessari fyrirhuguðu framkvæmd sem þó er líklegt að ekki verði af, eins og málum er nú komið. Auðvitað mun það einnig hafa áhrif á aðra atvinnustarfsemi í landinu ef farið verður að fjárfesta á þann hátt sem ríkisstjórnin hefur viljað. Í því sambandi hefur verið talað um ruðningsaðgerðir eða ruðningsáhrif. Menn hafa gert því skóna að viðkvæmur atvinnurekstur, sérstaklega ung fyrirtæki, svokölluð sprotafyrirtæki, muni fyrst verða fyrir barðinu á slíkum áhrifum. En að sjálfsögðu mundi það hafa áhrif á allar fjárfestingar í landinu, ekki síst hins opinbera, ef ná á fram efnahagslegum markmiðum um lága verðbólgu meðan á þessum framkvæmdum stendur. Það mun af sjálfu sér leiða til þess að hið opinbera verður að draga úr fjárfestingum sínum.

En, herra forseti, ég vildi byrja á að vekja athygli á þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin í þessu máli og lýtur að trúverðugleika, ekki aðeins ríkisstjórnarinnar heldur einnig Alþingis. Það hefur komið fram að Alþingi og nefndir á vegum Alþingis hafa verið blekktar í þessu máli. Upplýsingum hefur verið haldið frá þingnefndum, þar á meðal efh.- og viðskn. þingsins þar sem ég á sæti. Sú nefnd kom saman 28. febr. sl. til að fjalla sérstaklega um þetta verkefni, bæði um virkjunina og álverið. Þá var vitað að tímasetningar sem menn studdust við, um ákvarðanir af hálfu Norsk Hydro, mundu ekki standast. Þessar upplýsingar voru hins vegar ekki kynntar nefndinni þótt þær hefðu verið á vitorði ekki aðeins samningsmanna heldur einnig stjórnvalda.

Hæstv. viðskrh. skýrði frá því í morgunfréttum Ríkisútvarpsins í gær að hún hefði lifað í voninni, eins og hún komst að orði. Hún kvaðst hafa lifað í voninni um að þessar fréttir væru ekki á rökum reistar og af þeim sökum taldi hún ekki rétt að upplýsa efh.- og viðskn. Alþingis um stöðu mála. Þess vegna, herra forseti, vöktum við máls á því hér í morgun að forsn. Alþingis kæmi saman til að fara ekki aðeins yfir stöðu þessa máls heldur afstöðu ríkisstjórnarinnar og ráðherra, hæstv. efh.- og viðskrh., sem leyfir sér að halda mikilvægum upplýsingum í þessu máli frá Alþingi. Þetta mál kemur að sjálfsögðu okkur öllum við sem hér sitjum og þjóðinni allri. Í hennar umboði störfum við.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum alla tíð lagt áherslu á að allar upplýsingar sem lúta að þessu máli verði gerðar opinberar. M.a. af þeim sökum lögðum við fram fyrirspurn hér í þinginu þar sem við spurðum sérstaklega um raforkuverðið. Þetta gerðum við eftir að í ljós kom að iðnn. þingsins, sem var upplýst um stöðuna í samningamálum, fékk þau skilaboð í leiðinni að henni bæri að þegja um það sem hún yrði áskynja og ef menn sem sæti eiga í iðnn. voguðu sér að upplýsa samflokksmenn sína hér á þingi um málið þá skyldi einnig sett á þá haft. Það var ekki talið leyfilegt að ræða þessi mál.

Í kjölfarið ákváðum við að setja eftirfarandi spurningar fram hér í þinginu. Ég ætla að lesa þær upp, með leyfi forseta:

,,1. Hvert verður samningsbundið upphafsverð á raforku frá Kárahnjúkavirkjun til Reyðaráls ef af framkvæmdum verður?

2. Hvert verður áætlað meðalverð á raforku á samningstímanum og á hvaða forsendum er það mat byggt hvað varðar þróun álverðs og aðra þætti sem máli skipta?``

Hver eru rökin að baki því að setja þessar spurningar fram? Landsvirkjun er opinbert fyrirtæki. Það er sameignarfyrirtæki ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarkaupstaðar. Fyrirtækið er ráðandi í orkuframleiðslu í landinu. Það nýtur víðtækra réttinda og hefur skyldur á móti. Meðal þessara skyldna er að afla og selja raforku til almennra notenda og einstakra stórkaupenda eftir þörfum.

[14:30]

Í 13. gr. laga um Landsvirkjun segir:

,,Sama gjaldskrá skal gilda um afhendingu rafmagns til almenningsrafveitna á afhendingarstöðum Landsvirkjunar.``

Síðar í sömu grein segir:

,,Til orkusölusamninga til langs tíma, við iðjuver sem nota meira en 100 millj. kwst. á ári, þarf Landsvirkjun leyfi ráðherra þess er fer með orkumál. Slíkir samningar mega ekki að dómi ráðherra valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið.``

Í þessu felst að fyrirtækið er skuldbundið til að selja orku á sama verði til almenningsrafveitna, og samningar um orkusölu til stóriðju mega ekki verða til þess að orkuverð til almennings verði hærra en annars hefði orðið. Slíkt væri einfaldlega lögbrot.

Með vísan til þess sem að ofan er rakið er ljóst að það varðar mikilvæga almannahagsmuni að allar upplýsingar um orkuverð til stórkaupenda liggi fyrir. Ekki síst gildir það ef ráðast á í gríðarlegar fjárfestingar til að afla orku til nýrra kaupenda og það er gert án þess að stofna um það sérstakt fyrirtæki. Þá stendur Landsvirkjun fyrir fjárfestingum og leggur allar eignir sínar og framtíðarmöguleika að veði, þar með taldar væntanlegar tekjur sínar af sölu til almennra notenda.

Það er því vel rökstudd og afdráttarlaus krafa að allar slíkar upplýsingar verði lagðar á borðið.

Í þessu sambandi er einnig áhugaverður úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 8. febr. sl. Þar er réttur almennings til upplýsinga talinn svo sterkur að hann beri að virða jafnvel þó að einhverjir viðskiptahagsmunir tapist og því er einnig hafnað að upplýsingum sé leynt fyrir almenningi vegna þess að fyrirtækjum hafi verið heitið trúnaði.

Að lokum er rétt að minna á stjórnarskrárvarinn og lögvarinn rétt alþingismanna til að krefja ráðherra svara, afla upplýsinga um mikilvæg mál o.s.frv. Þessi réttur er sjálfstæður, helgaður langri og sterkri hefð og takmarkast ekki af hinum almennu ákvæðum upplýsingalaga heldur er hann ríkari og ekki háður sömu takmörkunum og upplýsingalög geyma. Með því að afla og koma á framfæri upplýsingum um mikilsverð mál gera þingmenn allt í senn, að sinna skyldum sínum um að veita stjórnvöldum aðhald, afla sér gagna og þekkingar til að taka upplýsta afstöðu til mála og stuðla að því eftir atvikum að almenningur í landinu fái aðgang að upplýsingum sem máli skipta fyrir almannahagsmuni. Vísast í þessu sambandi til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 46. og 50. gr. þingskapalaga.

Þess er því krafist að umbeðnar upplýsingar um orkuverð frá fyrirhugaðri Kárahnjúkavirkjun verði veittar sem svar við fyrirspurn þessari.

Herra forseti. Ég mun ekki halda áfram ræðu minni nema hér verði viðstaddur hæstv. viðskrh. og mér finnst líka eðlilegt að hér verði formaður iðnn. viðstaddur umræðuna. Mér hefði fundist æskilegt líka þar sem við erum að fjalla um efnahagslegar forsendur þessara mála að einhverjir sem sæti eiga í efh.- og viðskn. þingsins létu svo lítið að vera viðstaddir þessa umræðu.

(Forseti (GÁS): Forseti mun freista þess að fá umbeðna aðila til fundarins.)

Hér gengur hæstv. iðn.- og viðskrh. í salinn en hún sagði í sjónvarpsþætti ekki alls fyrir löngu að hún nennti varla að taka þátt í umræðu um efnahagslegar forsendur þessa máls, og átti hún þá í viðræðu við þann sem hér stendur. Þetta kann að vera skoðun sem hún hefur innra með sér en mér finnst að iðn.- og viðskrh. landsins eigi að láta svo lítið að vera viðstaddur umræðu um þetta stærsta fjárfestingarmál sem nokkru sinni hefur komið á borð Alþingis og er á ábyrgð ráðherra.

Annað sem hæstv. ráðherra hefur látið frá sér fara kom í andsvari fyrir fáeinum mínútum þar sem ráðherrann talaði um það hvernig menn notuðu sér málfrelsið í þessum stól og ýjaði þá að því að þeir sem hér hafa talað úr röðum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs séu að misnota þetta frelsi.

