Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 22:28:46 (6851)

2002-04-03 22:28:46# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[22:28]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Nú er liðið langt fram á kvöld og hér er til 2. umr. frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Ég hélt fyrri ræðu mína rétt fyrir páska. Þá voru nokkrar blikur á lofti hvað varðaði allar tímasetningar þessa stóra verkefnis, Noral-verkefnisins, sem við erum að hluta til að ræða hér, því að Jökulsá í Fljótsdal er forsenda þess að hægt verði að reisa hið stóra álver á Reyðarfirði.

[22:30]

Frá því að ég hélt fyrri ræðu mína hefur verið lesin upp á Alþingi yfirlýsing Noral-hópsins, samstarfshópsins. Þar með var staðfest að tímaáætlanir standast ekki og hefur þó öll vinnan við þetta frv., allur undirbúningur þess, miðast við tímaáætlanir Noral-verkefnisins sem búið er að fresta í tvígang. Tímaramminn hefur í raun haft mikil áhrif á þá vinnu sem við byggjum málflutning okkar á. Það er alveg ljóst að til að vinna mat á umhverfisáhrifum þessarar stóru virkjunar hefði þurft lengri tíma. Í undirbúning fyrir slíkar framkvæmdir er ekkert óeðlilegt að ætla sér þrjú til fimm ár, sérstaklega þegar við stöndum frammi fyrir því að margar grunnrannsóknir sem þurfa að liggja fyrir við kortlagningu á slíku verkefni voru ekki til staðar. Það þurfti að fara í frumrannsóknir á mörgum sviðum. Sumar þeirra rannsókna lúta að náttúrufari á ýmsum sviðum og þá segir sig sjálft að það þarf lengri tíma en tæp tvö ár, fleiri en eitt sumar til þess að standa í slíkum rannsóknum.

Mat á umhverfisáhrifum bar þess nokkur merki að vera settur þessi tímarammi. En þrátt fyrir þessa miklu pressu og þrátt fyrir að Landsvirkjun hefði réttlætt hinar miklu raskanir á náttúru landsins inn við Dimmugljúfur eða við Hafrahvamma, þau óafturkræfu náttúruspjöll með þjóðhagslegri arðsemi verksins, féll úrskurður skipulagsstjóra á þann veg að falla ætti frá þessari virkjun, hún væri of mikið óafturkræft inngrip í þetta umhverfi og þjóðhagsleg arðsemi dygði ekki til til að réttlæta þennan verknað.

Svo þekkjum við öll framhaldið, hvernig hæstv. umhvrh. sneri þessum úrskurði og lagði fram nokkrar mótvægisaðgerðir, sem eru í sjálfu sér góðar svo langt sem þær ná. En því miður stendur eftir það sem framkvæmdin féll á, þ.e. áhrif leirupphleðslu í Hálslóni og hinn mikli vatnaflutningur Jöklu úr farvegi sínum yfir í Lagarfljót, skerðing Kringilsárrana yrði jafnframt ekki aftur tekin og að öllum líkindum mundu áhrif virkjunarinnar með tímanum ná langt út fyrir þetta svæði. Á þessu stigi er ekki hægt að fullyrða að hægt verði að ráða við fok frá Hálslóni.

Herra forseti. Ég fór yfir þetta og fleira í fyrri ræðu minni en hafði þá talið ástæðu til að falla frá þessari framkvæmd. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er af mörgum ástæðum alfarið á móti Kárahnjúkavirkjun, þeirri sem hér er talað fyrir, og stækkun Kröfluvirkjunar. Ég vil nefna nokkrar þeirra því að borið hefur á því hér í umræðum hv. þingmanna að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sé fallin frá græna litnum, búin að taka af sér grænu kápuna, sé komin rauða og fari ekki úr henni þar sem við höfum með auknum þunga lagt áherslu á eða dregið fram hin efnahagslegu rök í málinu sem eru mjög veik og standast ekki, hin þjóðhagslega hagkvæmni alls verksins stenst ekki ef tekið er til allra þátta.

