Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 10:57:29 (6890)

2002-04-04 10:57:29# 127. lþ. 109.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KF (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[10:57]

Katrín Fjeldsted (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Enginn má við margnum, segir gamalt máltæki. Við blasir að meiri hluti er fyrir því á Alþingi að virkja við Kárahnjúka og reisa álver við Reyðarfjörð.

Mín sýn á framtíðina er önnur og hið sama má segja um marga sjálfstæðismenn sem ég er málsvari fyrir. Ég er þó hlynnt því að nýta auðlindir okkar innan hóflegra marka og á sjálfbæran hátt.

Núverandi virkjunaráform munu skaða hálendi Íslands meira en hægt er að sætta sig við þrátt fyrir þær mótvægisaðgerðir sem hæstv. umhvrh. hefur krafist með úrskurði sínum. Ég tel að arðsemi af fyrirhuguðum framkvæmdum sé ekki slík að hún réttlæti svo stórfelld náttúruspjöll.

Fyrir utan það að njóta ríkisábyrgðar sem nema kann á annað hundrað milljarða kr. er framkvæmdaraðili undanþeginn sköttum og skyldum og loks kostar landið sem spillt verður ekki neitt. Ég álít að stórfelld ríkisafskipti af atvinnustarfsemi í landinu eigi að heyra fortíðinni til. Verkefni hins opinbera á að vera að setja atvinnustarfsemi almennan ramma eins og núverandi ríkisstjórn hefur að jafnaði gert. Þannig eru markaðnum búin eðlileg skilyrði og frumkvæði einstaklinganna getur notið sín.

Af ofansögðu má ljóst vera, herra forseti, að ég mun ekki greiða frv. atkvæði mitt.