Ég vil leggja á það áherslu að þeir sem hafa talað hér í þessu máli, sumir í löngu máli, hafa verið mjög málefnalegir og verið með ítarlega rökstudd sjónarmið. Og það ætla ég, herra forseti, að reyna að gera líka. Ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um það að í máli mínu til þessa hef ég reynt að rökstyðja hvers vegna við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði teljum eðlilegt að Alþingi og þjóðin séu upplýst um raforkuverðið. Ég var að vekja athygli á spurningum sem við lögðum fyrir þingið og rökunum sem þar búa að baki.

Svarið sem við fengum er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Í gildi er trúnaðarsamningur milli Landsvirkjunar og Reyðaráls hf. sem kemur í veg fyrir að hægt sé að gefa orkuverðið í raforkusamningi þeirra upp opinberlega. Enn fremur ber að hafa í huga að Landsvirkjun hefur gert samninga við önnur stóriðjufyrirtæki með þeim skilmálum að verð sé ekki gefið upp og hefur stjórn fyrirtækisins samþykkt að fara með það sem trúnaðarmál.

Stjórn Landsvirkjunar staðfestir alla orkusamninga fyrirtækisins við stóriðjufyrirtæki og iðnaðarnefnd Alþingis hefur fengið trúnaðarupplýsingar um orkuverð til stóriðju í tengslum við afgreiðslu þingmála, sem snerta slíka samninga.

Landsvirkjun telur sér ekki fært að birta opinberlega áætlanir um meðalverð á raforku á samningstímanum. Umsamið meðalverð á raforku til Reyðaráls hf. verður tengt heimsmarkaðsverði á áli. Til þess að meta þróun álverðs á samningstímanum hefur Landsvirkjun leitað til erlendra sérfræðinga á því sviði, m.a. til James F. Kings, sem er sjálfstæður ráðgjafi í Bretlandi, og Robins Adams hjá Re\-source Strategies Inc. í Bandaríkjunum. Þeir gera báðir ráð fyrir lækkandi heimsmarkaðsverði á áli á samningstímanum vegna framleiðniaukningar í greininni. Landsvirkjun hefur tekið fullt tillit til þessa í mati sínu á tekjum af Kárahnjúkaverkefninu.``

Þannig er svarið sem við fáum, mjög ófullnægjandi reyndar. Ef verið er að vísa í þessa sérfræðinga á annað borð hefðu menn átt að gera það betur og í ítarlegra máli því að margt mjög athyglisvert kom fram í máli þeirra sem ekki hefur ratað inn í skjöl meiri hlutans á Alþingi. Ég mun koma að því öllu síðar. En með öðrum orðum er í gildi trúnaðarsamningur milli Landsvirkjunar og Reyðaráls hf., og Landsvirkjun þóknast ekki að upplýsa Alþingi um staðreyndir sem óskað er eftir. Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar og á hennar ábyrgð, í eigu ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar og við eigum kröfu á þessum upplýsingum. Og ég spyr, herra forseti: Hvern er verið að leyna þessum upplýsingum? Samkeppnisaðila?

Ég skal svara þessari spurningu. Það er verið að leyna einn aðila þessum upplýsingum, íslensku þjóðina. Hún er eini aðilinn sem má ekki vita staðreyndir málsins. Og Alþingi, sem á að taka hér ákvarðanir, grundaðar á efnahagslegum forsendum, þar á meðal raforkuverðinu, fær ekki upplýsingar um málið nema menn séu bundnir trúnaði og ef þeir vilja leita til sérfræðinga verða þeir að binda þá enn og aftur trúnaði. Með öðrum orðum, það getur ekki farið fram upplýst, opinber umræða um þetta stærsta fjárfestingarmál í sögu íslensku þjóðarinnar. Er þetta boðlegt?

Að sjálfsögðu er þetta ekki boðlegt. En maður sér á hve frumstæðu stigi þessi umræða er þegar liðsmenn stjórnarmeirihlutans á Alþingi stíga í pontu, m.a. í morgun, og upplýsa okkur um þá skoðun sína að virkjunin við Kárahnjúka sé stórkostlega arðsöm framkvæmd þegar á sama tíma hefur verið upplýst að enginn kaupandi orkunnar er í sjónmáli, hvað þá að gerður hafi verið samningur um raforkuverð. Og ef hann er ekki til, hvernig í ósköpunum er þá hægt að koma með svona fullyrðingar?

Á hverju byggjast þær staðhæfingar að það sé mikil arðsemi af þessari framkvæmd, framkvæmd sem byggir ekki á neinum forsendum öðrum en hugarórum um fjárfestingar í skýjunum, pólitískum draumum? Þetta eru vinnubrögð, herra forseti, sem á engan hátt eru boðleg.

Stundum hefur verið um það rætt að málflutningur okkar í þessu máli sé rauður og grænn og menn hafa viljað gera því skóna að upp á síðkastið sé hann orðinn rauðari en grænn. Svo menn velkist ekki í vafa um afstöðu okkar er hún sú að við sem tölum á Alþingi fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs erum fullkomlega samstiga í þessu máli. Við teljum óásættanlegt að ráðast í þessa stórvirkjun við Kárahnjúka á þeirri forsendu að hún hefur í för með sér óafturkræf náttúruspjöll. Það eru umhverfissjónarmið sem hér ráða för. Reyndar viðurkenna allir, einnig stjórnarliðar, að þessi framkvæmd mundi valda miklum náttúruspjöllum. En nú skiptast leiðir, annars vegar eru þeir sem telja með öllu óásættanlegt að virkja, og við erum í þeim hópi, og síðan hinir sem viðurkenna náttúruspjöllin en segja: Hinn efnahagslegi ávinningur er svo mikill að við hljótum að virkja og reisa álverksmiðju á Reyðarfirði vegna þess að efnahagslegu rökin koma til með að vega svo þungt. Og þá segjum við: Gott og vel. Ræðum þá þessi efnahagslegu rök og þessar efnahagslegu forsendur. Þegar hér var komið sögu sagði hæstv. ráðherrann: Ég nenni eiginlega ekki að ræða þessar efnahagslegu forsendur.

Efnahagslegu forsendurnar voru samt einmitt viðfangsefni efh.- og viðskn. um mánaðamótin febrúar/mars, og þá var mikilvægum upplýsingum haldið frá okkur vegna þess að hæstv. ráðherra kvaðst enn hafa lifað í voninni og þess vegna ættu nýjar upplýsingar í málinu ekki erindi inn í nefndina. Þetta var upplýst í Ríkisútvarpinu.

Er þetta boðlegt? Auðvitað er þetta ekki boðlegt. Og auðvitað er ekki boðlegt að þegar menn vilja í alvöru ræða efnahagslegar forsendur málsins fái þeir ekki upplýsingar um raforkuverðið. Mönnum er bent á að þeir geti getið sér til um það. Með því að reyna að ráða í upplýsingar sem birtast á heimasíðu Landsvirkjunar megi komast að raun um að það sé einhvers staðar á bilinu 18--20 mill. En ég veit alveg af hverju ekki má upplýsa þetta. Það er vegna þess að ef þetta er raforkuverðið stenst virkjunin ekki þær arðsemiskröfur sem gumað er af. Raforkuverðið þyrfti að vera 25--30 mill til að svo væri. Og þetta er ástæðan fyrir því að þessar upplýsingar þola ekki dagsljósið gagnvart þjóðinni. Allir aðrir kunna að sjálfsögðu að lesa í spilin.

[14:45]

Halda menn að þegar Finnur Ingólfsson seðlabankastjóri fer núna um heiminn í heimsókn til stærstu álfyrirtækja veraldarinnar að hann muni ekki upplýsa um hugsanlegar samningsforsendur? Að sjálfsögðu. Það er þjóðin sem ekki má þekkja hið sanna í málinu. Þetta er staðreynd. Vel á minnst, herra forseti, Finnur Ingólfsson seðlabankastjóri, fyrrv. hæstv. iðnrh. og framsóknarmaður, við skulum ekki gleyma því, það er pólitík í þessu líka. Það er nefnilega meiri pólitík í þessu máli en flesta grunar. Og hver halda menn að sé samningsstaða Íslands þegar pólitísk sjónarmið ráða för? Ekki arðsemiskröfur, ekki hve vænlegur kostur þetta er fyrir íslenska þjóð heldur fyrst og síðast pólitísk markmið, pólitísk markmið framsóknarmanna á Austurlandi að standa við gefin loforð fyrir fáeinum missirum eða árum. Það er þetta sem ræður förinni. Þess vegna nenna þeir ekki að ræða um efnahagsforsendur, hinar leiðinlegu efnahagslegu forsendur málsins. Ræðum bara pólitík.

