Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 21:08:32 (6840)

2002-04-03 21:08:32# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[21:08]

Jón Bjarnason (frh.):

Virðulegi forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni að ég fjallaði um atburði síðustu daga og þá staðreynd að upplýsingar sem lágu fyrir um stöðu málsins gagnvart þeim tímaramma sem hafði verið settur í samningum um virkjunarframkvæmdirnar við Norsk Hydro hefði ekki verið komið til þingsins eða til þingnefnda.

Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að rifja upp að það var fyrst í blaðagrein í Morgunblaðinu 15. mars sl. að látið var að því liggja að tímaramminn fyrir þessar framkvæmdir væri í uppnámi og að ekki væri líklegt að hann mundi halda. Í Ríkisútvarpinu 15. mars sl. var viðtal við hæstv. iðnrh. þar sem ráðherrann var inntur eftir því hvort þessi mál stæðu óbreytt. Þá, 15. mars, sagði hæstv. ráðherra í Ríkisútvarpinu í morgunfréttum klukkan átta eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Það er aðalatriðið að það er unnið samkvæmt áætlun sem undirrituð var hér í júlí árið 2000. Og til staðfestingar á því get ég sagt frá því að það eru fundir einmitt þessa dagana í Kaupmannahöfn þar sem að fulltrúar Landsvirkjunar og Norsk Hydro taka þátt. Þannig að þetta er nú aðalatriðið. Og það að fyrirtækið eigi í erfiðleikum vegna fjárfestingar í Þýskalandi á að vera þessu máli óviðkomandi vegna þess að við vorum fullvissuð um það á fundi hér á Íslandi síðast liðið haust að svo væri.``

Þá spyr Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, með leyfi forseta:

,,En þið hafið ekkert orðið vör við neinar breytingar núna?``

Þetta er 15. mars, virðulegi forseti. Þá svarar hæstv. iðnrh. Valgerður Sverrisdóttir:

,,Nei, við höfum ekki orðið það og trúum því að þessar sögusagnir eigi því ekki við rök að styðjast.``

Þarna, 15. mars, neitar hæstv. ráðherra því að nokkuð sé á ferðinni sem gefi tilefni til að efast um að mál sé í þeim farvegi sem ætlað var.

Hinn 27. mars er svo viðtal við stjórnarformann Reyðaráls á Stöð 2. Þar kemur fram að stjórnarformaðurinn segist hafa vitað frá miðjum febrúar að Norsk Hydro teldi sér ekki fært að standa við tímarammann 1. september og að þetta væri athyglisvert í ljósi þess að á Bylgjunni þann 19. febrúar væri það haft eftir honum að engan bilbug væri að finna á samningaviðræðum fyrirtækjanna. Og þegar stjórnarformaður Reyðaráls er inntur eftir þessu frekar svarar hann fréttamanninum, með leyfi forseta:

,,Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Reyðaráls: Mér finnst það fullkomlega réttlætanlegt`` --- sem sagt að gefa þetta ekki upp --- ,,til þess, vegna málsins, að menn ja, þess vegna séu ekki alveg að segja sannleikann af því að menn verða að nota þennan tíma til þess að reyna að fá fram þá niðurstöðu sem við viljum.``

Þarna er kominn 27. mars. Svo er ítrekað spurt hvort ekki sé réttara að halda sig við sannleikann. Þá segir stjórnarformaðurinn, með leyfi forseta:

,,Já, já en þarna er náttúrlega verið að ræða, þarna er um viðskiptaleyndarmál að ræða og það er og þetta er alls staðar í öllum viðskiptum, ...`` --- þ.e. að þess vegna megi leyna þessu.

Þetta segist hann samt hafa vitað frá því í febrúar.

