Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 17:37:07 (6825)

2002-04-03 17:37:07# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[17:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Sannleikur er sannleikur hvort sem hann er borinn fram af fáum mönnum eða mörgum. Hið sama gildir um ósannindin og lygina. Hún er lygi hvort sem hún er borin fram af fáum mönnum eða mörgum. Það hefur verið upplýst, m.a. af hálfu hæstv. viðskrh., að efh.- og viðskn. Alþingis hafi verið leynd upplýsingum. Hæstv. ráðherra sagði það í morgunfréttum Ríkisútvarpsins að hún lifði enn í voninni um að þær upplýsingar sem henni höfðu borist mundu ekki reynast réttar. Og þess vegna sagði hæstv. ráðherra að þær upplýsingar ættu ekki erindi inn í efh.- og viðskn. þingsins. Með öðrum orðum, þessum upplýsingum var haldið leyndum fyrir nefndinni. Það er því rangt sem fram kemur hjá hæstv. utanrrh. að Alþingi hafi ekki verið leynt upplýsingum. Það hefur verið staðfest af hálfu hæstv. viðskrh. ríkisstjórnarinnar.