Eruð þið ekki á móti öllu? segja menn svo. Hvaða tillögur hafið þið? Við höfum nefnilega tillögur og höfum lagt þær fram. Við höfum aftur og ítrekað lagt þær fram. Það er svolítið hlálegt, herra forseti, hver umsnúningur hefur á marga lund orðið í pólitíkinni þegar litið er til undangenginna áratuga. Sú var tíðin að vinstri menn voru talsmenn mikilla ríkisfjárfestinga og þeir sem harðast og lengst gengu í því efni stofnuðu til sósíalískra ríkja þar sem allt átti að vera í ríkisforsjá, atvinnureksturinn allur undir handarjaðri ríkisins. Sú var tíðin.

Nú er umsnúningurinn sá að þeir sem kenna sig við hægri stefnu og hægri miðjustefnu eða hægri hægrimiðjustefnu, svo maður vísi nú til Framsfl., eru orðnir helstu talsmenn ríkisforsjár yfir öllu. Þeir ætla að leysa atvinnumál á Austurlandi með því að reisa þar eina verksmiðju, setja alla inn í eina verksmiðju eða að þjónusta hana. Það er það sem vakir fyrir þeim.

Hvað er það sem við höfum lagt til? Við höfum sagt: Það er hlutverk hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, að sjá samfélaginu fyrir grundvallarþjónustu, stoðþjónustu, velferðarþjónustu, skólum, sjúkrahúsum, góðu vegakerfi, samgöngum og þar fram eftir götunum. Og að sjá atvinnulífinu fyrir hagstæðum skilyrðum fyrst og fremst í aðgangi að ódýru fjármagni, fjármagni til að byggja upp starfsemi sína. Þetta er það sem við leggjum til. Síðan ætlum við hinum frjálsa markaði einhvern hlut.

Ríkisstjórnin fer hins vegar alveg öfuga leið að þessu máli. Hún brýtur og bramlar allt í stoðþjónustunni, hún dregur úr velferðarþjónustunni, grefur undan henni, rífur gat á öryggisnetin sem við höfum verið að koma okkur upp á undangengnum áratugum í uppbyggingu velferðarþjóðfélags, lokar útibúum Póstsins og Símans, einkavæðir bankana og hrekur þá frá fámennum byggðarlögum, dregur úr framlagi til samfélagslegra þátta. En síðan kemur hún með eina stóra álverksmiðju og þeir sem eru andvígir henni eða hafa eitthvað við þetta að athuga eru spurðir: Nú, hvað viljið þið þá? Jú, það er þetta sem við viljum. Þetta teljum við vera hlutverk ríkisins og sveitarfélaganna, að sjá fyrir grunnnetinu, sjá atvinnulífinu fyrir hagstæðum skilyrðum, aðgangi að auðveldu, ódýru fjármagni til þess síðan að koma rekstri á laggirnar og geta rekið blómleg fyrirtæki. Þetta er stefna okkar.

Síðan höfum við að sjálfsögðu verið með tillögur um stuðning við margvíslegan atvinnurekstur, skipaiðnað, ferðaiðnað, sjávarútveg, margvíslega framleiðslu sem honum tengist og hefur blómstrað. En ríkisstjórnin hins vegar læsir sig í gamalli stalínískri aðferðafræði um eina stóra traktorsverksmiðju í hvern fjörð. Þetta er hugmyndafræðin sem hún byggir á og hún er ekki mjög skynsamleg, afskaplega langt frá því. Þannig hefur Austfirðingum verið haldið í gíslingu í langan tíma og mönnum talin trú um að þetta sé nú allt að koma, það sé landsýn, land sé í sjónmáli, án þess að nokkur fótur sé fyrir slíku. Þetta eru staðreyndir málsins.

Það er einnig staðreynd málsins að á Íslandi eigum við að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi og við eigum ekkert að gera sem grefur undan smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem hér eru starfandi. Það er þetta sem ég legg alla vega eyrun við þegar hagfræðingar og kunnáttufólk sem þekkir til efnahagsmála hefur varað við því að ráðist verði í risaframkvæmd af því tagi sem hér er til umræðu einmitt með tilliti til smárra og meðalstórra fyrirtækja, sprotafyrirtækjanna sem yrði rutt út í kantinn.

Margar ástæður eru fyrir því, herra forseti, að fullt tilefni er til þess að taka málið af dagskrá. Ekki vegna þess að forsendur séu breyttar eða brostnar heldur vegna þess að forsendur voru aldrei til staðar. Ég leyfi mér að viðra þá hugsun og beina þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. hvað það sé sem Norðmenn hafi svikið. Látið er að því liggja að Norsk Hydro hafi svikið okkur. Hvað sviku þeir? Hvaða samkomulag hefur verið svikið? Hefur verið gert eitthvert skriflegt eða munnlegt samkomulag við Norsk Hydro sem hefur verið svikið? Hvaða samkomulag er það?

Talað hefur verið um tímasetningar, talað hefur verið um 2. febrúar og 2. september, talað hefur verið um tímasetningar, um að þær væru frávíkjanlegar líka. En hvað er það sem hefur verið svikið, þ.e. annað en íslenska þjóðin, því að hún hefur verið svikin? Hún hefur verið svikin um upplýsingar.

Annars er þetta ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist hér á landi. Við þekkjum öll Keilisnes og umræðuna sem fram fór um álver á Keilisnesi 1990. Það hefur aldrei verið skýrt fyrir þjóðinni hvað þá gerðist. Við munum öll þegar Atlantal-hópurinn hvarf héðan af vettvangi. Hvers vegna? Hvað var okkur sagt? Okkur var sagt að á þeim tíma flæddi svo mikið ódýrt ál frá Austur-Evrópu um heiminn að álverð hefði farið stórlega lækkandi og það væri ekki vænlegur kostur nú um stundir að ráðast í að reisa álver á Keilisnesi, en þetta mundi allt breytast á næstu mánuðum, missirum, í allra versta falli næstu einu, tveimur árum. Þau eru orðin þrettán, tólf eða þrettán. Ekkert hefur bólað á þessum Atlantal-hóp síðan. Og það sem verra er, þjóðin hefur aldrei verið upplýst um hvað gerðist. Hvað var það sem þá gerðist?

Í tengslum við ráðagerð ríkisstjórnarinnar núna hafa svo sannarlega vaknað upp ýmsar spurningar um trúverðugleika, þar á meðal trúverðugleika helstu ráðgjafa ríkisstjórnarinnar, ágætisfólk, ágætiseinstaklingar, en okkur ber að meta hversu trúverðugir þeir eru þegar þeir gerast ráðgjafar íslensku þjóðarinnar um slíka risaframkvæmd.

Þegar þetta mál kom til 1. umr. þá vitnaði ég og fleiri í álitsgerð orkumálastjóra. Hann sagði að þetta væri alveg sérlega vönduð smíð, þær forsendur sem ríkisstjórnin byggði á, alveg sérstaklega vandaðar. Að vísu hefðu þeir ekki skoðað sjálfa útreikningana frá Landsvirkjun, en þetta væri alveg sérstaklega vandað --- án þess að skoða forsendurnar, forsendur útreikninganna.

Fyrst ég er farinn að vitna í þann ágæta mann, Þorkel Helgason, þá fjallaði hann um Fljótsdalsvirkjun sem þá var á borðinu, í Morgunblaðinu 26. nóv. 1999. ,,Fljótsdalsvirkjun: Er annarra kosta völ?`` var spurt í fyrirsögn. Og hvað var hann þar að fjalla um meðal annars? Hann fjallaði um flutning á orku yfir hálendið og hann vísaði m.a. í þessi fornu áform frá Keilisnesi, því að við skulum ekki gleyma því hvaðan orkan átti að koma. Hún átti að koma úr Fljótsdalsvirkjun. Það átti að fara með orkuna á Keilisnes yfir gervallt hálendið og eftir Reykjanesfjallagarðinum út í Keilisnes. Hvað segir Þorkell Helgason um þetta? Hann segir í þessari umræddu blaðagrein, með leyfi forseta:

,,Flutningur orkunnar yfir hálendið yrði aftur á móti afar dýr.`` --- Kostnaður yrði allt að því jafnmikill og byggingarkostnaður sjálfrar Fljótsdalsvirkjunar. --- ,,Þessi kostur er því heldur ekki raunhæfur.``

Þetta eru sömu menn og voru að ráðleggja okkur um að reisa álver í Keilisnesi með orku frá Fljótsdalsvirkjun yfir allt hálendið. Nú er þetta kostur sem er ekki raunhæfur.

Kemur aldrei að því að gera eigi þetta mál upp gagnvart þjóðinni og skýra okkur frá hvað raunverulega gerðist í því máli? Fáum við bara eftirmæli í síðbúnum blaðagreinum?

Vert er að veita því athygli að í þeirri grein sem er skrifuð í árslok 1999 --- og á eftir árinu 1999 kemur árið 2000, þannig að það er nú ekkert mjög langt síðan --- er verið að vísa í 120 þúsund tonna álver.

