Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 21:56:06 (6845)

2002-04-03 21:56:06# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[21:56]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Andsvarið snerist um að minna okkur á að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð var ekki til hér á árum áður og það er alveg rétt, hvorki þegar verið var að ræða um álver á Keilisnesi, sem datt upp fyrir, né önnur álver þar á undan, Ísal eða Norðurál.

Hins vegar er varaþingmaður Vinstri grænna, Hjörleifur Guttormsson, til. Hann var eitt sinn iðnrh. sem byggði upp miklar væntingar hjá Austfirðingum fyrir stóriðju og nefni ég þá kísilmálmverksmiðjuna. Og Hjörleifur Guttormsson á heiður skilið fyrir það að hann keypti landið sem á að byggja álverið á fyrir hönd ríkissjóðs og startaði því verki. Hann er núna varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboð. (Gripið fram í: Í Reykjavík.) Í Reykjavík að vísu.

Aðeins um það þegar talað er um ósanngirni gagnvart Norðmönnum. Norðmennirnir, forustusveit Norsk Hydro, sögðu í fyrra að það mundi ekki hafa áhrif á verkefnið hér ef þýska álverksmiðjan yrði keypt. Og það er í rauninni það sem ég er að segja að sé að koma í bakið á okkur og það er það sem menn eru að tala um að sé mjög ósanngjarnt og slæmt hvernig þetta kemur upp núna. Auðvitað hefur sú efnahagslægð sem hefur verið í heiminum áhrif en við erum sem betur fer að byggja okkur upp úr því.

Ég vil í lokin, herra forseti, í seinna andsvari mínu ítreka það sem ég sagði í lok ræðu minnar áðan: Ég er bjartsýnn og hef trú á því að álverksmiðja verði byggð við Reyðarfjörð með þátttöku Norsk Hydro og íslenskra fjárfesta og e.t.v. fleiri fjárfestum og reyndar vonandi fleiri fjárfestum. Ég á þá ósk að sú leið eða þær viðræður sem munu fara í gang muni leiða til þess að nýir aðilar komi inn í fyrirhugað verkefni og að af verkefninu verði.

En það er vissulega slæmt að þær væntingar sem búið var að byggja upp skuli frestast um eitt eða tvö ár.