Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 10:42:59 (6882)

2002-04-04 10:42:59# 127. lþ. 109.92 fundur 454#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[10:42]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er rétt að halda því til haga að þingmenn Samfylkingarinnar fóru fram á að þeir aðilar sem tengjast Reyðarálsverkefninu og embættismenn sem hafa komið fyrir þingnefndina, iðnn. og efh.- og viðskn. vegna málsins, kæmu fyrir nefndina til að skýra þá óvissu og þau óskýru skilaboð sem gefin hafa verið í umfjöllun um þetta mál. Við þessu var orðið mjög snarlega. Sá fundur var haldinn í morgun. Ég verð að segja, herra forseti, að ég lít svo á að þar höfum við fengið viðhlítandi skýringar frá þessum aðilum eins og hér hefur verið nefnt af hv. þm. Hjálmari Árnasyni, formanni iðnn., og hæstv. iðn.- og viðskrh.

Það er svolítið merkilegt, herra forseti, að horfa á það hér að fulltrúi Vinstri grænna í iðnn. sem sat fundinn og hlustaði á þessar skýringar skuli ekki koma hér upp um störf þingsins og mótmæla þessu framferði heldur eru það aðrir þingmenn flokksins sem ekki sátu fundinn og fengu ekki þessar skýringar. Það skyldi þó ekki vera vegna þess, herra forseti, að sá ágæti þingmaður, Árni Steinar Jóhannsson, sé sáttur við þær skýringar sem okkur voru gefnar á fundi iðnn. í morgun?

(Forseti (HBl): Það ber að segja háttvirtur þingmaður.)