Hvað eru menn að tala um núna? Eftir því sem ég les mér til um þá kemst ég að raun um að öllum helstu sérfræðingum á þessu sviði ber saman um að það sé algjörlega óraunhæfur kostur að reisa nýtt álver, og ég legg áherslu á nýtt álver, ekki stækkun álvers, ekki gamalt álver sem er flutt af einum stað á annan. Það er algjörlega óraunhæft, segja menn, að reisa nýtt álver sem er minna en 250--300 þúsund tonn.

[15:00]

Ég vísa í aðra grein Morgunblaðsins, þó hæstv. viðsk.- og iðnrh. hafi fundist það afskaplega undarlegt fyrr í dag að ég skyldi treysta á fréttaflutning úr Morgunblaðinu. Ég veit ekki hvaðan hæstv. ráðherra hefur þá hugsun. Það er alveg rétt, að ég hef verið ósammála Morgunblaðinu í gegnum tíðina, haft aðra pólitíska afstöðu. En á vegum Morgunblaðsins hefur verið starfandi og er starfandi fjöldi vandvirkra fréttamana sem umhugað er að leiða hið rétta í ljós. Ég skil vel að hæstv. ráðherra sé argur út í Morgunblaðið þessa dagana vegna þess að það var Morgunblaðið en ekki hæstv. ráðherra sem upplýsti þjóð og þing um stöðu mála um miðjan marsmánuð. Það var Morgunblaðið. Morgunblaðið hefur verið með vandaða umfjöllun um þessi mál, það er staðreynd. Ég hefði gjarnan kosið að Morgunblaðið hefði fjallað meira og dýpra um þessi mál en þar hefur margt ágætt komið fram.

Mig langar til að vitna hér í Morgunblaðsgrein frá 28. mars. sl., þar sem segir m.a, með leyfi forseta:

,,Áætlanir gera ráð fyrir að í fyrsta áfanga verði byggt álver í Reyðarfirði með 260 þúsund tonna framleiðslugetu með möguleika á stækkun í 420 þúsund tonn. Þróunin undanfarin ár hefur verið sú að álver hafa verið að stækka verulega, enda eykst hagkvæmni framleiðslunnar við það. Talið er að álver megi ekki vera minni en 250--300 þúsund tonn til að þessi stærðarhagkvæmni náist fram, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.``

Nú er það orðið svona að lágmarksstærð til að reisa nýtt álver, það er af þessari stærðargráðu.

Á sviði álframleiðslu eiga sér nú stað breytingar sem ég mun koma að síðar í máli mínu. Sýnt er að stjórnvöldum mátti vera ljóst fyrir löngu að kröfur um stærðarhagkvæmni voru þegar talsverðar fyrir nokkrum árum. En íslensk stjórnvöld hafa hins vegar haldið sig við allt aðra hugsun. Það á að reisa álver hvað sem það kostar, hvort sem það er 120, 200, 300, 420 eða 460 eða 700 þús. tonn. Einhvern tíma talaði hæstv. utanrrh. um 700 þús. tonna álver. Er það vegna þess að hann telur það sérstaklega þjóðhagslega hagkvæmt að reisa álver sem framleiði 700 þús. tonn? Halda menn að það sé þess vegna? Nei, það held ég ekki.

Hæstv. utanrrh. sagði t.d. í sjóvarpsþætti árið 2000, 9. apríl var það, í sjónvarpsþættinum Silfur Egils, að það væri að sínu mati þjóðhagslega hagkvæmast að fara í 120 þús. tonna álver, hagkvæmara að fara í 120 þús. tonna álver en 240 þús. tonna álver. Það er gott fyrir þjóðina.

Hitt er náttúrlega miklu betra ef við þurfum að fara í 700 þús. eða 400 þús. eða 300 þús., þá er það miklu betra til að ná fram markmiðum Framsóknarflokksins á Austurlandi. Skítt með þjóðarhag, hagsmuni þjóðarinnar. Geta stjórnmálamenn leyft sér að hugsa svona um stundarhagsmuni, hvað kemur sér vel fyrir einn stjórnmálaflokk næstu missirin og árin meðan tilteknir stjórnmálamenn eru við völd og gefa minna fyrir það sem kemur í kjölfarið? Að sjálfsögðu á að hugsa um þjóðarhag og hafa langtímahagsmuni þjóðarinnar í huga.

Maður veltir því fyrir sér þegar það kemur svona skýrt fram að pólitísk sjónarmið en ekki þjóðhagsleg ráða ferðinni og ekki arðsemisrök, þá vakna spurningar um hvað hefur gerst, um hin pólitísku hrossakaup sem hér hafa greinilega átt sér stað. Við skulum styðja einkavæðingu bankanna og Símans og þið hjálpið okkur með Kárahnjúkana og álið. Er það ekki svona? Ég bara spyr. Er þetta fjarri lagi? Eða nennir hæstv. ráðherra kannski ekki að ræða hina pólitísku þætti málsins á sama hátt og hún hafði ekki nennu til að ræða efnahagslegar forsendur þessarar mestu fjárfestingar Íslandssögunnar?

Fyrst í stað var látið að því liggja að þetta væri samstarfsverkefni, virkjun og álver, frá upphafi til enda. Það hefur alltaf verið sagt að álver og virkjun væru eitt og það er alveg rétt, þetta væri í fyrsta sinn sem virkjað væri á Íslandi fyrir einn kaupanda.

En það var gengið lengra. Menn sögðu að róið væri að því að fá erlenda fjárfesta --- og það var Norsk Hydro --- til að taka þátt í kostnaðinum við sjálft orkuverið. Um það var rætt og það kom líka fram í ársskýrslu Landsvirkjunar.

Það kom fram t.d. 1997, þar segir, með leyfi forseta:

,,Stjórn Landsvirkjunar samþykkti í maí að taka þátt í könnun ásamt iðnrn., markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar og Hydro Aluminum, Noregi, á þeim möguleika að byggja hér á landi álver þar sem gert er ráð fyrir samtengdri verkefnafjármögnun álvers og virkjana. Er búist við að þeirri könnun ljúki 1998.``

Síðan segir, sem er nú svolítið skondið, með leyfi forseta:

,,Áfram hefur verið haldið sambandi við Atlantsálshópinn vegna álvers í Keilisnesi.`` --- Þetta er 1997.

Síðan kemur önnur skýrsla, eins og lög gera ráð fyrir, árið 1998. Hvað segir þá um þetta samstarfsverkefni?

Það segir, með leyfi forseta:

,,Landsvirkjun tók þátt í viðræðum stjórnvalda og heimamanna við norska fyrirtækið Hydro Aluminium um hugsanlega byggingu álvers á Reyðarfirði með 120 þúsund tonna framleiðslugetu í fyrsta áfanga og hugsanlegum áfanga með 240 þúsund tonna framleiðslugetu síðar. Fyrirtækið átti samstarf við Hydro vegna hagkvæmniathugana á þessu verkefni.``

Nokkru síðar segir, með leyfi forseta:

,,Áfram var haft samráð við þá aðila sem sinnt hafa rannsóknum undanfarin ár á mögulegum útflutningi á rafmagni um sæstreng til annarra landa.``

Með öðrum orðum var á þessum tíma, árið 1997, verið að tala um þessa samtengingu í fjármögnun orkuversins og álversins. Árið eftir er þetta gufað upp. Menn eru enn að spjalla við Atlantsál-hópinn og nú er farið að tala um að flytja orkuna út um sæstreng.

Það er á þessum tíma sem menn fara að hafa verulegar áhyggjur af Landsvirkjun, þ.e. þegar þessar yfirlýsingar byrja allar. Getur verið að Landsvirkjun, spyrja menn, sé svo óábyrg að hún ætli að keyra áfram virkjunaráformin án tillits til þess hvort hægt verði að selja orkuna, án þess að kaupandi sé fyrir hendi? Menn fara að skoða hvaða fjárfestingar eru þegar komnar til sögunnar. Væri hægt að fá upplýsingar um það frá hæstv. iðn.- og viðskrh. þegar hún stígur hér í ræðustól síðar í dag hve miklu fjármagni hefur þegar verið varið til undirbúnings virkjana á Austurlandi? Einhvern tíma var talað um 3--4 milljarða. Þegar það er fært upp til verðlags ársins í ár erum við að tala um 8--9 milljarða. Ég spyr: Hvaða tölur styðjast menn við?

Frá Landsvirkjun fáum við enn þær upplýsingar að að sjálfsögðu verði ekkert gert fyrr en ákvarðanir hafi verið teknar. En ég minnist þess þegar við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, fórum í haust á þessar slóðir, og ekki í fyrsta sinn. Við gengum þar yfir svæðið sem kæmi til með að fara undir vatn ef virkjað yrði við Kárahnjúka. Við sáum þar vinnuvélar Landsvirkjunar að verki, við rannsóknastörf átti það að heita. Þegar við komum til byggða voru komin út blöð með stórum auglýsingum frá Landsvirkjun þar sem auglýst var útboð í jarðgöng. Allt án þess að nokkuð væri í hendi. (KPál: Er ekki allt í lagi að kanna málin?)

