Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 17:39:29 (6827)

2002-04-03 17:39:29# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[17:39]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. og formanni Framsfl. að ég er hér að færa fram staðreyndir og sannleika í máli. Staðreyndir sem hafa verið staðfestar af þeirri sem bar þær fram, hæstv. viðskrh. Valgerði Sverrisdóttur, sem hefur lýst því yfir í útvarpsviðtali að hún hafi ekki talið upplýsingar um það mál sem var til umfjöllunar í efh.- og viðskn. Alþingis eiga heima hjá nefndinni því hún hafi lifað í voninni um að þessar staðreyndir mundu taka breytingum á komandi dögum eða vikum. Þetta hefur sjálfur hæstv. ráðherra staðfest.

Síðan kemur hér hæstv. utanrrh. og leyfir sér að tala um lýðræðisleg vinnubrögð í þessu máli, í máli þar sem upplýsingum er aftur og ítrekað haldið leyndum.

Mér barst í hendur svar, eða svarleysi öllu heldur, við fyrirspurn sem ég setti fram um raforkuverð og þar segja fulltrúar ríkisstjórnarinnar að Alþingi og þjóðinni komi þær ekki við nema menn undirgangist þagnarheiti. Þetta eru staðreyndir. Síðan vogar hæstv. ráðherra sér að bera það á borð að hann sé fulltrúi lýðræðislegra vinnubragða í þessu máli. Eitt er alveg víst, nú hefur komið fram innlegg í þessa umræðu sem án efa á eftir að lengja hana til muna.