Hinn 28. mars er svo hæstv. iðnrh. spurð í Ríkisútvarpinu hvort hún hafi ekki vitað af þessu um miðjan febrúar eins og stjórnarformaður Reyðaráls hafi greint frá að hann hefði gert. Þá svarar hæstv. iðnrh., þ.e. í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 28. mars, með leyfi forseta:

,,Nei, það vissi ég ekki og ef að hann [þ.e. stjórnarformaðurinn] og einhverjir fleiri hafa búið yfir þessum upplýsingum þegar um miðjan febrúar þá hafa þeir alla vega haldið þeim leyndum fyrir mér því að það er miklu síðar sem að ég fæ svona skilaboð um það nokkuð misvísandi að þarna sé ekki allt með felldu, að þeir eigi í erfiðleikum út af fjárfestingum í Þýskalandi ...``

Þarna fullyrðir því hæstv. ráðherra að hún hafi ekkert vitað um að þetta gæti verið í uppnámi og er meira að segja að finna að því að vera ekki upplýst um málið.

[21:15]

Þá spyr fréttamaðurinn, Jóhanna Margrét Einarsdóttir, með leyfi forseta:

,,En telur þú ekki að Geir A. Gunnlaugssyni hafi borið skylda til þess að upplýsa þig um málið um miðjan febrúar?``

Þá svarar hæstv. ráðherra:

,,Ég ætla ekki að fullyrða um skyldur hans gagnvart mér vegna þess að hann er einn af fjárfestunum en ég kem að málinu sem ráðherra.``

Þegar fréttamaðurinn síðan spyr ráðherrann, með leyfi forseta: ,,En er hægt að treysta manni sem viðurkennir það á opinberum vettvangi að hafa logið?`` svarar hæstv. ráðherra: ,,Ég ætla ekkert að svara frekar um það.``

Í þessum fréttatíma, virðulegi forseti, hefur ráðherrann valið þann kostinn að skjóta sér á bak við það að hafa ekki verið búin að fá vitneskju um þetta og lætur að því liggja að viðkomandi stjórnarmaður hafi ekki gefið sér upplýsingar með eðlilegum hætti eða á eðlilegum tíma.

Í byrjun apríl upplýsti formaður stóriðjunefndar, sem hefur einmitt stýrt eða tekið þátt í viðræðum við Norsk Hydro, forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, Þórður Friðjónsson, í blaðaviðtali að hann hafi greint hæstv. iðnrh. frá því að í lok febrúar hafi verið teknar ákvarðanir hjá Norsk Hydro um að staðan þar væri þannig að tímasetningar varðandi álver í Reyðarfirði kynnu að raskast. Með leyfi forseta:

,,Aðalsamningamaður Norsk Hydro lét mig vita af því að blikur væru á lofti með tímasetningar og í framhaldi af því lét ég ráðherrann vita af málinu,`` segir Þórður Friðjónsson, formaður samráðsnefndar Norsk Hydro, íslenskra stjórnvalda og fjárfesta og Landsvirkjunar vegna Reyðarálsverkefnisins.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja frekar það sem fram kemur í viðtölum við hæstv. iðnrh. Það er alveg ljóst að frá því um miðjan febrúar hefur hæstv. ráðherra vitað að þessi mál væru í uppnámi. Ráðherrann hafði verið upplýstur um það. Það er þess vegna ekki stórmannlegt að í viðtölum við fjölmiðla skuli hún láta að því liggja að embættismenn eða aðrir trúnaðarmenn á vegum stjórnvalda og fyrirtækisins hafi hugsanlega brugðist trúnaði við ráðherrann og ráðherrann víki að því sérstaklega. Það er ekki stórmannlegt í meðferð þessa máls.