Þarna er gengið miklu lengra en að kanna málin. Þarna voru vinnuvélar að verki. Það hefur þegar verið ráðist í vegagerð sem tengist þessum framkvæmdum. Að sjálfsögðu á að byrja á því að gera samninga um orkusölu, sé á annað borð ráðist í svona framkvæmd. Hver heldur hv. þm. Kristján Pálsson að sé núna samningsstaða Íslendinga þegar Finnur Ingólfsson verður gerður út af örkinni ásamt aðstoðarmönnum til að grátbiðja erlend stórfyrirtæki að koma hingað til lands og reisa álverksmiðju? Hver halda menn að samningsstaða okkar sé?

Ég spyr líka: Er eðlilegt að Finnur Ingólfsson seðlabankastjóri hafi þetta verkefni með höndum, eða var ekki verið að breyta seðlabankalögum hér nýlega? Var ekki kveðið á um það í þeim lögum að Seðlabankinn skyldi hafa nýju hlutverki að gegna, skyldi sinna verðbólgumarkmiðum og huga að vöxtum? Það er einmitt Seðlabankinn sem hefur verið að vara okkur við því að þessi ráðagerð kæmi til með að hækka vaxtastigið um 2,5% í upphafi, örva verðbólguna. Sami Seðlabanki og kemur inn á gafl til okkar hér í Alþingi með þessi varnaðarorð ætlar um leið að gera út mann sem leggst á hnén frammi fyrir álrisum þessa heims og grátbiður um að koma til Íslands. (KPál : Er þetta ekki dálítið langsótt?) Langsótt? Nei, þetta er bara staðreynd málsins.

Hvers konar samningsstöðu halda menn að þjóðin hafi þegar svona er komið? Fyrir utan það tel ég mjög misráðið að seðlabankastjóri skuli taka að sér þetta verkefni þótt honum renni eflaust blóðið til skyldunnar þar sem hagsmunir Framsfl. eru í húfi. Þetta er nefnilega fyrst og fremst pólitískt hagsmunamál sem við erum að fjalla um.

[15:15]

Annars er sitthvað hægt að læra af reynslunni í þessu máli. Þetta er nefnilega ekki í fyrsta skipti sem við erum að semja um stóriðju á Íslandi. Mér þótti mjög fróðlegt að hlýða á gamalreyndan mann á þessu sviði, Jón Sigurðsson, sem var einn þeirra sem heimsótti efh.- og viðskn., ég held það hafi verið einmitt á hinum margívitnaða fundi 22. febrúar. Ég þekki skoðanir hans ekki og afstöðu til virkjunarmála og stóriðjumála. Ég geri ráð fyrir að hann sé almennt hlynntur virkjunum og stóriðju ef hún er gerð á skynsamlegum forsendum. En hann fór með okkur í gegnum söguna og hvernig járnblendiverkefnið þróaðist. Án þess að ég ætli að hafa hann fyrir því sem ég segi um það mál, því þar hef ég aflað mér annarra upplýsinga einnig, þá held ég að menn geti nú ekki annað en tekið varnaðarorð hans til greina, því hann nefndi að tvívegis í ferlinu hefði járnblendiverksmiðjan farið í þrot, farið á hausinn, og Íslendingum stillt upp við vegg. Hann varaði við því að við gerðum nokkuð eða gengum til þessara mála, þessara samninga, með veika samningsstöðu. En sú hætta væri alltaf fyrir hendi, sagði hann, þegar aðstæður eru eins og hér eru, þar sem um er að ræða eina virkjun og einn kaupanda að orkunni.

Ég held að margt bendi til þess að Norðmenn núna, í gerfi Norsk Hydro, í fötum Norsk Hydro, vilji fara svipaða leið og Elkem Spigerverket gerði fyrir 25 árum varðandi Járnblendifélagið í Hvalfirði, vegna þess að Norsk Hydro hefur talað um það, eða það hefur komið fram, að þeir vilji helst fjármagna þetta verkefni um 15--20%. Það er reyndar það eina sem er handfast og hefur komið frá þeim. Því hefur hins vegar verið haldið að þjóðinni að þeir vilji fjármagna verkefnið um allt að helming, allt að 50%. En við höfum aldrei fengið neitt fast í hendi hvað það snertir.

Ég hef Norsk Hydro grunað um að ganga fram í þessum samningum af mikilli yfirvegun og með það markmið að leiðarljósi að ná sem mestu út úr þessu verkefni. Þetta eru harðir bisnessmenn. Þetta eru menn sem eru ekki í pólitískum erindagjörðum.

Hvað var það sem gerðist í járnblendinu? Það gerðist að upphaflega stóð til að Union Carbide kæmi að því verki og í tengslum við samninga við Union Carbide, í upphafi, var gerður við það fyrirtæki skaðleysissamningur. Hann var gerður á meðan á þessum undirbúningsviðræðum stóð. Að því kom að Union Carbide ákvað að hverfa frá þessari ráðagjörð og greiddi fyrir þennan skaðleysissamning háa upphæð, átta milljónir dollara. Þá sátu Íslendingar uppi með Sigölduvirkjun og þetta málmblendiverkefni í uppnámi. Samningsstaða okkar gagnvart Elkem Spigerverket sem þá kom til sögunnar var ekki upp á marga fiska, enda þurfti Elkem Spigerverket ekki að kaupa nema 15% hlutafjár til þess að komast í þá einstöku stöðu að sjá um alla tæknihlið mála, aðföng og afurðir og taka fyrir það þriggja prósenta umboðslaun. Það voru þeir peningar sem Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri járnblendiverksmiðjunnar, talaði oft um sem blóðpeninga. Það tók ellefu ár að losna undan þessum afarkostum og hafði Elkem Spigerverket á þeim tíma fengið margfalt það framlag sem þeir höfðu lagt til fyrirtækisins. En á sama tíma töpuðu Íslendingar milljörðum á þessum rekstri.

Eins og ég gat um áðan þá fór fyrirtækið í tvígang á hausinn, í þrot, og nú er svo komið að Íslendingar eiga 10%. Þeir áttu í upphafi 80%. Nú eiga þeir 10%, Norðmenn 73% og samning til næstu 18 ára á raforku sem nemur hálfvirði af því sem kostar að framleiða hana.

Ég tel ekki fjarri lagi að ætla að Norsk Hydro telji sig eða hafi núna á undangengnum mánuðum talið sig hafa svipaða stöðu gagnvart íslenskum stjórnvöldum og Elkem Spigerverket hafði á sínum tíma, því staðið hefur til að gerður verði samningur við Norsk Hydro um að þeir sjái um tæknilega uppbyggingu álversins, aðföng og afurðir næstu 15--20 árin og hafi þar með tögl og hagldir þó að eignarhlutur þeirra yrði miklu smærri en sem þessu nemur, eða 15--20%. Ég ítreka þetta, að tal um að þeir séu reiðubúnir að leggja fram allt að helming hlutafjár er nokkuð sem einvörðungu hefur heyrst frá íslenskum aðilum og á helst íslenskum stjórnvöldum.

Lengi vel var ómögulegt að skilja að aðili sem einungis ætti um eða innan við fjórðung af hlutafénu mundi hafa tögl og hagldir við uppbyggingu og rekstur þessa fyrirtækis. En hugsanlega kom skýringin í ljós þegar Geir A. Gunnlaugsson, sem er helstur talsmaður Hæfis og Reyðaráls, upplýsti í sjónvarpi núna fyrir fáum dögum að leggja þyrfti 80 milljarða, 800 millj. dollara, sem tryggingu í sambandi við álverið og að þetta hefði verið eitt stærsta vandamálið sem steytt hefði á. Þetta er nokkuð sem íslenskir fjárfestar hafa ekki verið, eftir því sem ég best veit, upplýstir um, þ.e. hvað hér eiginlega hangir á spýtunni.

Að hinu má leiða getum að ef það er rétt að Norsk Hydro hefur viljað fá 15--20% hlutafé en hafa jafnframt tögl og hagldir í fyrirtækinu, ráða þar öllu, þá mundi íslenskum fjárfestum reynast erfitt að kyngja því þegar til kastanna kæmi. Í þessu sambandi er fróðlegt að hverfa aftur til umræðunnar sem fram fór í fjölmiðlum síðastliðið sumar, m.a. í ágætri úttekt sem gerð var í Morgunblaðinu og birtist 1. ágúst sl. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þeirri kenningu hefur verið fleygt í hópi áhrifamanna í lífeyrissjóðunum að í gildi sé einhvers konar leynisamningur milli íslenskra stjórnvalda og Norsk Hydro um ótímabundna aðkomu norska fyrirtækisins að mikilsverðum þáttum í rekstri álfyrirtækisins í Reyðarfirði. Þannig sé nánast kveðið á um yfirráð Hydro Aluminium yfir tækniuppbyggingu álversins, hráefniskaupum, markaðsstarfi og útflutningi. Þetta allt saman án þess að Hydro eigi meiri hluta í fyrirtækinu. Eftir standi íslenskir fjárfestar, þeirra á meðal lífeyrissjóðirnir, sem eigendur meiri hluta hlutafjár en þó nánast valdalausir um fjölmarga stoðþætti í rekstrinum.``

Er þetta ekki nákvæmlega sama formúlan og hjá Elkem Spigerverket á sínum tíma? Ég held áfram, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru mál ekki svo langt komin að um væri að ræða samkomulag um þessi atriði. Hins vegar væri kominn á skilningur --- og hann m.a. verið að einhverju leyti skjalfestur í sameiginlegum yfirlýsingum --- beggja aðila í þessum efnum og því hafi Norsk Hydro gengið út frá því sem vísu að þannig yrði háttað tengslum þess og Reyðaráls hf.

