Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 10:51:25 (6887)

2002-04-04 10:51:25# 127. lþ. 109.92 fundur 454#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[10:51]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Enn er höfðinu barið við steininn. Í þessu máli er búið að fara yfir dagsetningar og frásagnir æðioft úr þessum ræðustóli og ég tel mig ekki þurfa að gera það í raun einu sinni enn. En það sem hv. þm., Ögmundur Jónasson, virðist alls ekki geta skilið og hefur þó mikla reynslu úr viðskiptalífinu vegna þess að hann er í stjórn ákveðins lífeyrissjóðs, hefur verið formaður lífeyrissjóðs og býr yfir mikilli þekkingu í sambandi við viðskipti vegna þessa, en hann áttar sig ekki á því að ákvörðun skiptir máli. Í þessu mikilvæga máli skiptir það máli hvenær ákvörðun var tekin í hinu margnefnda fyrirtæki Norsk Hydro. Meðan engin ákvörðun var tekin um að breyta út af tímaáætlunum og að vinna ekki samkvæmt undirritaðri viljayfirlýsingu, þá stóð sú yfirlýsing. Þetta var margítrekað af hálfu fulltrúa Norsk Hydro í fjölmiðlum á Íslandi, í fjölmiðlum í Noregi, við mig sem ráðherra sem fer með málaflokkinn o.s.frv. Með fullri virðingu fyrir þeirri viðskiptaþekkingu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, þá áttu þessar upplýsingar og þetta hik ekki erindi til hv. þm. Það er fyrst þegar ákvörðun hefur verið tekin um breytingar sem hann ásamt öðrum þingmönnum átti rétt á upplýsingum og þá voru þær upplýsingar bornar á borð úr þessum ræðustól, fyrst sagt að yfirlýsing komi og þegar yfirlýsingin var tilbúin, þá var hún kynnt nákvæmlega úr þessum ræðustóli.