Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 17:35:42 (6824)

2002-04-03 17:35:42# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[17:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli þeim fullyrðingum að Alþingi hafi ekki fengið þær upplýsingar sem lágu fyrir á hverjum tíma í þessu máli. Þetta hefur verið útskýrt rækilega og farið yfir það og þar hefur engu verið leynt. Það er mjög merkilegt að þingflokkur á hv. Alþingi, Vinstri grænir, komi hér skipti eftir skipti og ásaki stjórnvöld og meiri hluta Alþingis um ólýðræðisleg vinnubrögð vegna þess að þeir vilja eyðileggja og tefja mál. Á þessi litli minni hluti Alþingis einhvern rétt á því að koma í veg fyrir framgang lýðræðisins á Alþingi og ásaka meiri hlutann um vinnubrögð af því tagi sem hér er lýst? Ég tel ástæðu til að mótmæla þessu, herra forseti, ég tel um vítaverð vinnubrögð að ræða þegar svo lítill minni hluti Alþingis ásakar okkur hin um ólýðræðisleg vinnubrögð vegna þess að þeir fá ekki vilja sínum framgengt og vilja setja það í refsilöggjöf að þeir geti stjórnað málum með þeim hætti eins og þeir eru að reyna að gera hér á Alþingi.