Það var ekki fyrr en fulltrúum lífeyrissjóðanna og fleiri mögulegum fjárfestum varð þetta samkomulag ljóst, að renna fóru tvær grímur á forráðamenn Hæfis. Þeir virðast ekki hafa áttað sig á því hversu málið væri eldfimt fyrr en þá og létu Norsk Hydro þegar vita af þessum blendnu viðbrögðum að heiman.``

Þetta er úr umfjöllun Morgunblaðsins 1. ágúst sl.

Þá veltir maður fyrir sér hvort gambíturinn sé þessi af hálfu álrisans: Við förum inn með 15--20%. Við gerum samkomulag um að við sjáum um alla tækniþjónustu, aðföngin, umsetninguna og stýrum rekstrinum. Síðan höfum við stöðu til þess þegar fram líða stundir og álverðið reynist lægra en menn höfðu spáð fyrir um, að stilla íslenskum fjárfestum upp við vegg, á sama hátt, nákvæmlega sama hátt og gert var í járnblendiverksmiðjunni og segja sem svo: Nú þurfum við meira af fjármagni. Hvað gerðu íslenskir fjárfestar þá? Þeir mundu segja væntanlega pass. Þá er fjármagnið fært niður, álfyrirtækið kemur inn með sína peninga, fjármuni, og öðlast meirihlutaeign.

Þetta er mjög raunverulegur möguleiki vegna þess að nákvæmlega þetta gerðist í járnblendiverksmiðjunni. Þannig yrði okkur einfaldlega stillt upp við vegg. Það er þetta sem hinn virðulegi fyrrverandi forstjóri járnblendiverksmiðjunnar varar okkur við. Hann segir að það geti gerst. Það gerðist í Hvalfirðinum, í járnblendiverksmiðjunni, að hún fór á hausinn. Íslendingum var stillt upp við vegg. Erlendi aðilinn öðlaðist þar með meirihlutaeign og náði niður raforkuverðinu, því það mundi gerast að sönnu líka. Samningsstaða okkar væri nánast engin því hótunin væri yfirvofandi um að hverfa þá af hólmi. Og hver kæmi þá? Hræætur utan úr heimi. Þannig hefur það verið orðað þegar erlend fjölþjóðafyrirtæki koma inn í slíkar rústir. Samningsstaða okkar við slíkar aðstæður er engin. Síðan leyfa hv. þm. sér að rísa á fætur og segja hér úr ræðustól: ,,Þetta er stórkostlega arðsöm fjárfesting.`` Látum liggja á milli hluta að engir samningar hafa verið gerðir. En þetta er veruleikinn. Þetta er veruleikinn sem Íslendingar hafa áður staðið frammi fyrir.

Það er þess vegna sem við erum að vara við því að við setjum öll okkar egg í þessa körfu, því það mundum við óneitanlega gera. Og hvaða raforkuverð sem menn kæmu til með að semja um núna þá er framtíðin óvissu háð.

[15:30]

Það sem Norsk Hydro sæi út úr þessu með það fyrirsjáanlegt í taflmennskunni að öðlast meirihlutaeign á þennan ódýra hátt og ná niður raforkunni þegar fram líða stundir, væru þeir reiðubúnir að koma inn með þá tryggingu sem Geir A. Gunnlaugsson ýjaði að í sjónvarpinu um daginn og þá tryggingu sem væntanlega var þess valdandi að titringur varð hjá Norsk Hydro vegna krafna íslenskra fjárfesta í sumar. Þetta er sú umræða sem þá fór fram á bak við tjöldin. Við vorum aldrei fyllilega upplýst um það. Mörg okkar vildu ganga eftir því að öll þessi mál yrðu færð fram í dagsljósið og ég var í hópi þeirra. Mér hefur stundum verið legið á hálsi hér þar sem ég á sæti í stjórn lífeyrissjóðs að hafa ekki viljað kanna málin til hlítar. Það er alrangt. Ég hef gengið eins og langt og mínir vitsmunir leyfa til að afla mér eins staðgóðra upplýsinga um þessi mál og ég mögulega hef getað. En ég vil gera það sem frjáls maður.

Þegar mér er stillt upp gagnvart því að skrifa undir samkomulag, sem menn geta nú ekki einu sinni haft á íslensku heldur ensku og heitir ,,Secrecy agreement`` --- leyndarsamkomulag, þar sem þeir sem kæmu að þeim málum fyrir hönd lífeyrissjóðanna skuldbinda sig til að, ekki að þegja núna eða á morgun heldur í átta ár, þá segja menn nei takk. Menn hafa ekki leyfi til þess að fara með umræðu af þessu tagi á bak við tjöldin eins og krafa er gerð um af hálfu fólks sem viðurkennir að þetta sé fyrst og fremst pólitík og víkur til hliðar öðrum röksemdum sem lúta að arðsemi eða hagkvæmni.

Ég vitnaði áðan í hæstv. utanrrh. sem sagði að að sjálfsögðu væri það hagkvæmast fyrir okkur eða þjóðahagslega hagkvæmari kostur fyrir okkur að reisa 120 þúsund tonna álver heldur en 240 þúsund tonna álver. Þetta eru sömu aðilarnir og segjast ekki nenna að tala um efnahagslegar forsendur málsins og reyna síðan að múlbinda alla þá sem á einhvern hátt fá upplýsingar um málið.

Í umræðu síðustu daga hefur komið fram að skyndilega hafi komið upp á borðið erfiðleikar hjá Norsk Hydro í tengslum við kaup á þýska fyrirtækinu VAW. Ég velti því fyrir mér hvar samningamenn okkar og hagsmunagæslumenn þjóðarinnar hafi verið á verðinum, hvernig þeir hafi sofið, þegar frá því var greint meira að segja á heimasíðu Norsk Hydro núna um áramótin hvað stæði til. Í rauninni er afvegaleiðandi að tala um kaup á fyrirtæki, þetta er samruni tveggja risastórra fyrirtækja. Þetta þýska fyrirtæki á sér langar rætur, var stofnað 1917 og var stór álframleiðandi í Þýskalandi með hléum. Þjóðverjum voru settar skorður eftir seinna stríð í framleiðslu á öllu því sem gat flokkast undir hergagnaiðnað en á miklu lengri sögu í álframleiðslu en nokkru sinni Norsk Hydro sem fer út á þá braut 1986 fyrst, er svona kornabarn í þessum bransa, en er þó orðið í hópi fjögurra stærstu ál\-framleiðenda í heiminum --- Alcoa og Alcan, Norsk Hydro og svo eru Rússarnir, þeir sem Morgunblaðið sagði okkur frá um daginn að væru svo nátengdir mafíunni. Hæstv. ráðherra sagðist vera núna að senda seðlabankastjóra Íslands, Finn Ingólfsson, til viðræðna við það fyrirtæki væntanlega, rússnesku álframleiðendurna.

Maður spyr: Hvar heldur þetta fólk sig og hefur haldið sig sem leyfir sér að upplýsa okkur um það núna að eitthvert sérstakt vandamál hafi komið upp á borðið vegna kaupa á VAW fyrirtækinu sem hefur lengi verið á döfinni? Í blábyrjun janúar, 2. eða 3. janúar, eru um þetta ítarlegar fréttir á heimasíðu Norsk Hydro. Þar var ekki talað um sérstök vandamál heldur mikið sóknarfæri í því sambandi þegar til langs tíma væri litið. Hins vegar var talað um vandamál. Talað var um vandamál á síðunni og hefur verið núna síðustu daga og vikur, sem steðja að áliðnaðinum í heiminum. Þannig segja þeir á heimasíðu sinni að sú spurning sem þeir fái oftast þessa dagana sé hvernig eigi að bregðast við þeim samdrætti sem blasi við, hvar þeir ætli að skera niður 1.100 störf? Fram hefur komið að Norsk Hydro þurfi að skera niður 1.100 störf. Og þeir svara því til að það verði gert um heim allan, í framleiðslufyrirtækjum þeirra um heim allan.

