Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 18:22:17 (6837)

2002-04-03 18:22:17# 127. lþ. 107.1 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, PHB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 127. lþ.

[18:22]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég hlýt að gleðjast yfir skattalækkun, það er ekki spurning, þó hún standi ekki nema í fjóra mánuði í hæsta lagi. Hins vegar er ég ekki ánægður með að menn taki upp gamaldags niðurgreiðslukerfi á verðbólgu. Það er eitthvað sem ég hélt að menn hefðu hætt fyrir þrjátíu árum. En svo er ekki. Núna eru menn að reyna að niðurgreiða verðbólguna með öllum ráðum til að halda einhver rauð strik sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um og gætu að sjálfsögðu sleppt ef þeir kærðu sig um. Það er nefnilega þannig að félagsmenn í ASÍ, sem eru lunginn af skattgreiðendum í landinu, munu borga þessar 80 milljónir, svona eða hinsegin. Menn eru bara að plata þá með því að lækka skatta hér, sem lækka bensínverðið, lækka vísitöluna. Þetta verður síðan að sjálfsögðu tekið einhvern veginn inn í ríkissjóð einhvern tímann af skattgreiðendum. Þannig er þetta sama fólk látið borga þetta --- það væri ekki hægt að lækka skattana svo mikið ella --- með hækkandi sköttum.

Það er svo aftur dálítið merkilegt að menn sitji hér og reikni út að þetta sé 1,90 kr. lækkun á útsöluverði bensíns. Það er eins og bensínverð sé ekki háð neinni samkeppni. Í eðlilegri samkeppni er verð ekkert endilega háð kostnaðarverði framleiðandans heldur háð markaði, framboði og eftirspurn. En svo virðist ekki vera á bensínmarkaðnum. Meira að segja fulltrúi neytenda og Neytendasamtakanna situr alla daga og reiknar út hvað bensínverðið ætti að hækka eða lækka, eins og það sé enginn markaður og engin samkeppni. Það er dálítið merkilegt. Hér í þessu frv. kemur fram að bensínverð muni lækka um 1,90 kr. eins og það sé engin samkeppni og enginn markaður. Það er athyglisvert.

Ég ætla nú ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég sem sagt gleðst í aðra röndina en er dapur í hina.