Í fyrsta lagi erum við þingflokkur sem hefur annað á stefnuskrá sinni en stóriðju líkt og núv. ríkisstjórn beitir sér fyrir, þ.e. að leggja ofurkapp á álver og stóriðju til nýtingar orku úr fallvötnum og jarðgufu landsins þannig að annað kemst varla að. Við erum ekki andsnúin stóriðju sem slíkri og höfum ekki beitt okkur gegn hugsanlegum framkvæmdum sem verið á Grundartanga. Það sem skiptir máli í þessu sambandi er auðvitað heildarsýnin, þ.e. hvaðan á að taka orkuna og hvernig sú orkunýting verður. Hvernig náum við henni fram? Hverju þarf að fórna? Það er mjög erfitt að ná fram nýtanlegri vatnsorku án þess að valda einhverjum umhverfisspjöllum. Það verður að meta í hvert einasta skipti og vanda til verksins þannig að umhverfisáhrifin verði minnkuð eins og hægt er. Síðan þarf að horfa á málið í því samhengi hversu stóran hluta nýtanlegrar orku við viljum binda í einsleitri framleiðslu, hvort það á eingöngu að vera ál eða önnur stóriðja sem við viljum fara í. Það er hættulegt, herra forseti, að hafa öll eggin í sömu körfunni og binda svo stóran hluta af nýtanlegri orku í eina atvinnugrein. Þetta er okkar sýn og hafa verður heildarsýnina í huga.

Við erum líka mótfallin því að á þeim tíma sem verið er að vinna rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sé farið í að taka svo stóran hluta nýtanlegrar vatnsorku frá til einnar virkjunar í stað þess að klára rammaáætlunina og sjá hana í heild sinni.

Núna ættum við, herra forseti, að hafa tíma til að klára rammaáætlunina með eðlilegum hætti og sjá hvernig Jökla og Lagarfljót komi út í rammaáætluninni. Nú höfum við tækifærið, án þess að trufla nokkuð það ferli sem stóriðjusinnar vilja halda til streitu. Við hefðum a.m.k. betri grunn til að byggja á og gætum þá frekar réttlætt þessar framkvæmdir eða þær framkvæmdir sem farið yrði í, hefðum við rammaáætlunina til að byggja á.

En áhrif virkjunarinnar, eins og ég sagði áðan, eru óafturkræf og náttúruspjöllin af hennar völdum í þeim mæli að fyrir öðru eins er ekki fordæmi hér á landi, og er alveg sama hvort við tölum um verkið út frá inngripi í náttúruna, út frá þjóðarhag eða hinum félagslegu áhrifum verkefnisins. Eins og ég sagði verður að hafa í huga skerðingu Kringilsárrana og áhrifin af Hálslóni, leirburðinn sem er ekki yrði hægt að komast fyrir. Í Jöklu er mesti leirburður hér á landi og þó víðar væri leitað í einu jökulfljóti. Hann mun gera meira en að fylla Hálslón á tiltölulega skömmum tíma miðað við sögu lands og þjóðar.

Þó að okkur finnist 40 ára líftími þessara stórframkvæmda langur tími er það stuttur tími í sögunni 100--200 ár fram í tímann. Að ætla sér að skilja það verkefni eftir óleyst fyrir afkomendur okkar, að fást við leirsoppuna sem sest til í Hálslóni og sitja uppi með það sem ekki verður nýtanlegt lón, þann kostnað að eyðileggja eða farga virkjuninni til að koma jökulánni aftur í rennsli, er fórnarkostnaður sem við reiknum ekki einu sinni með í verði til hugsanlegra rekstraraðila álversins, hvað þá að hugsað sé fyrir að þeim sé gert að greiða fyrir landnot eða mengunarskatta eða að standa undir þeim kostnaði sem af þessum spjöllum hlýst.

Því er haldið fram að við séum með gullmola í höndunum og séum að reyna að koma honum út en það gengur ekki þrátt fyrir að Norsk Hydro hafi hvergi í samningsdrögum sem hafa legið fyrir --- nú getur maður ekki vitnað í þau drög nema af sögusögnum því að ekki höfum við fengið að sjá þau --- þurft að bera kostnað af því að hreinsa upp afleiðingar af virkjuninni né greiða mengunarskatt né greiða fyrir land.