En ég leyfi mér, herra forseti, að halda því fram að þær ákvarðanir og framganga Norsk Hydro hafi ekkert með fjárhagsvandræði þeirra að gera, heldur einvörðungu hitt hvernig þeir vilja halda á spilum sínum gagnvart Íslendingum. Þetta er fyrirtæki sem veltir 2.000 milljörðum, sex til áttföldum fjárlögum Íslendinga. Þeir velta 2.000 milljörðum. Og það sem um er að ræða að þeir létu hugsanlega af hendi rakna hér til framkvæmda á Íslandi eru smámunir.

Ef það er rétt sem þeir fullyrða, að þetta sé svona arðvænlegt, að þetta sé gullmoli, hvers vegna vill enginn þennan gullmola? Hvers vegna taka þeir hann ekki? Hvers vegna reisa þeir ekki álverið? Hvers vegna koma þeir ekki með meirihlutaeign núna? Ekki 50%, 20%? Af hverju bjóðast þeir ekki til að koma með 100%? Vegna þess að þeir ætla að fá þetta á silfurfati. Þeir eygja góða von í því þegar þeir hafa slíka samningamenn og við teflum fram á móti þeim. Það er nú bara staðreyndin.

Ástæðan fyrir því, herra forseti, að ég er að rekja þetta og fara yfir þessa sögu er sú að þetta eru staðreyndir. Þetta eru staðreyndir sem gerðust gagnvart Járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði, þetta eru staðreyndir. Það var þannig sem Elkem Spigerverk öðlaðist slíka yfirburðastöðu í þeirri verksmiðju. Ég hef rakið hvers vegna þeir náðu raforkuverðinu niður, langt niður fyrir framleiðsluverð. Það er svona sem það gerist. Þetta snýst bara ekki einvörðungu um eignarhlut í fyrirtækinu, þetta snýst líka um raforkuverðið þegar fram líða stundir. Það er eflaust stærsta málið. Það er það mál sem við eigum að láta okkur mestu skipta, hugsanlega meiru en þá fjármuni sem menn setja inn sem hlutafé. Þó ætti ég að fara varlega í slíkar yfirlýsingar vegna þess að lífeyrissjóðir eða aðrir fjárfestar sem settu fjármuni í fyrirtæki við þessar aðstæður með þeirri hættu yfirvofandi að hlutaféð verði rýrt þegar fram líða stundir með bolabrögðum, ættu að hugsa sinn gang og líta á þetta sem stórkostlega áhættufjárfestingu. Það gæti farið fyrir þeim á nákvæmlega sama hátt og hefur farið fyrir fjármunum Íslendinga í tengslum við Járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði.

Ég ætla að víkja þá lítillega að umsögn 2. minni hluta efh.- og viðskn. Alþingis, en sá sem hér stendur undirritar þá umsögn.

Þetta hefur verið til umræðu á tveimur fremur en þremur fundum efh.- og viðskn. Þetta voru mjög góðir fundir. Á fund nefndarinnar komu fulltrúar aðskiljanlegra stofnana, Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka, það komu hagfræðingar, háðir og óháðir, fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og fræddu okkur um sjónarmið sín í þessum málum. En auðvitað fengum við ekki að heyra neitt um grunnforsendurnar sem allt dæmið á að hvíla á, þ.e. raforkuverðið, því var öllu haldið rækilega leyndu eftir að upplýst var að nefndarmenn væru ekki allir reiðubúnir að þegja um það sem þeir fengju að vita og gerðu grein fyrir því að þeir vildu opinbera umræðu um málið.

Í umsögn minni segi ég m.a., með leyfi forseta:

,,Í ljósi þess að mjög alvarleg varnaðarorð hafa komið fram um grundvöll þann sem áætlanir Landsvirkjunar byggjast á hvað varðar álverð á komandi árum og áratugum og áætlaðan byggingarkostnað Kárahnjúkavirkjunar og óvissu henni tengd vegna mjög viðamikilla jarðganga og stíflugerðar, auk mótvægisaðgerða til verndar náttúru svæðisins, er hér með lagt til að forsendur arðsemisútreikninga Landsvirkjunar verði ítarlega endurskoðaðar. Jafnframt verði leitað enn frekari upplýsinga til viðbótar þeim sem að undanförnu hafa borist um ástand á álmörkuðum og framtíðarhorfur í áliðnaði heimsins.

Í umræðum á fundum efnahags- og viðskiptanefndar vegna fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar með fulltrúa Landsvirkjunar, embættismönnum frá Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka og Hagfræðistofnunar HÍ, auk fulltrúa atvinnulífsins, ASÍ og nokkurra óháðra aðila, kom mjög greinilega fram að opinberar stofnanir leggja til grundvallar sínum umsögnum í einu og öllu áætlanir Landsvirkjunar.``

Grundvallaratriði er að menn átti sig á þessu. Allir þeir sem tjá sig um málið byggja á forsendum Landsvirkjunar alveg gagnrýnislaust. Þeir hafa sumir gefið þeim að vísu ágætiseinkunn án þess að hafa kynnt sér nánar málin, en þeir byggja á þessum grundvallarupplýsingum Landsvirkjunar. Og síðan eru menn með röksemdaflutning sem er afleiddur af því.

Ég held áfram í þessari tilvitnun, með leyfi forseta:

,,Í umsögn Seðlabankans kemur fram að um sé að ræða stærstu fjárfestingu í raforkukerfi landsmanna í sögu þjóðarinnar sem óhjákvæmilega snerti margvísleg svið, svo sem atvinnumál, umhverfismál, arðsemi og áhættufjárfestingar Landsvirkjunar, byggðamál, ríkisábyrgðir og fjárhagslegt skipulag í tengslum við áhættufjárfestingu í raforkukerfinu og tengdri stóriðju, þjóðarbú og hagstjórn. Jafnframt að þar sem ekki hafi tekist í tíma að fá aðgang að öllum gögnum sem nauðsynleg eru til að leggja sjálfstætt mat á áhrif verkefnisins byggist álit bankans í veigamiklum atriðum á athugunum Þjóðhagsstofnunar á þjóðhagslegum áhrifum Noral-verkefnisins. Seðlabankinn leggur á þessu stigi ekkert mat á þessar niðurstöður.``

[15:45]

Aftur, herra forseti, vil ég vekja athygli á því að það er ekki sjálfstætt mat sem þessir aðilar leggja á málin heldur byggja þeir hver á öðrum og upphaflega á gögnum sem koma frá Landsvirkjun. Og áfram held ég, með leyfi forseta:

,,Seðlabankinn leggur á þessu stigi ekkert mat á þessar niðurstöður. Hann tekur þær einfaldlega sem gefnar sem undirstöður undir mat sitt á því hvaða áhrif verkefnið kann að hafa á peningastefnuna, vexti, gengi og aðra þá þætti sem snerta bankann. Seðlabankinn virðist ekki líta á það sem hlutverk sitt að taka afstöðu til málsins í heild enda eru margir þættir þess utan verksviðs hans. Það sé fyrst og fremst verksvið þeirra sem standa að byggingu álverksmiðju á Reyðarfirði að taka ákvörðun um hvort þeir vilji ráðast í verkefnið í ljósi væntanlegrar ávöxtunar og áhættu. Með sama hætti yrði það viðfangsefni þeirra sem fá það hlutverk að selja álverinu raforku að meta hvort arðsemi og áhætta verður verjanleg. Alþingi yrði að meta hvort veita beri málinu brautargengi þar sem vegnir yrðu saman hugsanlegur ávinningur í hærri þjóðartekjum og byggðarþróun og hugsanleg þjóðhagsleg áhætta og neikvæð umhverfisáhrif. Seðlabankinn bendir hins vegar á að rök kunni að vera til að skoða hvort ekki sé unnt að takmarka áhættu almennings af verkefninu með því að takmarka með einhverjum hætti þær ábyrgðir opinberra aðila sem verða á lánsfjáröflun til orkuframkvæmda að öðru óbreyttu. Seðlabankinn hefur almennt verið á móti víðtækri notkun ríkisábyrgða í áhætturekstri og fjármálastarfsemi enda geta þær skekkt áhættumat og samkeppnisstöðu.``

Herra forseti. Það er ástæða til að beina athygli manna að þessu, að Seðlabankinn hefur varað við því að ríkið og opinberir aðilar gangist í ábyrgð í þeim mæli sem hér er verið að leggja til. Og einnig er varað við því að þetta verkefni kunni ekki að rúmast í íslensku hagkerfi. Engu að síður talar Seðlabankinn, húsbændum sínum trúr leyfi ég mér að segja, jafnframt um að hugsanlega sé hægt að grípa til mótvægisaðgerða til að hamla gegn þessu og kem ég að því síðar hverjar þær mótvægisaðgerðir eru. Það er t.d. með því að keyra hér upp vaxtastigið í landinu. En áfram segir, með leyfi forseta:

