Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 17:30:09 (6823)

2002-04-03 17:30:09# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[17:30]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Herra forseti. Ég heyri að mikill órói er á ráðherrabekknum og menn spyrja hvers vegna þeir hafi verið ómakaðir, hæstv. ráðherrar, að koma hingað í þinghúsið, þeir hafi búist við að hér yrði atkvæðagreiðsla. Við erum að fjalla um eitt helsta stórmál sem hefur verið tekið til umræðu í sögu Alþingis, stærstu fjárfestingu í sögu þjóðarinnar. Mönnum finnst það vera allt að því ókurteisi að ómaka hæstv. ráðherra á fund þar sem þetta mál er til umfjöllunar.

Við ræddum fyrr í dag að illa væri komið fyrir Alþingi Íslendinga, að það léti bjóða sér þau vinnubrögð og þá framkomu sem ríkisstjórnin og þá ekki síst ráðherrar Framsfl., hæstv. iðn.- og viðskrh. og hæstv. utanrrh., hafa sýnt í málinu. Þau hafa staðhæft, báðir þessir hæstv. ráðherrar, að þau hafi verið í beinu og stöðugu sambandi við æðstu menn Norsk Hydro um langt skeið. Það hefur ítrekað komið fram í fjölmiðlum. Síðan láta þau eins og þau komi af fjöllum þegar það er upplýst að þær tímasetningar sem haldið hefur verið að þinginu koma ekki til með að standast. Látið er í veðri vaka að Norðmenn og fulltrúar Norsk Hydro hafi í frammi blekkingar við Íslendinga.

Ég hef hins vegar haldið því fram og fært fyrir því rök í máli mínu að það séu Íslendingar, íslensk stjórnvöld og fulltrúar Íslendinga í þeim viðræðum sem hafa haft í frammi blekkingar við þjóðina á Alþingi. Hæstv. iðn.- og viðskrh. hefur nú upplýst, og gerði það í fjölmiðlum, að þótt henni hefðu verið kunnar staðreyndir málsins um og fyrir síðustu mánaðamót hafi hún lifað í voninni, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, og þess vegna ekki talið að þær upplýsingar sem hún bjó yfir hafi átt erindi inn á Alþingi og í þær þingnefndir sem um þessi mál hafa fjallað. Þar er vísað í störf iðnn., umhvn. og efh.- og viðskn. Alþingis sem á að fjalla um efnahagslegar forsendur málsins.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ræddi þessi mál og þá stöðu sem upp er komin á þingflokksfundi sem lauk fyrir fáum mínútum og samþykkti þingflokkurinn ályktun sem ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna í úr ræðustóli:

,,Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fordæmir harðlega að mikilsverðum upplýsingum sem vörðuðu stöðu Noral-verkefnisins svonefnda og stjórnarfrumvarps um Kárahnjúkavirkjum og stækkun Kröfluvirkjunar skuli hafa verið haldið leyndum fyrir Alþingi og viðkomandi þingnefndum meðan málið var þar til umfjöllunar. Það er óverjandi með öllu að ábyrgðaraðilar verkefnisins skuli ekki greina satt og rétt frá stöðu mála á hverjum tíma, jafnt Alþingi sem fjölmiðlum og þar með þjóðinni. Þó tekur steininn úr þegar háttsettir opinberir embættismenn og ráðherrar eru staðnir að því að halda mikilsverðum upplýsingum frá Alþingi og þingnefndum. Þessi vinnubrögð fylgja í kjölfar þeirrar pólitísku valdbeitingar sem áður hafði verið ástunduð í málinu af umhvrh. og þess ásetnings iðnrh. og Landsvirkjunar að umlykja fyrirhugað orkuverð leyndarhjúp.

Það er óumflýjanlegt að Alþingi taki nú til skoðunar hvernig tryggja megi að umfjöllun um þingmál og störf þingnefnda geti alltaf byggst á réttum og fullnægjandi upplýsingum. Einnig þarf að huga að því hvort setja beri ákvæði í lög sem taka af skarið um að það sé saknæmt og refsivert að leyna Alþingi og þingnefndir upplýsingum eða greina þeim rangt frá.``

Herra forseti. Hér las ég upp ályktun sem samþykkt var á þingflokksfundi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Eins og fram kom hjá hæstv. forseta Alþingis gerði ég hlé á ræðu minni fyrir fund þingflokka sem hófst kl. 16. Ég hafði þar gert grein fyrir helstu sjónarmiðum sem ég vildi að kæmu fram í fyrri ræðu minni við umræðuna. Ég mun að sjálfsögðu gera ítarlega grein fyrir þeim þáttum sem ég tel enn mikilvægt að koma að við umræðuna í síðari ræðu minni í kvöld en læt þessari ræðu minni hér með lokið.