Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 10:37:07 (6879)

2002-04-04 10:37:07# 127. lþ. 109.92 fundur 454#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[10:37]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Það er rétt að árétta, í tilefni af ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að það er mat okkar í iðnn. að enginn hafi sagt ósatt í þessu ferli. Við teljum að það hafi verið eðlilegt. Rétt er að hafa í huga að það eru aðilar utan þingsins sem eru að semja um að reyna að koma á viðskiptasambandi. Við slíkar kringumstæður ríkir ákveðið siðferði, viðskiptasiðferði. Menn eru bundnir trúnaði í slíkum umræðum. Það er eðlilegt í öllum viðskiptum.

Þegar á því verður breyting, þegar það liggur ljóst fyrir að forsendur hafa breyst, er þinginu gerð grein fyrir því. Það liggur ekki formlega fyrir fyrr en 19. mars. Hér hefur því enginn sagt neinum ósatt. Þetta er í eðlilegum farvegi.

Ég árétta hins vegar að það hefði að sumu leyti verið eðlilegra að gera grein fyrir því að þetta hik væri komið á málin. En menn ræddu það hik og niðurstaða af því fékkst ekki fyrr en 19. mars, herra forseti.

Þá vil ég líka upplýsa að nefndinni gafst ekki tími til þess, við lukum störfum kl. rúmlega 10, en við munum láta taka saman þær dagsetningar sem máli skipta og þá mun hv. þm. Ögmundur Jónasson sjá að hér hefur enginn sagt ósatt. Hann á þess vegna að láta af því orðalagi sem honum er gjarnt á að halda hér uppi, að vera með dylgjur og væna fólk jafnvel um ósannindi. Það er ekki mjög merkilegur málflutningur.