Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 10:44:20 (6883)

2002-04-04 10:44:20# 127. lþ. 109.92 fundur 454#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[10:44]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil taka undir að það var mjög góður og upplýsandi fundur sem var haldinn í iðnn. í morgun. Rökstuðningur þeirra tvíburabræðra, hv. þm. Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar, er með ólíkindum. Þeir töluðu fram undir morgun um þessi mál. Í raun er ekkert nýtt í stöðunni. Þeir hanga alltaf á þeim atriðum sem þeir finna í hvert og eitt sinn. Nú er það Norsk Hydro. Áður var talað um skurðgröfukjafta, ýtutennur og þess háttar. Þeir eru sífellt að nuða um sömu hlutina.

Röksemdirnar eru einfaldar. Þessir ágætu þingmenn, þingmenn Vinstri grænna, eru beinlínis á móti þessum framkvæmdum en þeir grípa alltaf eitthvert hálmstráið. Nú hanga þeir í þessu hálmstrái og tala um að menn gangi hér um ljúgandi, þingmenn og ráðherrar gangi hér um ljúgandi. Það er með ólíkindum hve djúpt þeir taka í árinni.

Það vill þannig til, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að ég hlustaði á ræðu þína sem var haldin einhvern tíma í nótt, á bilinu milli eitt og tvö í nótt. Ég veit að þar kom í raun ekkert nýtt fram. Hv. þm. er sífellt að hjakka í sama fari og þar kom líka fram að ef virkjunarleyfi yrði ekki veitt þá væri engu líkara en Íslendingar hefðu beinlínis ætlað að veita Norsk Hydro einokunarleyfi á þessum framkvæmdum. Þess vegna er alveg ljóst að við verðum að veita þetta virkjunarleyfi á þessu vorþingi.

(Forseti (HBl): Það ber beina máli sínu til forseta.)