Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 18:49:25 (6839)

2002-04-03 18:49:25# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[18:49]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú, Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Nú, í 2. umr. um málið, hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs farið mjög ítarlega í gegnum þetta mál, bæði hvað varðar umhverfislega þætti þess og meðferð gagnvart lögum og reglum og væntingum í umhverfismálum, sömuleiðis í gegnum þær umsagnir og þá meðferð sem málið hefur fengið hvað varðar efnahagslega þáttinn. Allt hefur þetta verið rækilega tíundað hér.

Virðulegi forseti. Það er mjög gott og ágætt að fara ítarlega í gegnum þetta mál. Staðreyndin er sú að þegar upp er staðið stöndum við frammi fyrir pólitískum en ekki faglegum ákvörðunum, alveg frá byrjun þessa ferlis og enn þann dag í dag. Það var mjög áberandi í umræðunni í dag að þessi umræða snýst ekki um hina faglegu hlið málsins og hún snýst ekki um það hvort þarna sé verið að beita umhverfisverðmæti harðræði. Hún snýst ekki heldur um það hvort þarna sé verið að ráðast í framkvæmdir sem alls óvíst er að skili þjóðinni nokkrum arði til framtíðar. Nei, umræðan snýst fyrst og fremst um pólitískar ákvarðanir sem byggðar eru á alveg furðulegri þrjósku og þvergirðingshætti.

Þegar þessi virkjun og þessar framkvæmdir fóru í mat á umhverfisáhrifum á sínum tíma og í það ferli eins og þingheimi og alþjóð er kunnugt um felldi Skipulagsstofnun úrskurð sinn, reyndar undir mikilli tímapressu því að tímapressa hefur ætíð verið mikil í þessu máli, eins og það sé einhver tímarammi sem samið hafi verið um á milli íslenskra stjórnvalda, þess fyrirtækis sem hefur verið stofnað um framkvæmdirnar hér á landi og Norsk Hydro. Alltaf hefur sá tímarammi sem þar var talið að samið hefði verið um verið það keyri sem hefur keyrt áfram hvern einasta þátt þannig að ekkert skref í þessu ferli öllu mátti vinna á viðunandi hátt. Það sást strax við undirbúningsrannsóknirnar sem þurfti að vinna við gerð matsáætlunar á þessum virkjunarframkvæmdum, síðan við umhverfismatið sjálft. Allt mátti þetta engan tíma taka því að þá mundi sá tímarammi sem var búið að semja um við Norsk Hydro splundrast og málið verða í miklu uppnámi til óbætanlegs tjóns fyrir þessar framkvæmdir og þá þjóðina alla.

Þetta var enn fremur sá harði tímarammi sem Skipulagsstofnun varð að una og skila sínu áliti samkvæmt en þó var það vandað og ákveðið. Úrskurður Skipulagsstofnunar var afdráttarlaust sá að þessum framkvæmdum skyldi hafnað, ekki væri heimilt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum að ráðast í þessar framkvæmdir.

Strax og þessi úrskurður kom, úrskurður sem samkvæmt lögum var kæranlegur til umhvrh., stigu á stokk oddvitar ríkisstjórnarinnar, formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., og formaður Sjálfstfl., hæstv. forsrh., og sögðu að það væri á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að farið yrði í þessa virkjun og við það yrði staðið. Þetta voru þá þau skilaboð sem hæstv. umhvrh. fékk frá yfirmönnum sínum í ríkisstjórninni þannig að hafi hæstv. umhvrh. haft á því aðra skoðun var henni nauðugur kostur, og kom því engum á óvart í sjálfu sér þegar hún felldi hinn pólitíska úrskurð, sneri við úrskurði Skipulagsstofnunar og heimilaði þessa virkjun samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í málinu réðu því ekki neinar faglegar ákvarðanir heldur eingöngu pólitískar. Það var jú látið heita svo að málið færi í eins konar nýtt umhverfismat hjá umhvrn. en allir vita að það var í sjálfu sér ekki það ferli sem lögin um mat á umhverfisáhrifum ætluðust til. Ef svo miklu var ábótavant við gagnaöflun og meðferð málsins í undirbúningi þess fyrir úrskurð Skipulagsstofnunar að þar þyrfti að afla miklu frekari gagna og rannsókna hefði átt að vísa málinu aftur til þeirrar meðferðar.

Sem sagt, hæstv. umhvrh. valdi að kveða upp sinn pólitíska úrskurð og láta lönd og leið hinar faglegu hliðar málsins.