Herra forseti. Ef hægt væri að treysta því að allar efnahagslegar forsendur fyrir verkinu væru mjög sterkar og áreiðanlegar, eins og haldið er fram, gæti maður hugsanlega reynt að afsaka þessar framkvæmdir og náttúruspjöll með því. En það er ekki svo gott. Þessu er haldið fram en það er ekki hægt að gera þá útreikninga með hlutlausum aðilum á þeim forsendum sem Landsvirkjun gefur sér. Það er hægt að spá í spilin en ekki meira. Það eru fleiri hagfræðingar og rekstraraðilar sem hafa farið yfir þessar hugsanlegu forsendur og fengið allt aðra útkomu en Landsvirkjun ber á borð. Ég sé enga ástæðu til að rengja þá aðila nokkuð frekar. Þá þyrfti, sérstaklega ef litið er til þess að ekki er tekið tillit til þátta sem ég rakti hér áðan í raforkuverði, ef við viljum vera sanngjörn gagnvart afkomendum okkar, raforkuverðið að vera umtalsvert hærra en geta má sér til um að það sé í samningsdrögum í dag, eða yfir 20 mill.

[22:45]

Allar þessar stórframkvæmdir hafa áhrif á samfélagið. Óhjákvæmilega verða mikil og að mörgu leyti jákvæð áhrif á Miðausturlandi, því ber ekki að neita, og þeirra áhrifa bíða mjög margir, fullir eftirvæntingar vegna þeirra loforða sem gefin hafa verið. Fólk vill trúa því enn að hægt verði að standa við þessi loforð því að fólk lítur til þeirra áhrifa sem mun gæta, sérstaklega meðan á uppbyggingu stendur, þeirra áhrifa sem sjá mun stað í nærsamfélaginu þegar, og ef, af rekstri álversins verður.

Já, óneitanlega verða ýmis jákvæð áhrif. En áhrifin verða líka neikvæð og mér finnst þau áhrif gleymast þegar menn tala af ákafa fyrir þessum framkvæmdum. Jákvæðu áhrifin eru dregin fram en þau neikvæðu eru höfð til hliðar. Að öllum líkindum verða mjög neikvæð jaðaráhrif, t.d. munu Vopnfirðingar og þeir sem búa á Djúpavogi og þar fyrir sunnan verða lítið varir við þá jákvæðu þætti sem stafa af rekstri stórs fyrirtækis á Miðausturlandi, og hugsanlegt er að svo stór vinnustaður dragi til sín íbúa af jaðarsvæðunum sem horfi þá fram á enn frekari fólksfækkun. Þannig gæti þessi aðgerð unnið algjörlega gegn því sem til er ætlast á þessum jaðarsvæðum, þ.e. styrkingu byggðar.

Þetta mun einnig hafa áhrif á önnur fyrirtæki á svæðinu, hjá því verður ekki komist. Þegar svo stór vinnustaður er settur niður og framkvæmdir eru í fullum gangi dregur slíkt til sín starfsmenn úr öðrum fyrirtækjum. Sprotafyrirtæki og þau sem hafa veika burðarliði, eins og háttar því miður um mörg fyrirtæki á þessu svæði, munu tapa og verða undir. Þau sterkari munu standa en því miður eru þau ekki mjög mörg á þessu svæði --- betur að svo væri. En við skulum ekki gera lítið úr þessum áhrifum á aðra vinnustaði og halda að allt verði í blóma ef við fáum bara þennan eina stóra.

Svo er þetta karlavinnustaður að mestu leyti. Þó að störfum kvenna hafi eitthvað fjölgað og þessi stóru álfyrirtæki séu að reyna að laða til sín kvenfólk er þetta og mun verða um langan tíma að mestu leyti karlavinnustaður og það eitt mun skapa vandamál ... (GÁS: ... konunum þætti ... ) Ég segi að það mun skapa ákveðið vandamál og við skulum ekki gera lítið úr því, því að margir eru fjölskyldumenn og þá þarf jafnframt að hugsa fyrir því að hafa atvinnu fyrir konurnar líka. Það er ekki nóg að eingöngu sé atvinna fyrir karlmanninn, það þarf líka að skapa konunni atvinnutækifæri. Annars munu karlar koma, vinna í törnum og búa einhvers staðar annars staðar þar sem konur þeirra hafa atvinnu. Ef við ætlum að undirbúa austfirskt samfélag fyrir þennan stóra vinnustað þarf að undirbúa samfélagið til þess að taka á móti fjölda kvenna. Það væri gott ef það væri hægt. En við skulum líta á reynsluna, staðreyndirnar um vinnumarkaðinn í dag og ekki gera lítið úr þessum þætti.