,,Í mati Seðlabankans er byggt á úttekt Þjóðhagsstofnunar sem er fylgiskjal með frumvarpinu. Seðlabankinn segir enn fremur: ,,Ekki er reiknað með neinum mótvægisaðgerðum í ríkisfjármálum. Leggja verður ríka áherslu á að matið er mikilli óvissu háð og aðeins til viðmiðunar. Ástandið getur að verulegu leyti ráðist af ástandi þjóðarbúskaparins þegar framkvæmdir hefjast og öðrum ytri áhrifum sem þjóðarbúið verður fyrir meðan á þeim stendur ... Einn stærsti óvissuþátturinn sem tengist framkvæmdunum er áhrif þeirra á gengi krónunnar. Í þeim framreikningi Þjóðhagsstofnunar sem hér er stuðst við er reiknað með óbreyttu gengi krónunnar. Allar niðurstöður hér á eftir verður að skoða í ljósi þess. Sennilegt er að umtalsverðar gengisbreytingar verði fylgifiskur framkvæmdanna, þótt erfitt sé að sjá þær nákvæmlega fyrir, hvað þá að tímasetja þær ... Seðlabankinn mun vinna að því að verðbólga verði sem næst 2,5 % á ári. Framkvæmdirnar munu því krefjast aukins aðhalds peningastefnunnar áður en og meðan þær eru sem mestar ...`` Fram kemur hjá Seðlabankanum að gera megi ráð fyrir 2,5% hækkun vaxta við upphaf framkvæmda.``

Mér finnst menn hafa tekið þessum yfirlýsingum Seðlabankans af alveg ótrúlegri léttúð. Þar vísa ég að sjálfsögðu fyrst og fremst til ríkisstjórnarinnar og stjórnar meiri hlutans á Alþingi. Ef lánsskuldbindingar landsmanna eða vaxtabyrðarnar væru hækkaðar sem þessu næmi, um 2,5%, værum við að tala þar um milljarða álögur á landsmenn. Og ég hef svolítið saknað þess í umræðunni að ekki væru ræddar mótvægisaðgerðir fyrir hönd heimilanna, m.a. til að verja þau gegn þessum vaxtaklyfjum sem þannig yrðu lagðar á þau. Ég held áfram tilvitnun í þetta álit, með leyfi forseta:

,,Vegna þessarar fyrirhuguðu vaxtahækkunar Seðlabankans, ef af virkjunar- og álversframkvæmdum verður, er ljóst að um svokallaðar ruðningsaðgerðir verður að ræða. Með hugtakinu ,,ruðningsaðgerðir`` er átt við að þeim fyrirtækjum sem veikast standa yrði einfaldlega rutt úr vegi. Þetta á ekki hvað síst við um svokölluð ,,sprotafyrirtæki`` sem geta skapað arðsöm störf til framtíðar litið ef þau fá tíma og aðstæður til að vaxa úr grasi. Þannig mundi þessi einstaka risaframkvæmd, ef af yrði, ryðja úr vegi mörgum fyrirtækjum sem annars gætu vaxið og dafnað. Samdráttur í opinberum framkvæmdum einn og sér nægði engan veginn til að vega á móti þeim miklu framkvæmdum tengdum álveri sem hér um ræðir. Til viðbótar þessu kæmu síðan auknar álögur á almenning í formi mikilla vaxtahækkana, auk þess að mjög hæpið verður að teljast að markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu á ári náist á sama tíma og á slíkri risaframkvæmd stæði, sem með margvíslegum hætti mundi hafa mjög mikil áhrif til spennuaukningar í hagkerfinu.

Á framangreindum fundum komu fram athyglisverðar upplýsingar um þróun álframleiðslu og hvernig hún færist í síauknum mæli til iðnþróunarþjóðanna, ekki hvað síst til Kína. Þannig er nú áætlað að Kína, sem að undanförnu hefur verið stærsti álinnflytjandi heims, verði að 3--5 árum liðnum orðið að nettó-útflutningslandi á áli. Þessar viðamiklu breytingar hafa mjög mikil áhrif á þróun álverðs til framtíðar litið. Í sambandi við álverð og álverðsþróun væri vert að fá upplýsingar um hvað helstu sérfræðingar heims hafi gert ráð fyrir að álverð væri um þessar mundir, þegar fyrir 2--3 árum var verið að leggja grunn að þeim útreikningum sem nú er stuðst við.``

Mér finnst ástæða til að staldra ögn við þetta vegna þess að verðið á álinu skiptir grundvallarmáli þegar kemur að arðsemisútreikningum fyrir virkjunina. Það er um það rætt að tengja, eins og iðulega er gert, raforkuverðið verðlagi orkukaupandans, verðinu sem fæst fyrir afurð álversins. Og þá hafa menn sagt að til þess að tryggja það samningsverð sem menn ganga út frá þurfi álverðið, verðið á áltonninu, að vera 1.550 dollarar. Hvað skyldi það vera núna, herra forseti? Það eru rúmlega 1.400 dollarar. En menn segja: Það eru miklar líkur á því að þetta muni lagast. Einn hv. þm., Pétur H. Blöndal, hreifst mjög af því að í efh.- og viðskn. var talað um svokallaða Monte Carlo aðferð við að reikna líkurnar út, og án þess að ég vilji gera lítið úr þessari aðferðafræði og kenna hana við spilavítin er það samt ofurlítið tengt. Það eru nefnilega getgátur sem menn byggja á. En gott og vel. Menn styðjast við upplýsingar sem menn hafa frá liðnum árum og hvernig álverðið hefur þróast. Það sem hins vegar gleymist er að taka tillit til þeirra grundvallarbreytinga sem eru að verða á þessu sviði í heiminum. Og hverjar eru þær? Jú, þær eru m.a. þær sem hér er vikið að, að framleiðslan á áli er að færast frá efnahagslega þróuðum ríkjum til þeirra sem síður eru þróuð, frá Evrópu og Bandaríkjunum til Afríkulanda, til Suður-Afríku, til Mósambík, til Asíuríkja, til Víetnam, til Kína. Hér er sérstaklega vísað til Kína. Og það er vísað til þess að gert sé ráð fyrir því að Kínverjar, sem hingað til hafa flutt inn ál, muni að skömmum tíma liðnum verða orðnir útflutningsaðilar fyrir eigin framleiðslu, og það muni gerast að þremur, fjórum árum liðnum ef að líkum lætur.

Þessi lönd í Afríku og Asíu og víðar, Indónesíu, bjóða þessum álfyrirtækjum upp á raforkuverð sem er miklu lægra en hér er. Þetta getur valdið því að álverðið haldist lægra, vegna þessara kerfisbreytinga muni það haldast lægra en ýmsir sérfræðingar hafa viljað vera láta. Þeir sem ég hef hlustað á eða viljað taka mark á benda einmitt á þetta, að ákveðnar kerfisbreytingar séu í uppsiglingu og að við eigum ekki að taka það sem gefið að spádómar um hækkandi álverð eigi við rök að styðjast. Þetta skiptir okkur að sjálfsögðu meginmáli, okkur sem erum ábyrg fjárhagslega fyrir virkjuninni sem menn eru að leggja til að við veitum heimild fyrir, því að af orkuverðinu ræðst arðsemi hennar að sjálfsögðu.

Hér segir áfram, með leyfi forseta:

,,Órjúfandi tengsl eru á milli ákvörðunar um byggingu Kárahnjúkavirkjunar og byggingu álverksmiðju og tilheyrandi kolskautaverksmiðju. Í því sambandi væri mjög mikilvægt að fram kæmi við hvaða álverð væri áætlað að væntanleg Reyðarálsverksmiðja væri rekin á ,,núlli``.

Vegna þeirra frétta er nú berast um að Norsk Hydro hafi gefið íslenskum stjórnvöldum til kynna að fyrirtækið geti ekki staðið við þann tímaramma sem ráð var fyrir gert vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver í Reyðarfirði og jafnframt sé það ekki tilbúið að ganga frá nýrri tímaáætlun er sjálfgert að fresta málinu af hálfu Alþingis meðan frekari gagna er aflað og hætta öllum frekari undirbúningi framkvæmda vegna Kárahnjúkavirkjunar að sinni.``

Þetta segi ég, herra forseti, í niðurlagi álitsgerðar minnar frá 18. mars árið 2002.

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar á því að trufla ræðu hans en forseta þykir ýmislegt benda til þess að hv. þm. ljúki ekki ræðu sinni á næstu mínútu eða svo. Er það rétt ályktað?)

Já.

(Forseti (GÁS): Í því ljósi fer forseti fram á það við hv. þm. að hann fresti ræðu sinni því nú rennur upp tími þingflokksfunda sem ráðgert er að standi næsta hálfan annan tíma. Því spyr forseti hv. þm. hvort hann geti fallist á þá ráðstöfun að hann haldi áfram ræðu sinni um klukkan hálfsex.)

Ég fellst á það.