Þegar úrskurður umhvrh. birtist, herra forseti, kom yfirlýsing frá níu umhverfis- og náttúruverndarsamtökum sem hörmuðu þetta. Ég ætla að fá heimild til að mega vitna í yfirlýsinguna en þar segir m.a.:

,,Í ljósi þess að Kárahnjúkavirkjun mundi valda margfalt meiri náttúruspjöllum en nokkur einstök framkvæmd á Íslandi til þessa er niðurstaða ráðherra óskiljanleg.`` --- Þetta var þegar hæstv. umhvrh. sneri við úrskurði Skipulagsstofnunar. --- ,,Veruleg og óafturkræf áhrif virkjunarinnar, sem Skipulagsstofnun byggði úrskurð sinn á, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, blasa við hverjum þeim sem kynnir sér framkomnar upplýsingar. Tæpast er hægt að ímynda sér stórfelldari röskun af mannavöldum á náttúru landsins.

Í þessu sambandi er minnt á eftirfarandi:

Kárahnjúkavirkjun mun eyðileggja eitt stærsta hálendisvíðerni í Evrópu með mannvirkjagerð á um 1.000 ferkílómetra svæði og spilla fjölbreyttu gróðurlendi á allt að 600 ferkílómetra svæði, sem er hluti af samfelldri gróðurþekju frá sjó inn til jökla. Líta ber á hálendisgróður ofan við 500 m hæð sem fágæta og verðmæta auðlind.

Ómetanlegar jarðfræðiminjar og landslagsheildir á heimsvísu yrðu eyðilagðar eða þeim raskað verulega með virkjunarframkvæmdum.

Meira en hundrað fossar yrðu fyrir röskun af völdum virkjunarinnar og sumir þeirra hyrfu alveg.

Stórfelldir vatnaflutningar einkenna virkjunina þar sem eitt stærsta vatnsfall landsins, Jökulsá á Dal, yrði flutt á milli vatnasviða og veitt í Lagarfljót.

Nánast ekkert vatnakerfi á virkjunarsvæðinu stæði eftir óraskað. Lífríki í stöðuvötnum og fjölmörgum ám mun eyðast eða raskast verulega, einangruðum stofnum verður útrýmt eða þeim blandað saman við aðra stofna.

Þýðingarmikil varpsvæði og fjaðrafellisstaðir fugla eyðilegðust á sjálfu virkjanasvæðinu og samfara vatnaflutningum á Úthéraði.``

[19:00]

Herra forseti. Þetta er hluti af yfirlýsingu sem níu náttúruverndarsamtök á landinu sendu frá sér þegar úrskurður hæstv. umhvrh. var kunngerður.

Enn fremur birtist fyrir skömmu heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu með áskorun frá fjölda íbúa á Austurlandi sem búa á þessu svæði þar sem þessum miklu vatnaflutningum var mótmælt, þ.e. því að flytja heilar ár á milli vatnasviða. Ekki aðeins íbúum þessa héraðs heldur og fjölmörgum öðrum einstaklingum og náttúruverndarsamtökum er ljóst að þarna er verið að ráðast í óafturkræf umhverfisspjöll.

Ég held að okkur sé mikilvægt, herra forseti, þegar við erum að fjalla um þetta að átta okkur á að hvert einasta skref í þessu máli er ákvarðað á pólitískum forsendum en ekki faglegum. Fyrst og fremst eru menn búnir að bíta í sig ákveðið pólitískt ferli sem ekki er ætlunin að hnika hvaða rök sem kunna að vera gegn því. Þetta var umhverfisþátturinn.

Sama er einnig upp á teningnum hvað varðar efnahagslega þáttinn. Ítrekað hefur verið gerð grein fyrir því, bæði í umræðunum og í nefndarálitum, að flestir þeir hagfræðingar og efnahagssérfræðingar sem komið hafa að þessu máli sjá ekki arðsemi þessara framkvæmda. Þeir sjá hana alls ekki. Þeir hafa meira að segja óttast og hafa bent á að með þessum framkvæmdum sé verið að binda, ekki aðeins fjármagn og fjármögnunarmöguleika íslenska ríkisins heldur og er Landsvirkjun að setja allt sitt að veði og eigendur Landsvirkjunar eru að setja eign sína og notkun að veði. Líka er verið að veðsetja alla raforkunotkun í landinu fyrir þessa einu framkvæmd. Hér er því ekki verið að leita hagkvæmni á grundvelli lögmála markaðarins eða arðsemissjónarmiðanna sem svo mjög hefur verið haldið á lofti af hinum miklu málsvörum virkjunarinnar. Þeir sem líta kalt og hlutlaust á málið segja að þessar arðsemisvæntingar séu alls ekki fyrir hendi.

Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að vitna til greinar sem birtist í Viðskiptablaðinu 20.--26. mars árið 2002 og ber yfirskriftina ,,Markaðslögmálin gilda ekki hér``. Höfundur greinarinnar er virtur hagfræðingur, Sigurður Jóhannesson. Í þessari grein rekur hann ferilinn, þá umræðu sem fyrst var í þessu virkjanaferli, að Kárahnjúkavirkjun yrði sjálfstætt fyrirtæki sem ætti að reka sig á eigin forsendum og ekki væri gert ráð fyrir því að það yrði ríkisstyrkt eða virkjunin greidd niður af opinberum aðilum né heldur af almennum raforkunotendum í landinu. Svona var hugmyndin fyrst kynnt og á forsendum hennar fór umræðan í gang og var rekin í fyrstu. Í grein þessari segir undir millifyrirsögninni ,,Kárahnjúkavirkjun ber sig ekki sem sjálfstætt fyrirtæki``, með leyfi forseta:

,,Fram kom í máli fjármálastjóra Landsvirkjunar á orkuþingi í haust,`` --- og hann hefur endurtekið það síðan --- ,,að Kárahnjúkavirkjun mundi aldrei bera sig sem sjálfstætt fyrirtæki. Þetta er niðurstaða sérfræðinga á alþjóðlegum fjármálamarkaði sem Landsvirkjun leitaði til. Fjármálastjórinn sagði meira að segja að öll orkusala til stóriðju yrði hæpin ef Landsvirkjun yrði breytt í hlutafélag og bakábyrgð ríkis og sveitarfélaga hyrfi.``

Ítrekað hefur komið fram í þessu máli --- ég er að bera í bakkafullan lækinn með að segja það enn einu sinni --- að þessi virkjun ber sig ekki. Jafnvel að mati fjármálastjóra Landsvirkjunar gerir hún það ekki. Til þess að hægt sé að keyra hana fram þarf að koma til ríkisstuðningur, æ stærri bitar af verklegum framkvæmdum sem tengjast virkjuninni eru greiddir beint úr ríkissjóði, veittar eru ríkisábyrgðir sem hljóta náttúrlega að teljast beint framlag til verksins og skuldbinding til langs tíma, og sömuleiðis er hin almenna notkun í landinu, notkun Landsvirkjunar, sett að veði.

Sigurður Jóhannesson rekur síðan í þessari grein hvernig reynt hefur verið að verja það að ráðist skuli í framkvæmdirnar og hvernig það er gert. Grein sinni lýkur hann svona, með leyfi forseta:

,,Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál verða ekki einungis stærsta fjárfesting Íslandssögunnar heldur einnig ein hin opinberasta.`` --- Hann leggur áherslu á að hér er verið að ráðast í eina stærstu opinberu framkvæmd sem ráðist hefur verið í af Íslands hálfu. Það er ekki markaðurinn sem hér ræður ferð. Og áfram segir í greininni, með leyfi forseta: ,,Ef ekki hefði farið sem fór um einkavæðinguna hefði mátt segja að þetta væri á móti tíðarandanum. Fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga virkjar, en hálfopinberir lífeyrissjóðir með skylduaðild eru kjölfestufjárfestar í álverinu.`` --- Þetta var á þeim tíma þegar enn þá var búist við því að álverið risi. --- ,,Úrtöluraddir um litla arðsemi eða mikla áhættu glepja ekki þennan flokk. Enginn hvikar nema Norsk Hydro.``

Ég held að okkur sé hollt, virðulegi forseti, að átta okkur á með hvers konar fádæmum þetta mál er rekið áfram í gegnum þingið, með þvílíkum fádæmum að það á sér ekki hliðstæðu í Íslandssögunni. Allt ríkið er sett að veði sem og framtíðarraforkunotkun landsmanna í gegnum ábyrgðir Landsvirkjunar fyrir þessar stærstu opinberu framkvæmdir í landinu. Hægt væri að styðja við marga atvinnustarfsemi í landinu með því að veita henni ríkisábyrgð á þennan hátt. Ætli það ekki? Ætli ýmsar rekstrarforsendur hjá öðrum atvinnugreinum sem nú eiga í erfiðleikum gætu ekki breyst ef veitt væri ríkisábyrgð á stofnkostnað og fjármagn?