Það er ljóst og þýðir ekki að neita því að til þess að geta mannað starfsemina, bæði á framkvæmdatíma og eins þegar kemur að rekstri álversins, þarf að flytja inn vinnuafl enda er það ein af þeim forsendum sem settar eru fram af Þjóðhagsstofnun til að þetta verkefni geti gengið, að möguleikar á innfluttu vinnuafli verði rýmkaðir. Ég nefni þetta og álverið í sömu andrá og Kárahnjúkavirkjun út frá þeim lagaramma sem við erum að fjalla hér um því að þetta hangir allt saman. Ekki væri verið að fara í þessa miklu virkjanaframkvæmd nema vegna álversins á Reyðarfirði og þess stóra verkefnis sem við köllum Noral-verkefnið.

Herra forseti. Noral-verkefnið var sett inn í ákveðinn tímaramma fyrir samstarfsverkefni Íslendinga og Norðmanna, Landsvirkjunar og iðnrn. og Norsk Hydro, en hann er sprunginn. Málið er í uppnámi og samkvæmt þeim upplýsingum sem komu fram á fundi á Reyðarfirði í gærkvöldi getur í fyrsta lagi í lok ársins 2003 eitthvað skýrst í málinu hvað varðar annan samstarfsaðila að þessu stóra verkefni í áliðnaði. Þó að samstarfsaðili finnist á þessum tíma, og unnið verði hratt og vel í þeirri nýju nefnd sem búið er að setja á laggirnar undir forustu Finns Ingólfssonar, fyrrv. iðnrh. og núv. seðlabankastjóra, er alls ekki víst að núverandi hönnun Kárahnjúkavirkjunar muni henta þeim samstarfsaðila. Þá geta verið uppi allt aðrar hugmyndir um stærð, framkvæmdahraða eða uppbyggingu verksins en er í dag. Mér finnst alveg fráleitt að láta sér detta í hug að knýja þetta mál fram núna þegar við höfum unnið þennan tíma og vitum að við erum ekki að tefja nokkurn skapaðan hlut með því að leggja frv. til hliðar. Við eigum ekki að leggja fram nýtt frv. fyrr en nýr samningsaðili hefur fundist, ef hann finnst, og gera svo bindandi samninga um raforkusöluna, um verð á orku, framleiðsluna, uppbygginguna, mengunarvarnirnar, auðlindagjaldið og mengunargjaldið, og tryggja að þessi fyrirhugaða stóriðja verði arðbær fjárfesting með öllum þessum þáttum fyrir þjóðarbúið.

Ef þetta verkefni er eins arðsamt og af er látið og eins mikill gullmoli og lýst er á ekki að þurfa að vera búið að afgreiða lög og hafa allt tilbúið upp í hendurnar á hugsanlegum samstarfsaðila eða framkvæmdaaðila. Ef samningar nást við einhvern slíkan aðila á þessum tíma eða síðar mun örugglega ekki standa á því að gefa þá út virkjunarleyfi. (GÁS: Ætlið þið að sjá um það?) Við þurfum ekki að sjá um það. Ef allar þessar forsendur eru til staðar og ef við getum veitt þá raforku sem hugsanleg stóriðja þarf og tillit verður tekið til þeirra þátta sem sleppt er í dag, mat á umhverfisáhrifum stenst, rammaáætlun verður tilbúin á þessum tíma --- auðvitað þurfum við að meta alla hluti á eigin forsendum. Núna höfum við þennan tíma og ekkert rekur á eftir okkur.

Það vekur hjá mér enn frekari ugg að núna sé sagt: Við þurfum að afgreiða þetta frv. til þess að meiri líkur séu á að einhver vilji koma og reisa hér álver. Hvaða arðsemi erum við þá að tala um? Hvaða gullmoli er það sem við höfum ef við þurfum að leggja svona mikið upp í hendurnar á viðkomandi aðila? Verður það þá næst að geta lofað því að það verði ekki bara Krafla, það verði líka Jökulsá á Fjöllum, eða að við munum setja kostnaðinn inn á rafveitukerfið og greiða með framkvæmdinni?

Málið er líka að hugsanlega þarf núna að knýja þetta mál fram á Alþingi áður en við tökum raforkulögin til afgreiðslu. Öll þessi framkvæmd, þetta Noral-verkefni eða svipað verkefni, mun aldrei geta farið í gegnum þingið eftir að ný raforkulög hafa tekið gildi. Við skulum skoða þetta, anda aðeins djúpt og athuga hvort við erum ekki í einhverju gönuhlaupi við að samþykkja allra stærstu og mestu virkjun og framkvæmd í Íslandssögunni á tíma sem mun í nánustu framtíð verða talið algjört glapræði og sögulegt slys, að horfa ekki á þetta með tilliti til nýrra raforkulaga og rammaáætlunar.