Virðulegi forseti. Það er ólíðandi að vinnubrögð af þessu tagi viðgangist í stórmálum eins og hér er verið að fjalla um, stórmálum sem eru umdeild í þjóðfélaginu þar sem gert er ráð fyrir fjárfestingum upp á hundruð milljóna króna. Þarna er um að ræða umdeilda ráðstöfun á auðlindum og náttúruverðmætum. Áætlanir eru um mjög umdeildar umhverfisraskanir og málið hefur allt verið keyrt fram vegna tímaramma sem settur hafði verið í samningum m.a. við Norsk Hydro. Það var talin ástæða fyrir því að keyra málið fram svo hratt og af svo miklu offorsi í gegnum umhverfismat, úrskurð skipulagsstjóra og svo áfram hér á Alþingi og í gegnum nefndir. Meðan málið var enn í nefndum er öllum þeim ljóst sem þarna koma að máli að þessi tímarammi er í uppnámi. Þau rök sem þar var beitt til að keyra málið áfram voru fallin. Þá þegar var vitað að sá tímarammi héldi ekki. Þess vegna hefði verið heiðarlegt að gera Alþingi og þingnefndum grein fyrir stöðu mála og því að meiri tími gæfist til að fjalla ítarlega um málið og með fullnægjandi hætti.

Vegna þessa, virðulegi forseti, hefur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í dag sent frá sér ályktun þar sem þessari framkomu, þessum tvískinnungi er mótmælt og lögð er áhersla á að fundin verði leið til þess í þingstörfum að koma í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig líkt og við höfum hér berlega orðið vitni að.

Herra forseti. Þá er rétt að víkja að síðasta kaflanum í þessu máli, þ.e. viðbrögðum stjórnvalda varðandi atvinnumál Íslendinga og þá sérstaklega Austfirðinga. Um langt árabil hefur verið horft á álverksmiðju á Austfjörðum og stórvirkjanir þar sem aðalatriðið í uppbyggingu atvinnulífs á Austurlandi. Af hálfu stjórnvalda hefur a.m.k. fátt verið í gangi til að styrkja eða skapa öruggari umgjörð. Í allmörg ár hafa nánast verið tilbúnar áætlanir um jarðgangagerð til að bæta samgöngur á Austurlandi. Jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar hafa verið á dagskrá í mörg ár. Það var gert ráð fyrir því að þegar jarðgangavinnunni lyki á Vestfjörðum yrði farið í jarðgangagerð á Austurlandi. Nú er brátt liðinn áratugur síðan jarðgangagerðinni á Vestfjörðum lauk. Þessi ár hafa verið illa notuð.

Hv. 1. þm. Austurl., formaður Framsfl., hefði getað haft þessi mál í hendi sér ef hann hefði viljað beita sér í ríkisstjórn sem annar oddviti ríkisstjórnarinnar. Hann hefði fyrir löngu getað verið búinn að sjá til að ráðist yrði í þessar framkvæmdir ef vilji hefði verið til. Þetta er þó ekki framkvæmd nema upp á 2--5 milljarða. Frekari samgöngubætur á Austfjörðum hafa líka verið á dagskrá. Hefði verið ráðist í þær hefði það orðið til styrktar atvinnulífi á Austurlandi. Þegar þessi mál komast síðan í uppnám halda formaður Framsfl., hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, og hæstv. iðnrh. Valgerður Sverrisdóttir, áfram að berja höfðinu við steininn og segja við fólk á Austurlandi: Þetta skal áfram það úrræði sem ykkur stendur til boða. Þetta er úrræði sem við munum berjast fyrir og ekkert annað. Þetta er það sem við gerum.

Vitlegra hefði verið að snúa við blaðinu. Þau hefðu mátt vinna áfram, hefði þeim sýnst svo, að hugmyndum um iðjuver og raforkuver á Austurlandi, kanna jafnvel minni einingar, bæði í orkuverum og iðnaði. Alla vegana er ljóst að á næstu mánuðum og árum mun slíkt ekki rísa. Þess vegna ber þessum oddvitum Framsfl. skylda til að koma með nýjar leiðir og önnur verkefni inn í fjórðunginn. Þegar svo hæstv. utanrrh., 1. þm. Austurl., fer síðan og heldur opinn fund á Austurlandi getur hann enn ekki svarað því hvort hann muni beita sér fyrir því að ráðast í jarðgöngin á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Hann gat ekki sagt til um hvort þau yrðu nú sett á hraðferð, sem er að mínu viti sjálfsagt og eðlilegt. Þar eru fleiri slík verkefni sem hægt væri að setja á fulla ferð til að sýna þann hug sem Alþingi ber að sýna gagnvart atvinnumálum á Austurlandi. Þótt okkur greini á um hvort skynsamlegast hefði verið að ráðast í virkjun við Kárahnjúka og uppbyggingu Reyðaráls er alveg ljóst að búið var að byggja upp þær væntingar á Austurlandi að það hlaut að valda miklum vonbrigðum og óöryggi að heyra að þessar áætlanir gengju ekki upp. Svo mjög hefur þeim verið haldið á lofti.