Virðulegi forseti. Meðal rakanna fyrir því líka að ráðist skyldi í þessa virkjun er að þetta sé sjálfbær orkuöflun, sjálfbær virkjun sem framleiðir rafmagn með sjálfbærum hætti. Reyndar hefur komið fram í umræðum fyrr að menn eru ekki alveg klárir á því, sumir hverjir, hvað orðið sjálfbær þýðir. Sjálfbær orkuframleiðsla er sú orkuframleiðsla sem nýtir orku auðlindar með sjálfbærum hætti þannig að auðlindin sem slík skilar sér jafngóð til ókominna kynslóða eins og við nýtum hana í dag, og skylda okkar er reyndar heldur að skila henni betri ef eitthvað er. Þessi virkjun byggir á því að ráðist verði í mikið jarðrask og mikla efnisflutninga, flutning á ám milli vatnasvæða og einnig á myndun gríðarlega stórs uppistöðulóns, eins og ég greindi frá áðan, uppistöðulóns sem hefur ekki aðeins það hlutverk að safna vatni til að miðla til virkjunarinnar heldur tekur það einnig á móti jökulframburðinum, sem annars byltist með jökulánum til sjávar, og stöðvar hann í þessu lóni. Menn vita ekki nákvæmlega hversu langan tíma það tekur að fylla þetta lón af jökulleir --- menn giska á 100 eða 200 ár, þá fari miðlunargeta lónsins að breytast, minnka og jafnvel hverfa eftir 200 til 300 ár.

Hvort sem það eru 100, 200, 300 eða 500 ár sem það tekur er hér ekki um sjálfbæra orkuframleiðslu að ræða, aldeilis ekki. Hér er um að ræða varanleg náttúruspjöll og varanlega sóun og eyðileggingu á þessum náttúruauðlindum. Þetta getur þess vegna ekki flokkast undir þá skilgreiningu, hvorki innlenda né alþjóðlega. Þetta er ekki sjálfbær orkuframleiðsla.

Mikilvægt er að menn geri sér grein fyrir þessu því að einstaka talsmenn hafa látið að því liggja í hita sínum fyrir þessu máli að þetta væri sjálfbær orkuframleiðsla. Ef menn hugsa í fimm eða tíu árum geta þeir kannski látið blekkjast en okkur ber að hugsa og taka ákvarðanir til lengri tíma, ekki síst þegar við höfum þá vitneskju og getum séð fyrir að þetta muni gerast. Aðeins um tímann ríkir óvissa. Þess vegna er mjög mikilvægt að fólk átti sig á því að verið er að blekkja í þessari umræðu með því að halda því fram að hér sé um sjálfbæra orkustefnu og -vinnslu að ræða, og það er mikilvægt í þessari umræðu að öllum sé ljóst að svo er ekki.

Virðulegi forseti. Þetta frv. felur líka í sér að það á að heimila stækkun Kröfluvirkjunar. Sú stækkun sem hér er verið að sækja um heimild til og framkvæmdir henni tengdar eru ekki einu sinni búnar að fara í mat á umhverfisáhrifum. Hér er því verið að sækja um að veita virkjunarheimild áður en það ferli hefur átt sér stað. Að vísu er settur sá fyrirvari að leyfið sé ekki gefið út af ráðherra fyrr en umhverfismat liggur fyrir en slíkt ætti þá að vera bundið.

[19:15]

Það var athyglisvert í ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar, 4. þm. Austurl., fyrr í dag þar sem hann spurði: Er nokkur hætta á því, getur komið til greina að sú raforka sem hugsanlega verður framleidd frá Kárahnjúkavirkjun eða öðrum virkjunum þar yrði flutt hingað á suðvesturhornið eða í aðra landshluta til þess að verða orkugjafi fyrir stóriðju þar? Það taldi hv. þm. Einar Már Sigurðarson af og frá. Hann leit svo á að þetta væri auðlind Austfirðinga og ef ekki væri hægt að nýta þá auðlind nú þegar eða í bráð í fyrirhugaða álverksmiðju, þá bæri frekar að bíða þangað til önnur tækifæri gæfust til þeirrar orkunýtingar.