[23:00]

Herra forseti. Ýmislegt hefur komið fram í umræðunni í dag sem vert væri að huga aðeins að. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði í dag að það væri umhugsunarvert hvernig þingmenn nota málfrelsið hér í þinginu. Ég vil, herra forseti, mótmæla þeim orðum hv. þm. að það sé umhugsunarvert hvernig við notum það málfrelsi sem við höfum. Ég varð því miður of sein í þingsalinn til þess að gera athugasemd við orð hv. þm. þegar hann hafði lokið ræðu sinni og vil því geta þess hér. En ég tel ekki að haldið hafi verið uppi einhverju málþófi í þessu máli. Ég hef hlustað hér á mjög margar ræður. Þær hafa allar verið efnislegar. Þær hafa allar verið málefnalegar. Þær hafa allar verið um það efni sem við erum að fjalla um. En, herra forseti, þetta er langstærsta mál sem við höfum fengist við hér á þinginu, efnahagslega, umhverfislega, þjóðhagslega og á öllum sviðum. Við höfum mismunandi skoðanir á því út frá mismunandi forsendum hvort eigi að fara í þessar stórframkvæmdir. Ég leyfi mér að fullyrða að þingmenn verði að fá að ræða það hér og koma skoðunum sínum á framfæri. Ég tel það mjög hættulegt ef við leiðum hugann að því að takmarka ræðutíma þingmanna því enginn veit hvaða mál geta komið hér upp og það veit enginn hver verður í stjórn og hver í stjórnarandstöðu á næsta kjörtímabili. Við þingmenn verðum, á hvaða tíma sem er, að hafa þennan möguleika til þess að koma máli okkar á framfæri og þá til þess að tala hér í fleiri klukkutíma ef málið er þess eðlis að menn telja að það eigi við. Hvort sem við köllum það málþóf eða málflutning eða eitthvað annað, þá er þetta okkar tæki, okkar möguleiki. Þó að okkur þyki erfitt í ákveðnum málum sem eru viðkvæm eins og þetta að hlusta á langar ræður þá verðum við bara að gjöra svo vel og gera það.

Ég vil líka minnast hér á ályktun þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og tillögu til ályktunar til forsn. sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagði hér fram. Ályktun þingflokksins var samþykkt í dag og hv. þm. Ögmundur Jónasson las hana hér upp. Þar fordæmir þingflokkurinn harðlega að mikilsverðum upplýsingum sem vörðuðu stöðu Noral-verkefnisins svonefnda og stjórnarfrumvarps um Kárahnjúkavirkjum og stækkun Kröfluvirkjunar skuli hafa verið haldið leyndum fyrir Alþingi og viðkomandi þingnefndum meðan málið var þar til umfjöllunar.

Herra forseti. Ályktunin er lengri. Ég les hana ekki hér aftur. Hæstv. utanrrh. brást harkalega við henni og ásakaði hann Ögmund Jónasson og Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð um að ætla að yfirtaka mál og beita ólýðræðislegum vinnubrögðum. Við erum bara ekki sammála um mikilvægi þeirrar atburðarrásar sem átt hefur sér stað og er orðin opinber, þ.e. að á mjög viðkvæmu stigi við afgreiðslu þessa máls í þingnefndum og hér í þinginu fengu þingmenn ekki þær upplýsingar sem við í dag vitum að hefðu getað haft áhrif á afgreiðslu málsins, alla vega sett það í annan farveg. Kannski má segja að í stríði sé allt leyfilegt og að tilgangurinn helgi meðalið. En við töldum að það hefði verið á áætlun að klára þetta mál fyrir páska og það var kannski í ljósi þess að hluta til sem ekki var verið að upplýsa þingmenn fyrr en í allra lengstu lög um stöðu málsins og þá frestun sem var þá orðin staðreynd. Án þess að ég ætli að rekja það hér sem ég er með mér, þ.e. tíma yfirlýsinga og dagsetningar sem hafa komið fram í fjölmiðlum --- það hefur verið tekið saman hver sagði hvað á hvaða tíma og hver vissi hvað á hvaða tíma --- þá hefur það komið fram að hæstv. utanrrh. var í símsambandi við yfirmenn Norsk Hydro á undan hæstv. iðnrh. Þetta eru fréttir sem komu fram í fjölmiðlum og ég hef ekki heyrt að hæstv. utanrrh. dragi það til baka. En þar sem hæstv. utanrrh. situr hér í salnum væri æskilegt að hann gæfi okkur upplýsingar um hvað honum og yfirmönnum Norsk Hydro fór á milli í þessum samtölum sem hann átti áður en iðnrh. náði sambandi við yfirmann Norsk Hydro, því samkvæmt öllum útreikningum þá tók það hæstv. iðnrh. allt að þremur vikum að ná sambandi við þann yfirmann.