Stjórnvöldum og 1. þm. Austurl. ber að hafa sérstaka forgöngu um aðgerðir til þess að styrkja byggð og atvinnulíf á Austurlandi nú þegar, aðgerðir sem þegar eru til áætlanir um eins og jarðgangagerð. Hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. segir að hugsanlega geti skapast meira svigrúm ef ekki verður ráðist í þessar virkjanir til þess að fara í þessa jarðgangagerð. Er það nú framkoma eða manndómur í þessu máli? Mér finnst þetta dapurleg framkoma af hálfu 1. þm. Austurlands.

Mér finnst að finna hefði átt fleiri mál til að styrkja þar atvinnulíf. Ég get t.d. nefnt Skógrækt ríkisins. Við heyrðum í fréttum nýverið að rætt væri um að flytja tilraunastöð Skógræktarinnar á Mógilsá og rannsóknastarfsemi hennar á Suðurland og á döfinni væri að bjóða falt landið á Mógilsá. Að minni hyggju er náttúrlega sjálfsagt og einboðið að verði hreyft við þessari rannsóknastarfsemi í skógrækt eigi skilyrðislaust að flytja hana austur og styrkja miðstöð skógræktar á Austurlandi.

Ég hefði viljað heyra hæstv. utanrrh., formann Framsfl. og 1. þm. Austurl., leggja áherslu á að athugað yrði hvar væri hægt að styrkja starfsemi sem fyrir er, t.d. skógræktina. Í staðinn þá heyrum við umræðu um að það eigi að flytja þá starfsemi á Suðurland. Að sjálfsögðu getur starfsemin orðið vel sett þar í sjálfu sér en það var tekin ákvörðun um að flytja Skógrækt ríkisins austur á Hérað og ég hef ekki heyrt neinn andmæla því. En þá væri nær að fylgja því eftir, ekki síst í þeirri umræðu sem við stöndum frammi fyrir. Ég hefði viljað heyra 1. þm. Austurl. taka til orða t.d. varðandi það að styrkja og efla Skógrækt ríkisins fyrir austan.

Ég hefði líka viljað heyra að gert yrði stórátak í ferðamálum. Hugsið ykkur að ríkið ver einungis í kringum 700 millj. kr. til þróunar- og markaðsstarfs í ferðamálum, atvinnuvegar sem þó er í svo örum vexti að talið er að á sl. ári hafi um 300.000 erlendir ferðamenn komið til landsins. Það er búist við því að á næstu 10--20 árum geti fjöldi þeirra tvöfaldast. Í rauninni er ekkert í gangi hér á landi til undirbúnings því að taka á móti svo mikilli fjölgun, né áætlanir um að nýta það í atvinnuskyni. Ímyndið þið ykkur, til þessa er einungis varið um 700 millj. kr. Hvert ársstarf í samanlagðri Kárahnjúkavirkjun og Reyðaráli, hvað ætli það hafi átt að kosta? Samkvæmt þeim tölum sem þar hafa komið upp í umræðunni hefði hvert ársstarf þar kostað um 400 millj. kr. Tvö ársstörf í stóriðjunni sem þar átti að byggja upp kosta meira en varið er til opinbers þróunarstarfs og markaðssetningar í ferðamálum. Ferðaþjónustan er þó sú grein sem er í hvað mestum vexti og skilar hvað mestri aukningu í gjaldeyristekjum til þjóðarinnar. Talið er að á síðast ári hafi hún skilað í kringum 37 milljörðum kr. í gjaldeyristekjur.