Ég ber virðingu fyrir því sjónarmiði og skil það. En þá veltir maður því fyrir sér, virðulegi forseti, að rafmagn frá Kröfluvirkjun kemur frá Mið-Norðurlandi, eða úr allt öðrum byggðahverfum, og ekki hefur verið talið að þær framkvæmdir sem yrðu hugsanlega í kringum virkjun við Kárahnjúka og verksmiðjuna við Reyðarál hefðu bein áhrif á búsetu eða atvinnulíf á Húsavík eða í Suður-Þingeyjarsýslu. Og þá veltir maður því einnig fyrir sér, herra forseti, að nú hefur ekki verið framkvæmt neitt umhverfismat á heimild til stækkunar Kröfluvirkjunar, hvorki frá náttúrufarslegum sjónarmiðum, umhverfislegum sjónarmiðum, né heldur hefur verið kannaður annar valkostur á því svæði til þess að nýta þá orku eða hvaða áhrif það hefði á það samfélag þar að missa af þeim möguleika að nýta þessar auðlindir til eflingar á atvinnu í heimabyggð. Við þekkjum og vitum t.d. um áhuga Húsvíkinga á að styrkja og byggja upp höfnina og geta aukið umsvif þar.

Ég vil þá varpa því til núv. þingmanna Norðurl. e., t.d. hv. 1. þm. Norðurl. e.: Hefur hann í rauninni gert sér grein fyrir hvað þarna er að gerast? Við virðum sjónarmið Austfirðinga sem segja að þeir vilji þá frekar að orkuauðlindin í fjórðungi þeirra bíði en vera flutt burt í aðra fjarlæga landshluta, og þeir sjái þá til hvort þeir geti annaðhvort með minni virkjunum eða annarri nýtingu á því svæði nýtt þær til eflingar atvinnulífs og mannlífs á þeim svæðum. Við virðum slíkt sjónarmið og ég ber mikla virðingu fyrir því og ég tel einmitt eðlilegt að það sé inni í umræðunni.

Jafnframt hljótum við einnig að spyrja: Hvers vegna er þá verið að gefa þessa opnu heimild fyrir Kröfluvirkjun, fyrir stækkun Kröfluvirkjunar og það með að rafmagni frá henni skuli vera ráðstafað samkvæmt þessum lögum ef þeim verður ekki breytt, frv. sem hér liggur fyrir, austur í Reyðarál? Og meira að segja að þá ákvörðun skuli Alþingi taka áður en sú stækkun er búin að fara í mat á umhverfisáhrifum.

Virðulegi forseti. Er að furða þótt maður spyrji: Er verið að vinna hér í takt? Eru þeir sem koma að málum og véla um sjálfum sér samkvæmir hvað þetta varðar? Ég tel sjálfur að í fyrsta lagi eigi að bíða eftir rammaáætlun um virkjanakosti áður en ráðist er í stórvirkjanir. En alveg skilyrðislaust á hugsanleg stækkun Kröflu að fara í mat á umhverfisáhrifum áður en við vélum um það eða ákveðum að rafmagn sem hugsanlega fáist þar til viðbótar verði sent í aðra landshluta. Þó að ég vilji alls ekki útiloka það og finnist eðlilegt að auðlindir miðhálendisins og stórvirkjanir nýtist öllum landsmönnum, það sé líka hugsun sem við göngum út frá, ber okkur samt að virða skoðanir og óskir heimafólks til auðlindanna sem eru við bæjardyr þeirra, hvernig þeim skuli fyrst og fremst ráðstafað, sérstaklega ef almannaheill kallar ekki eftir að það verði með öðrum hætti. En ekki er hægt að segja að fyrirhuguð verksmiðja eða virkjun sé mikilvæg vegna almannaheilla. Þetta er framkvæmd til ákveðinnar atvinnusköpunar en það er fjarri því að segja að framtíð Íslands og almannaheill krefjist þess að í hana verði ráðist.

Herra forseti. Því er ljóst að þær forsendur sem hér er unnið eftir eru á engan hátt byggðar á faglegum eða skynsamlegum rökum og því er erfitt að ræða og reka málið hér á skynsemisgrunni. Þetta er fyrst og fremst rekið af hálfu stjórnvalda og einstakra hæstv. ráðherra á einhverri blindri þráhyggju sem þau hafa bitið í sig, sama hvað tautar og raular, höfðinu lamið við steininn og keyrt áfram, alveg eins og gamall hrútur í sveitinni sem renndi alltaf stöðugt á sama vegginn.