Herra forseti. Margt hefur komið fram í þingræðum en enn er margt ósagt eða ástæða til að leggja áherslu á. Því vil ég sérstaklega nefna þáltill. á þskj. 5. Það er 5. mál en hefur ekki fengið afgreiðslu á þinginu. Hún er um sérstakt átak til að treysta byggð og efla atvinnulíf á landsbyggðinni. Þetta er þáltill. sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð flutti og ástæðan er sú að þingflokkur okkar hefur miklar áhyggur af þeirri byggðaröskun sem hefur verið undanfarin ár og komið illa við ákveðna landshluta, Austurland þar á meðal, Vestfirði og fleiri staði. Við lögðum til með tilliti til þess ástands sem hefur verið ríkjandi á Austurlandi, að byrjað yrði í eins konar svæðisbundnu átaki á Austurlandi í atvinnuuppbyggingu og til styrkingar byggðar með margvíslegum hætti og byggt á þeirri reynslu sem fengist með slíku svæðisbundnu átaki. Þetta er verkefni sem hefur verið farið í í öðrum löndum og gefist vel, þ.e. að efla fjölbreytt atvinnulíf og menntun á forsendum byggðanna sjálfra. Við viljum að slíkt átak verði í höndum heimamanna, að þeir fái til þess fjármagn og verði styrktir til eigin frumkvæðis.

Herra forseti. Ég vil óska eftir því að þessi tillaga sem er á þskj. 5 og er 5. mál þingsins --- það lýsir því að hún var lögð fram í upphafi þingsins --- verði tekin hér og nú til afgreiðslu og samhliða inn í stöðuna eins og hún er nú. Það er kallað eftir aðgerðum. Austfirðingar fjölmenntu á fund á Reyðarfirði í gærkvöldi þar sem kallað var eftir stórframkvæmdum eins og jarðgangagerð. Ég lýsi fullum stuðningi við þær kröfur og tel að nú eigum við og ríkisstjórnin að taka ákvörðun um að fara í allar þær opinberu framkvæmdir sem þegar eru komnar á dagskrá varðandi Austurland og þá sérstaklega hvað varðar vegagerð og jarðgöng. Jarðgöng eru ekki eingöngu byggðastyrking. Ef við lítum á þau jarðgöng sem eru nær tilbúin til útboðs, ef þau eru þá ekki tilbúin, jarðgöngin á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, þá er engin þversögn að tala um þau jarðgöng bæði sem byggðastyrkingu og eins í samhengi við umræðu um að stóriðja rísi á Reyðarfirði, sem hugsanlega getur gerst einhvern tímann. Að mínu mati á forsenda þess að stækka atvinnusvæðið og draga úr jaðaráhrifum stórframkvæmda eins og stóriðju eða annarra stórframkvæmda að vera sú að búið verði að koma þessum jarðgöngum í gagnið áður en hugsað er til þess að fara í einhverjar slíkar framkvæmdir eins og hafa verið fyrirhugaðar, og þó að þær verði minni. Jarðgöng eru því bæði byggðastyrking og gagnast eins atvinnusvæðinu.

Þá vil ég líka nefna jarðgöng á milli Héraðs og Vopnafjarðar sem núna ætti að skoða í beinu framhaldi af Reyðarfjarðar/Fáskrúðsfjarðargöngunum. Nú ætti að einhenda sér í hönnun og undirbúning þeirra jarðganga til þess að ekki falli nú niður framkvæmdaáætlun jarðgangagerðar á Austurlandi, heldur að jafnt og þétt verði haldið áfram.