[21:30]

Á Austurlandi eru einmitt miklir möguleikar til að efla ferðaþjónustu, styrkja hana sem atvinnugrein og nýta þær náttúruauðlindir sem þar eru til að efla og styrkja ferðaþjónustuna. En í staðinn eiga þau fyrirtæki sem þar eru núna í miklu basli, fyrirtæki og einstaklingar sem leggja allt sitt, þar með talið orku sína, í þróunarstarf í ferðaþjónustu og eiga mjög erfitt uppdráttar fjárhagslega. Væri ekki nær í þessari umræðu að sýna lit og styrkja þá starfsemi sem fyrir er í stað þess að segja: Bíðið bara í tvö eða þrjú ár en við ætlum samt að koma með álverið?

Fyrir tæpum tveimur árum gat stór flugvél varla lent á Egilsstaðaflugvelli vegna þess að þar var ekki dæla til að dæla eldsneyti á vélar. Ég vona að úr því hafi þó eitthvað ræst. (Gripið fram í: Hún er löngu komin.) Ja, það er þá ekki meira en eitt og hálft ár síðan. Þá voru menn enn á fullu að ræða um 200--400 milljarða kr. fyrirtæki á Austurlandi en það var ekki hægt að ráðast í að setja upp eldsneytisdælu fyrir flugvélar á Egilsstaðaflugvelli. Þann flugvöll væri hægt að byggja upp sem ferðamannaflugvöll, og það á að stórauka fjármagn til ferðaþjónustu í landinu. Ég hefði viljað sjá t.d. að settir væru tveir, þrír milljarðar á ári í að efla ferðaþjónustu á Íslandi. Þetta er ein stærsta atvinnugreinin, sú atvinnugrein sem vex hraðast hér og á hvað mesta möguleika vítt og breitt um landið, ekki bara á Austfjörðum heldur um land allt. (GHall: Okkur vantar tekjur af álveri til þess að geta sett meiri pening í þetta.) Nei, því miður, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, þetta stenst ekki. Hvert ársverk í álveri er dýrt, tvö ársverk í álveri og virkjun kosta eins mikið og allt það sem núna er lagt til opinbers þróunarstarfs í ferðaþjónustu. Hugsið ykkur hvað þetta er fráleitt.

Virðulegur forseti. Ég tel að Alþingi beri núna að koma með raunhæfa framkvæmdaáætlun fyrir Austurland. Ég hef nefnt jarðgöngin, ég hef nefnt auknar vegaframkvæmdir í byggð og að tengja saman byggðir á Austurlandi. Ég hef nefnt Skógrækt ríkisins. Það ætti líka að vera fyllilega grundvöllur til þess að stofna háskóla á Austurlandi, háskóla sem væri sérhæfður og gæti tekið að sér sérverkefni á sviði náttúruvísinda, umhverfismála, rekstri þjóðgarða og starfað þar á alþjóðavísu.

Reynsla Akureyringa var einmitt sú að þegar menn vöknuðu upp af álversdraumunum og sneru sér að því að byggja upp innviði sína með öðrum hætti, með byggingu Háskólans á Akureyri, fór þróun byggðar og efling sjálfsímyndar að snúast þar við. Þetta á líka að gera á Austurlandi.

Virðulegi forseti. Ég óska þess að hæstv. ríkisstjórn sjái að sér í þessu máli. Það er glapræði að keyra fram á fölskum forsendum, a.m.k. mjög veikum, áframhaldandi hugmyndum um uppbyggingu stóriðju á Reyðarfirði og byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Í stað þess eigum við þegar að vinda okkur í að setja í gang framkvæmdir, verkefni á Austurlandi sem styrkja þar byggð, styrkja þar atvinnulíf á forsendum Austfirðinga sjálfra heima fyrir.