Á síðustu vikum hefur Norsk Hydro, sem bundið hefur verið við samninga, lýst því yfir að það sé ekki reiðubúið til að halda þann tímaramma um verkið og framkvæmd þess sem áður hafði verið gengið út frá. Rætt hefur verið um það í dag hvernig það ferli hefur verið kynnt Alþingi fyrst og fremst á pólitískan hátt. Einnig hefur verið rætt um að hæstv. ráðherrar, hæstv. iðn.- og viðskrh. hafi kosið að gera ekki þingnefndum og Alþingi grein fyrir því sem þá var vitað um stöðu málsins þegar nefndirnar fjölluðu um það, sem er alvarlegur hlutur, ekki síst þegar sá tímarammi sem upp var settur og kynntur hér að væri vegna kröfu Norðmanna eða í þeim samningum sem gerðir hefðu verið við Norðmenn, þ.e. að ekki mætti hnika þeim tímaramma sem þar hefði verið settur því þá væri allt verkefnið á floti. Það hefur verið haft sem ástæða fyrir því að keyra málið fram af svo miklu offorsi í gegnum þingið. Nefndir máttu ekki fjalla um það og taka sér nauðsynlegan tíma til þess. Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn. óskaði eftir því að fulltrúar Norsk Hydro kæmu á fund nefndarinnar þannig að ekki væri verið að gera þeim óbeint upp hugmyndir, heldur ættu þeir kost á því að tjá sig beint við þingnefnd íslenska þingsins. En því var hafnað af meiri hlutanum. Eða eins og hæstv. iðn.- og viðskrh. sagði og hefur greint frá, að hún hefði enn þá von um að tækist að snúa fulltrúum Norsk Hydro til þess að standa við sitt tímaplan, þrátt fyrir að fyrir lægju upplýsingar um að það mundi ekki verða svo.

Það er alvarlegt, virðulegi forseti, þegar hæstv. ráðherrar og embættismenn, æðstu embættismenn ríkisins koma líka á fundi þingnefnda og greina þar ekki frá því sem þeir besta vita um stöðu málsins. Það er, virðulegi forseti, alvarlegur hlutur. Því hversu mikilvægt sem mál er, þá má það ekki vera rekið áfram í svo blindri óskhyggju og svo miklum blindingsleik að menn veigri sér við að greina eðlilega frá stöðu mála þegar það er til meðferðar í þinginu. En þetta er auðvitað alveg í takt við allt ferli málsins.

Ég geri ekki lítið úr vonum fólks, að það hafi von og væntingar. Ef við hefðum ekki von, þá væri það nú dapurt. Við erum að tala um framkvæmdir á vegum íslenska ríkisins um hundruð milljarða króna. Við erum að tala um náttúruverðmæti, auðlindir og virkjanir og áhrif á náttúruauðlindir sem eru óafturkræfar. Í meðferð þingsins á slíkum stórmálum er ekki hægt að bera það á borð sem meginrök fyrir því hvernig skuli fara með bestu vitneskju um málið, að við höfum von um að eitthvað annað reki á fjörurnar. Það gengur ekki, virðulegi forseti.

Þess vegna hefur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ályktað um að fordæma slík vinnubrögð og ég tala nú ekki um í stórmáli eins og þessu þar sem ekki er greint frá þeirri bestu vitneskju sem vitað er um í málum fyrir þingnefndum þegar um þau er fjallað þar, og mikilvægt að reynt sé að tryggja í framtíðinni að slíkt endurtaki sig ekki.

Og einmitt á grundvelli þeirrar óvissu í málinu hefur fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn. mótmælt því að málið væri tekið úr nefnd vegna þess að ekkert lægi fyrir um það hvort þörf væri á að taka það strax úr nefnd, því tímaramminn sem því væri settur væri ekki fyrir hendi og þess vegna væri ekki sú krafa að keyra málið áfram sem áður. Þess vegna hefur hann lagt til að málinu verði vísað frá eða vísað aftur til iðnn. þar sem farið verði betur í málið og staða þess í heild sinni tekin upp á nýtt og endurmetin áður en 2. umr. lýkur.

(Forseti (ÍGP): Hv. þm. talaði um vonir og væntingar í ræðu sinni og fyrir þingmenn sem hlusta á og vænta þess að komast í mat klukkan hálfátta eins og gert var ráð fyrir --- á hv. þm. mikið eftir af ræðu sinni?)

Eigum við ekki bara að taka matarhlé, virðulegi forseti? Ég á um hálftíma eftir.

(Forseti (ÍGP): Þá munum við gera matarhlé núna.)