Það að fara í svæðisbundið átak og veita opinberan stuðning er ekkert meira en langstærsta opinbera framkvæmd sem lýst hefur verið í Íslandssögunni, þ.e. Noral-verkefnið sem langstærstu byggðaáætlun allra tíma. Miðað við þá miklu framkvæmd ætti ekki að vefjast fyrir stjórnarliðum að fara í svæðisbundið átak á Austurlandi og setja í það umtalsverða fjármuni. Við nefndum 400 millj. á ári í þessari þáltill. Það er ekki heilög tala. Hún mætti bæði vera hærri og lægri. En með þáltill. vildum við lýsa því yfir að þetta ættu að vera fjármunir sem hefðu eitthvað að segja.

Mig langar undir lokin að vitna til ummæla hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar úr Ríkisútvarpinu þann 19. mars nýliðinn. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Davíð Oddsson forsætisráðherra segir ljóst að ekki verði ráðist í svo dýrar framkvæmdir sem Kárahnjúkavirkjun nema fyrir liggi að sala orku frá virkjuninni verði tryggð.`` ---- Nema fyrir liggi að sala orku frá virkjuninni verði tryggð.

Hann segir í viðtalinu að ekki komi á óvart að fréttir berist af hiki Norsk Hydro gagnvart álversframkvæmdum og minnir á að hann hafi margoft lagt á það áherslu í umræðum á Alþingi að álver væri ekki í hendi fyrr en samningar um það liggi fyrir undirritaðir. Davíð segir ástæðu til að hafa áhyggjur af áformum Norsk Hydro um byggingu álvers við Reyðarfjörð, hann hafi þó ekki sjálfur verið í sambandi við Norðmennina, það hafi aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni annast, en Norsk Hydro verði að gefa um það skýr svör á næstu vikum hvort fyrirtækið hyggist taka þátt í verkefninu.

[23:15]

Svarið er komið, Norsk Hydro hefur gefið verkefnið frá sér, a.m.k. varðandi tímaáætlunina, og Íslendingum er heimilt að leita að öðrum samstarfsaðila eða -aðilum, einum sér eða með Norsk Hydro. En ástæða þess að ég dreg fram þessa tilvitnun í hæstv. forsrh. er sú að í svona viðræðum eins og þeim samningaviðræðum sem hafa verið í gangi um þetta Noral-verkefni er ekkert í hendi fyrr en búið er að skrifa undir. Ég undirstrika að það á að ganga frá samningum áður en farið er í virkjunarframkvæmdir. Annað er óábyrgt. Vonandi verður einhvern tíma virkjað fyrir austan, og allt bendir til þess þó að yfirlýsing hæstv. iðnrh. um virkjanir hafi að mínu mati verið þversagnakennd. Hún segir að ef það eigi að fara í aðrar virkjunarframkvæmdir en þessa stóru Kárahnjúkavirkjun, minni vatnsaflsvirkjanir, verði þær að fara í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og vinnast samkvæmt henni. Mér fannst þessi yfirlýsing vera nokkuð þversagnakennd. Það á að taka þær minni og setja í rammaáætlunina en sú allra stærsta þarf ekki að fara í mat.

Það er dýrt að flytja raforkuna yfir hálendið en við megum ekki gleyma að það frv. sem hér liggur fyrir og á að afgreiða er í sjálfu sér sérsniðið að þörfum álversins á Reyðarfirði. Þar af leiðandi er stækkun Kröflu inni í frv. þó að ekkert umhverfismat hafi þar verið gert og ekki heldur á línunum yfir hálendið frá Kröflu í Kárahnjúkavirkjun eða til Reyðarfjarðar. Í frv. sjálfu er engin binding á orkunotkun Kárahnjúkavirkjunar við álverið á Reyðarfirði. Leyfið er í rauninni alveg galopið. Ef þetta frv. verður afgreitt er það algjörlega óskrifuð bók, ávísun á hvaða orkunýtingu sem er. Það er ekki bundið álverinu við Reyðarfjörð og ef mönnum dytti í hug að það mundi eftir sem áður borga sig að flytja orkuna með raflínum og nýta hana annars staðar er ekkert í þessu frv. sem bannar það. Ég vil að menn taki eftir því að þótt hér séu gefin loforð um hvernig eigi að nýta þessa orku verður þessi ríkisstjórn ekki til eilífðar. Hún verður í hæsta lagi eitt ár til viðbótar í óbreyttri mynd, og þá verða alþingiskosningar. Það er ekki sjálfgefið hverjir munu þá sitja í næstu ríkisstjórn. Ef lögin verða samþykkt er mönnum alveg frjálst að nota orkuna í hvaða stóriðju sem er, og fer eftur ákvörðun þeirra ríkisstjórna sem þá hafa völdin.